142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur og biðja um fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta atriði og við þurfum endilega að fá ráðherrann á fund. Það er náttúrlega fullkomlega fáheyrt að fólk sem er að vinna að sínum lýðræðislegu réttindum, hvort heldur það er að safna undirskriftum eða bara fara í göngutúr eða eitthvað, að það sé boðað á fund ráðherra. Út af hverju? Af því að ráðherranum fellur ekki það sem verið er að gera, eða hvað er í gangi, og senda afrit á yfirmann þessa manns? Ég veit ekki hver hann er. Mér dettur helst í hug að kalla hann pilt en hann er það örugglega ekki, það er bara aldurs míns vegna sem mér dettur það í hug.

Mér finnst þetta fáheyrt og ég vil endilega biðja forseta um að þessi fundur verði núna fyrir helgi því að þetta er ekkert sem fólk á að þurfa að sofa á yfir helgina.