142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[14:59]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt skal vera rétt, norður og suður getur stundum breytt öllu.

Það er nú svo sem ekki miklu við andsvar hv. þingmanns að bæta því að við erum held ég hjartanlega sammála í þessu efni. Þetta er í takti við þær athugasemdir og vangaveltur sem ég hef verið með í umræðunni, þ.e. að lagabreytingin breyti kannski ekki í raun og veru eða leggi ekki til mikla breytingu hvorki fyrir málsaðila né fyrir dómstólana. En ekki verður sagt að málið sé til skaða. Það hlýtur að vera til bóta. Það er almennur vilji löggjafans að þetta hafi hraðan og skýran framgang. Menn hafa reynt að flýta málum eins og fram hefur komið og menn hafa til þess heimild. Einkamálalögin gera ráð fyrir að dómarar hafi nokkurn sveigjanleika í því að meta stöðu mála í því ljósi.

Það er held ég mjög mikilvægt fyrir okkur hér sem löggjafa að halda því sjónarmiði til haga að væntanlega er það okkar meginmarkmið að löggjöf sé skýr og hún sé raunverulegt og gagnlegt verkfæri fyrir þá sem undir lögin heyra. Mér finnst þetta frumvarp ekki vera gott dæmi um slíka löggjöf.