142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á að segja að mér þótti framsöguræða hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur með nefndarálitinu heldur rýr að innihaldi og hið sama verð ég að segja um nefndarálit meiri hluta allsherjarnefndar. Það er með ólíkindum, frú forseti, að þinginu skuli boðið upp á jafn rýrt nefndarálit og fyrir liggur í þessu máli.

Í nefndarálitinu er reifað hverjir mættu fyrir nefndina eins og hefðbundið er í meirihlutaáliti. Því er lýst hvaða breytingar eru lagðar til á frumvarpinu og mér sýnist það vera bara meira og minna uppskriftin úr frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Og síðan er lagt til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Fyrir liggur að nefndinni bárust að minnsta kosti sjö umsagnir um frumvarpið, engin þeirra var jákvæð. Ekki er vikið einu orði að umsögnum sem nefndinni bárust í nefndaráliti meiri hlutans, ekki eitt orð um þau sjónarmið sem komu fram í nefndinni af hálfu umsagnaraðila og þar af leiðandi er þeim heldur ekki svarað eða rökstutt af hverju þau eru ekki tekin með eða mið tekið af þeim. Ég verð að segja að það er mjög fátítt svo ekki sé meira sagt, að í nefndaráliti meiri hluta nefndar um stjórnarfrumvarp sé ekki að finna neitt nema bara það sem stendur í greinargerð frumvarpsins og engin umfjöllun um þau álitaefni og þau sjónarmið sem komu fram í máli og afstöðu umsagnaraðila.

Ég hlýt að inna hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, formann allsherjar- og menntamálanefndar, eftir því hvernig á því stendur að nefndin fjallar ekki um þær umsagnir, reifar efnisatriði þeirra (Forseti hringir.) og svarar þeim með rökstuðningi.