142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið er varðar val stjórnarmanna.

Það er skemmst frá því að segja að þetta frumvarp er knappt, stutt og ber greinargerðin þess merki að hér sé verið að breyta ákvæðum laga um það með hvaða hætti stjórn RÚV skuli kjörin. Í raun má segja að lagðar séu til þær breytingar á núgildandi fyrirkomulagi að horfið verði frá því sem samþykkt var á þingi fyrr á þessu ári og haldið við það verklag og þá löggjöf að Alþingi kjósi fulltrúa í stjórn RÚV.

Við bendum á það í áliti okkar í meiri hlutanum að við upphaf þessa sumarþings hafi ekki verið skipað í nýja stjórn í samræmi við lög nr. 23/2013, en samkvæmt III. ákvæði til bráðabirgða í lögunum ber að halda hluthafafund vegna skipunar nýrrar stjórnar innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna, þ.e. fyrir 21. júní. Í rauninni má því segja að þó að þetta frumvarp komi hér fram og fari í gegnum þingið muni það ekki hafa í för með sér breytingar á því „fýsíska“ ástandi sem er í gangi varðandi stjórnina.

Ákvæði 9. gr. gildandi laga var sett fram til að stuðla að auknu lýðræði innan stofnunarinnar en efni frumvarpsins, greinargerðin, sem og þetta nefndarálit ber allt með sér að við í meiri hluta nefndarinnar teljum að það fyrirkomulag að fela valnefnd, líkt og hún yrði skipuð samkvæmt lögum nr. 23/2013, feli ekki í sér að það náist að uppfylla markmið þeirra laga um aukið lýðræði, menningarlegar og samfélagslegar þarfir íslensks samfélags heldur þvert á móti.

Ég verð að segja, frú forseti, að á sínum tíma þegar þetta mál var í umræðu í þinginu var þetta það atriði í því stóra máli varðandi breytingarnar á RÚV, þ.e. stjórnarkjörið, sem varð til þess að ég gerði miklar athugasemdir við það mál vegna þess að það að skipa slíka valnefnd var í rauninni tilraun til að færa valdið fjær borgurunum. Það hefur hingað til ekki tíðkast að nefndir Alþingis skipti sér af því eða hafi það hlutverk að skipa í stjórnir hlutafélaga á vegum ríkisins, enda er hlutverk nefnda þingsins allt annað. Mér þótti þetta persónulega mjög sérkennilegt á sínum tíma.

Frú forseti. Aftur að nefndarálitinu sjálfu. Það er álit meiri hlutans að það fyrirkomulag að fela valnefnd að tilnefna fimm af sjö mönnum í stjórn RÚV sé ólýðræðislegt og ógagnsætt. Við tökum undir sjónarmiðin sem felast í frumvarpinu, að kjörnir fulltrúar kjósenda á Alþingi séu þeir sem eru best til þess fallnir að tilnefna sjö menn í hlutfallskosningu sem verða kosnir í stjórn RÚV á hluthafafundi. Við bendum á að við þá tilnefningu þurfi að líta til þekkingar á þeim sviðum er lúta að rekstri og starfsemi RÚV og þekkingar á fjölmiðlum og menningarmálum.

Við leggjum til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir, hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir, hv. þm. Vilhjálmur Árnason og hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir.