142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:18]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er nú eiginlega algjörlega kostuleg uppákoma. Hér erum við ekki að tala um afskipti atvinnuveganefndar eða ósk hennar um að ræða við forsvarsmenn umræddrar söfnunar, heldur erum við að ræða hér um stjórnsýslu. Við erum að ræða um stjórnsýslu hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þ.e. hvernig hann stendur að málum. Hann boðar forsvarsmenn umræddrar undirskriftasöfnunar á sinn fund og sendir afrit, ef ég skil málið rétt, af þeim tölvupósti á yfirmenn viðkomandi einstaklinga. Það getur ekki verið nein tilviljun, ráðuneytið hefur væntanlega farið í rannsóknarvinnu til að athuga hvar viðkomandi einstaklingar starfa til að fá uppgefið hverjir yfirmennirnir eru. Þetta er aðför að tjáningarfrelsi og mannréttindum viðkomandi einstaklinga. Ráðherrann verður að svara fyrir það (Forseti hringir.) hvað hann er að fara með þessum vinnubrögðum. Þetta er algerlega óafsakanlegt og ég tek undir (Forseti hringir.) kröfu um að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi saman hið fyrsta og helst að hlé verði gert á þingfundi á meðan og ráðherrann kallaður fyrir nefndina.