142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:34]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, nr. 23/2013. Það er með mjög blendnum tilfinningum sem maður kemur í ræðustól til að ræða þetta mál vegna þess að mér er fullkomlega óskiljanlegt, þó að ég sitji í allsherjar- og menntamálanefnd, af hverju það er til umræðu. Við erum á sumarþingi eftir kosningar þar sem fyrirheit voru um að taka fyrir, og við höfum gefið ádrátt um að leggja því lið, þau mál sem fyrrverandi stjórnarandstaða lagði mikla áherslu á og sagði í nánast hverri einustu ræðu að ræða ætti um hagsmuni heimilanna en ekki einhver önnur óþörf mál.

Ný lög um Ríkisútvarpið voru í undirbúningi töluvert lengi. Samþykkt höfðu verið lög um Ríkisútvarpið árið 2007 í tíð þáverandi ráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. Síðan er ákveðið að leggja mat á framkvæmdina á þeim lögum árið 2009 og skipaður starfshópur til að fara yfir stöðu mála. Það endar með því að frumvarp kemur inn á þarsíðasta þingi og er þá flutt, fer til umsagnar og kemur til skoðunar. Það fer fyrir tvö þing og að lokum er samþykkt frumvarp um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, eins og það heitir, fyrir u.þ.b. þremur mánuðum. Það er samþykkt af 35 þingmönnum nánast allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins og aðeins fjórir þingmenn greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Nokkrir sátu hjá, og þar á meðal hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála, Illugi Gunnarsson, en formaður hv. allsherjar- og menntamálanefndar greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Maður veltir fyrir sér: Hvernig stendur á að við erum að sóa tíma þingsins og vinnu í að taka nýtt mál upp í staðinn fyrir að standa við þau lög sem voru samþykkt? Hvað er það sem kallar á breytingu og það á einu atriði, þ.e. skipun stjórnar?

Nú kann einhver að segja að það skipti ekki öllu máli hvernig stjórnin er skipuð. Ágæt reynsla hefur verið af því hvernig Ríkisútvarpinu hefur verið stjórnað síðastliðin ár. En þá gæti maður líka sagt að hún skipti ekki öllu, öll sú mikla vinna þar sem við vorum að reyna að læra af hruninu, af rannsóknarskýrslunni, af umræðunni um að reyna að hafa stjórn almannastofnana í armslengd, eins og kallað var, frá beinu flokkspólitísku stjórnvaldi.

Hvaða skilaboð gefur ný ríkisstjórn með því að taka einmitt þetta mál upp sem fyrsta mál í mennta- og menningarmálum, eina málið sem hefur komið inn frá þeim hæstv. ráðherra? Hvaða skilaboð er verið að gefa? Er nokkuð að undra að maður velti því fyrir sér hvort hér sé einfaldlega annaðhvort verið með frekju þar sem sagt er: Ég vil, ég ætla, eða að hér sé komið gamla pólitíska valdið sem menn vilji hafa á stofnunum?

Það eru mikil vonbrigði ef svo er vegna þess að sú tilraun sem gerð var í lögunum og sem átti að koma til framkvæmda núna fólst í því að skipa valnefnd, og menn hefðu betur átt að fá reynslu á það fyrirkomulag og sjá hvernig það gengi. Valnefnd er tilraun til að stjórna með öðrum hætti en áður, auka vegalengdina eða fjarlægðina á milli hins beina flokkspólitíska valds og stjórnar á almannastofnunum eins og Ríkisútvarpinu, því að sporin hræða. Þá horfi ég lengri aftur í tímann og ég held að við eigum ekki að fara aftur í þann tíma.

Þetta mál er sett á með miklum hraða. Það er tekið út úr nefnd gegn vilja okkar í minni hlutanum. Við erum búin að eyða klukkutímum í að reyna að ljúka nefndaráliti sem er mjög ítarlegt, gagnstætt áliti meiri hluta nefndarinnar. Við reynum að gera grein fyrir sjónarmiðum okkar og draga fram þau álitamál sem birtast í umsögnum um frumvarpið. Við leitum auðvitað umsagna til að geta vegið og metið þær tillögur og athugasemdir sem koma fram í þeim. Engin af þeim umsögnum sem við fengum er jákvæð gagnvart þessu frumvarpi.

Það er ástæða til að spyrja hæstv. forseta af hverju við stöndum hér klukkan hálffimm á föstudegi til að reyna að ljúka umræðu um þetta mál. Það eru engin stór mál frá stjórnarmeirihlutanum sem bíða. Hvers vegna má þetta ekki fara fram yfir helgina inn á venjulegan fundartíma þar sem við höldum umræðunni áfram? Umræðan fer fram í þingsal einfaldlega vegna þess að ekki hefur verið tími til að fara ítarlega í málin í nefndinni.

Það vekur athygli þegar við skoðum samþykktina á frumvarpinu um Ríkisútvarpið fyrir þremur mánuðum, þar sem 35 greiddu atkvæði við lokaafgreiðslu, að framsóknarmennirnir sem greiddu atkvæði voru fimm og enginn úr þeirra hópi var á móti. Hvað hefur gerst í þeirra hópi? Þeir sem studdu frumvarpið óbreytt eða lokaniðurstöðuna voru m.a. tveir núverandi ráðherrar, hæstv. ráðherra Gunnar Bragi Sveinsson og hæstv. ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson.

Það vekur athygli að í þingsal í dag er enginn fulltrúi Framsóknar, hvorki úr allsherjar- og menntamálanefnd né aðrir úr þingflokknum, sem tekur þátt í umræðunni. Var það samkomulag stjórnarflokkanna tveggja að Sjálfstæðisflokkurinn fengi einn að ráða þessu og Framsóknarflokkurinn skammist sín svo fyrir að geta ekki komið hér og rökstutt af hverju þeir sáu ljósið og vildu gera þessa breytingu? Ég auglýsi eftir þessu.

Það er auðvitað skylda okkar sem þingmanna í ákveðnum nefndum, ekki síst þegar flokkar eiga eingöngu einn fulltrúa þar, að gera grein fyrir sjónarmiðum síns flokks og eigin sjónarmiðum í umræðu um einstök mál, en það er sárt að þurfa að vera hér í þingsal á sama tíma og verið er að bjóða til ráðstefna og funda, eins og gjarnan er á föstudögum vegna þess að föstudagur er yfirleitt ekki fundardagur. Í dag er fundur á Tálknafirði þar sem verið er að ræða samgöngumál og hæstv. innanríkisráðherra er þar að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum. Sem þingmaður kjördæmisins hefði ég helst viljað vera þar. Aðrir úr allsherjar- og menntamálanefnd eru á þeim fundi og leyfa sér að taka ekki þátt í þessari umræðu eða skýra á neinn hátt það nefndarálit sem þeir hafa skilað þar sem þeir styðja þessa breytingu.

Ef ég skoða af hverju er verið að gera þessa breytingu finn ég ekki eina einustu ástæðu. Það kemur fram í frumvarpinu sjálfu að það sé engin trygging fyrir því að nýju lögin muni tryggja lýðræði og gagnsæi, en því er ekki svarað hvort það að fara yfir í hlutfallskosningu og vera með í stjórn sjö fulltrúa kosna af Alþingi muni ná því markmiði. Það er heldur ekki rætt í nefndaráliti frá meiri hluta nefndarinnar. Það virðist enginn þurfa að svara því af hverju breyta eigi aftur í gamla formið. Því er heldur ekki svarað af hverju starfsmannafulltrúinn er settur út, miðað við lögin eins og þau voru samþykkt í vor, af hverju hann er dottinn út þrátt fyrir að ekki sé horfið frá því að fjölga í stjórn RÚV úr fimm í sjö. Það eru ýmsar svona spurningar sem vakna og maður á erfitt með að átta sig á því hvaða sjónarmið liggja að baki.

Minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar var tilbúinn að skipa strax valnefndarfulltrúa í samræmi við lögin. Það hefði auðvitað verið eðlilegast enda höfðu lögin verið samþykkt. Nú er komið saman nýtt sumarþing og þess er getið í nefndaráliti meiri hlutans að ekki sé búið að skipa fulltrúa. Nei, hv. formaður nefndarinnar, Unnur Brá Konráðsdóttir, hefði átt að tryggja að við kysum fulltrúa í samræmi við lögin. Bandalag íslenskra listamanna og fulltrúar háskólasamfélagsins voru búnir að tilnefna sína fulltrúa í valnefndina og það hefði verið eðlilegt að við í nefndinni hefðum tilnefnt fulltrúa með sama hætti og síðan hefði ráðherra skipað formann. Þar að auki var búið að fjalla um þetta á fundi starfsmanna Ríkisútvarpsins og kjósa í tvöfaldri kosningu fulltrúa starfsmanna. En þá kemur þetta frumvarp allt í einu inn sem eitt af brýnustu stefnumálum ríkisstjórnarinnar.

Ég sagði í gríni áðan að nú væri kannski farinn að birtast árangurinn af því að búið væri að skipta um stjórnir, eins og í lánasjóðnum, þar sem valdir voru sérstakir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þrír talsins, í stjórn sjóðsins. Ég sé í fjölmiðlum að lánasjóðurinn gaf starfsmönnum sínum leyfi frá klukkan tvö í dag. Það verður gaman að sjá hvort ný stjórn Ríkisútvarpsins leggur niður starfsemi vegna veðurs í einhverja klukkutíma. En þetta er sagt í gríni, eða ætla menn að fara að ráðskast svona með hlutina? Ég veit að svo var ekki í tilfellinu með starfsmenn lánasjóðsins og njóti þeir nú vel að fá leyfi til að vera úti í sólinni, en ætla menn að fara að taka geðþóttaákvarðanir í stjórn fjölmiðils? Ég ætla rétt að vona ekki. Við þurfum á sterkum fjölmiðlum að halda, við erum með fjölmiðla sem eru keyptir og eign ákveðinna aðila og menn hafa einmitt verið að reyna að búa til þannig lagaumhverfi að skylt sé að upplýsa um hverjir séu eigendur að fjölmiðlum og tryggja að aðkoma eigenda sé ekki bein að frétta- og upplýsingamiðlun viðkomandi fjölmiðla. En svo tökum við, ríkisvaldið og Alþingi, löggjafinn, þveröfuga stefnu og reynum að tryggja beina boðleið þar á milli.

Það hljómar kannski voða saklaust að segja: Við ætlum að kjósa hlutfallskosningu og hverjir eru betri til þess en 63 þingmenn sem hafa fjölbreyttan bakgrunn, koma af öllu landinu og þekkja mjög vel til í hverju horni og hverjum kima á Íslandi? En við sem höfum setið á Alþingi í einhvern tíma vitum að hlutfallskosningar og tilnefningar stjórnmálaflokka fara ekki þannig fram að lögð séu fram nöfn fulltrúa, þau rædd ítarlega og valið úr og tryggt að það sé fjölbreytni, fulltrúar frá öllum landsvæðum, fulltrúar beggja kynja o.s.frv. Það er ekki þannig. Hér kemur fram listi meiri hlutans, listi minni hlutans, og í þessu tilfelli væru hlutföllin 4:3 og ég fullyrði að það er ekki þannig að Framsóknarflokkurinn skoði hvaða fulltrúa Sjálfstæðisflokkurinn ætli að tilnefna og að menn velji þannig að í heildina verði sterkur hópur sem hafi góða hæfni og þekkingu, mikla reynslu o.s.frv.

Það er einmitt það sem hæfnis- eða valnefndin átti að gera, að tryggja að menn gætu rætt saman og fundið bestu fulltrúa til að þjóna þessari opinberu stofnun. Í valnefndinni væri þverfaglegur, breiður hópur. Hann ætti ekki að velja sína fulltrúa, þ.e. þeirra sem eiga aðild að valnefndinni, heldur velja sem sterkasta stjórn fyrir Ríkisútvarpið. Að tala um að þar með missi ráðherra ábyrgðina eða valdið yfir stofnuninni er alrangt og þar að auki er það í sjálfu sér ágætt ef hann gerir það að öðru leyti en því en varðar fjárhagslegan ramma og ytra skipulag.

Í nýju lögunum sem voru samþykkt í vor var nefnilega gerð breyting á verkefnum stjórnar, þess vegna var líka verið að breyta stjórninni. Nýrri stjórn er falið víðtækara verkefni varðandi langtímadagskrárgerð og stefnumótun fyrir dagskrárgerð. Guð hjálpi okkur ef það á að vera flokkspólitískt, hafandi í huga ýmsar fullyrðingar eða hvað eigum við að segja, upphrópanir, sem við höfum heyrt í umræðunni um að hér þurfi að breyta stjórnum og fyrirkomulagi til að hreinsa út ákveðin pólitísk sjónarmið, að þau séu allt of áberandi o.s.frv. Ég ætla ekki að gera meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar upp þá skoðun að hann hafi slíkar væntingar eða ætli sér slíkt hlutverk, en sporin hræða hvað þetta varðar.

Af því að það hefur ekki komið fram beint hér langar mig að lesa upp, með leyfi forseta, hvernig lögin eru í dag að þessu leyti, þannig að það hafi þá verið sagt í þingsal. Í 9. gr. laga nr. 23/2013 er fjallað um stjórn Ríkisútvarpsins og þar segir:

„Stjórn Ríkisútvarpsins skal kosin á aðalfundi. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok janúarmánaðar ár hvert. Stjórn Ríkisútvarpsins skipa sjö menn og jafnmargir til vara. Ef atkvæði falla jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum.

Áður en stjórn er kosin á aðalfundi skal hún tilnefnd til tveggja ára í senn:

1. Ráðherra tilnefnir einn mann sem kjörinn skal formaður og einn til vara. Stjórn skiptir með sér öðrum verkum.

2. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefna einn mann og annan til vara á löglega boðuðum fundi og hafa þeir málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins.“

Ég vil skjóta því inn að fram kom í umræðunni að Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins gera ekki athugasemdir við þetta, þau telja eðlilegt að fulltrúar þeirra hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki endilega atkvæðisréttur.

Ef ég held áfram lestrinum, með leyfi forseta:

„Ráðherra skipar fimm manns og jafnmarga til vara í valnefnd til tveggja ára í senn. Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefnir þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara, Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara og Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara.“

Svo kemur kafli um hlutverk valnefndar, með leyfi forseta:

„Hlutverk valnefndar er að tilnefna fimm fulltrúa í stjórn og fimm til vara sem skulu kosnir í stjórn Ríkisútvarpsins. Við tilnefningu á fulltrúum í stjórn skal valnefnd hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Þá skal gæta að jafnrétti kynjanna í tilnefningum valnefndar.“

Þetta eru forsendurnar. Í raun er verið að draga fyrirkomulagið aðeins frá því að það séu flokkspólitískir aðilar sem kjósi eða tilnefni fulltrúa beint með því að búa til valnefnd sem hefur það hlutverk að setja saman fimm manna hóp sem uppfyllir þessi skilyrði.

Þetta er ekkert eina hugsanlega leiðin til að finna góða stjórn fyrir Ríkisútvarpið, en við erum nýbúin að ákveða að velja þessa leið. Hvers vegna í veröldinni er verið að taka málið upp nú, örfáum vikum eftir að lögin hafa verið samþykkt, og hafa það sem eitt aðalmálið á sumarþingi með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar? Það getur eiginlega ekkert verið neitt annað en að þetta séu klár og alvarleg skilaboð um breytta stjórnarhætti. Stjórnarmeirihlutinn ætli að hafa þarna áhrif og sjá um rekstur stofnunarinnar. Það tel ég miður og raunar algjörlega ótækt.

Í 10. gr. áðurnefndra laga, sem við eigum að vinna eftir í dag, er fjallað um starfssvið stjórnarinnar. Ég ætla að leyfa mér að lesa þá grein vegna þess að hún skýrir líka að verið var að breyta hlutverki stjórnarinnar og auka það. Það að breyta því hvernig kosið er í stjórn ætti því að hafa áhrif á þennan kafla líka, en það er ekki tilfellið í þeim tillögum sem hér liggja fyrir.

Með leyfi forseta, hljómar 10. gr. þannig:

„Stjórn Ríkisútvarpsins fer með æðsta vald í málefnum þess á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri Ríkisútvarpsins og að farið sé að lögum um Ríkisútvarpið, að samþykktir þess og ákvæði samnings um fjölmiðlun í almannaþágu séu uppfyllt. Starfssvið stjórnar Ríkisútvarpsins nær sérstaklega til eftirfarandi þátta í starfi þess:“

Síðan eru tilgreindir átta liðir, sem eru:

„1. Að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma.

2. Að staðfesta skipurit fyrir Ríkisútvarpið. Að ráða útvarpsstjóra og leysa hann frá störfum. Er stjórn skylt að auglýsa stöðu útvarpsstjóra opinberlega.“ — Það er sérstaklega tekið fram að hana skuli auglýsa.

„3. Að taka ákvarðanir um lán og ábyrgðir vegna Ríkisútvarpsins.

4. Að taka meiri háttar ákvarðanir um rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. ákvarðanir sem ekki falla undir daglegan rekstur, ýmist að eigin frumkvæði eða að fengnum tillögum útvarpsstjóra eða annarra starfsmanna.

5. Að fylgjast með starfsemi og verkefnum Ríkisútvarpsins. Skal útvarpsstjóri gæta þess að stjórnin sé á hverjum tíma upplýst um helstu þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Áætlanir sem gerðar eru fyrir hvert ár skulu kynntar í stjórn.

6. Að fylgjast með rekstri Ríkisútvarpsins og samþykkja fjárhagsáætlun fyrir hvert starfsár.

7. Að gera grein fyrir því í ársskýrslu til aðalfundar hvernig tekist hefur að uppfylla lögbundnar skyldur Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu.

8. Að öðru leyti en að framan greinir er starfssvið stjórnar ákveðið í samþykktum Ríkisútvarpsins, sbr. lög um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.“

Því miður eru ekki til sérstök lög um opinber hlutafélög en menn hafa túlkað það þannig að um opinber hlutafélög gildi almenn lög um hlutafélög. Það kemur þarna fram.

Bak við allar þessar breytingar er mikill rökstuðningur í frumvarpinu sem samþykkt var í vor. Auðvitað geta menn haft skiptar skoðanir á því hvort þetta sé endanleg lausn, eina eða besta lausnin eða ekki, en mér finnst ekki næg ástæða að af því að formanni hv. allsherjar- og menntamálanefndar eða núverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra líkar þetta ekki geti þeir bara breytt fyrirkomulaginu. Mér finnst það vera mikil þjónkun ef Framsóknarflokkurinn ætlar síðan að gleypa það, jafnvel gegn nýlegri afstöðu eigin ráðherra. Ég auglýsi mjög eftir skoðun þeirra hvað þetta varðar.

Ég vona að ætlunin sé ekki að fara yfir í það form að hér verði beinar pólitískar stjórnir kjörnar af Alþingi sem víðast, gagnstætt því sem við höfum verið að gera á undanförnum missirum. Við erum alls ekki búin að hreinsa til að fullu og eigum töluvert langt í land en þurfum að gera það víðar og ekki hvað síst í fjölmiðli eins og Ríkisútvarpinu þar sem þetta skiptir meira máli en annars staðar. Ég ætla að vona að stjórnarmeirihlutinn ætli ekki að fara í þennan farveg með allar aðrar stjórnir og velja sér verkefni eða gera þetta svona. Það getur boðið upp á tortryggni og gerir það, það býður upp á tortryggni og það er vont fyrir Ríkisútvarpið sem býr við hvað mest traust allra fjölmiðla og verður að halda því.

Það kom fram fyrir nefndinni að menn sögðu að núverandi stjórn hefði rækt hlutverk sitt með ágætum jafnvel þótt hún væri pólitískt kjörin vegna þess að menn settu sig í þær stellingar að vinna í anda þess sem hafði verið rætt vegna nýju laganna. En til að tryggja og festa þau skilaboð í sessi þannig að hver og ein stjórn á hverjum tíma hafi þetta að leiðarljósi bjuggu menn til þessa valnefnd til að reyna að tryggja svokallaða armslengd frá flokkspólitíkinni yfir í stjórn fyrirtækisins og Ríkisútvarpsins.

Lítum á álitið sem liggur fyrir frá meiri hluta allsherjarnefndar. Segja má að þegar var fjallað um þetta mál í nefndinni lá strax fyrir að það væri ágreiningur um það. Menn eyddu ekki miklum tíma í að reyna að ná saman, og kannski hefði verið betra að eyða meiri tíma í að skoða álitin og reyna svo að taka afstöðu á faglegan hátt, en niðurstaðan var ákveðin fyrir fram og það var ekki margt að ræða fyrir okkur í minni hlutanum því að það var greinilegt að rök eða umsagnir mundu engu breyta. Í meirihlutaálitinu, sem er nú ekki nema ein lítil blaðsíða, mestmegnis bara lýsing á því hverjir komu á fundi nefndarinnar og hvernig stjórn hefði átt að vera skipuð, er einmitt kvartað yfir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að við upphaf sumarþings hefur ný stjórn ekki verið skipuð í samræmi við lög nr. 23/2013, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum ber að halda hluthafafund vegna skipunar nýrrar stjórnar innan þriggja mánaða frá gildistöku laganna, þ.e. fyrir 21. júní nk.“ — Það er í dag.

Við hefðum getað verið búin að tilnefna í valnefndina, það er ljóst að menn uppfylla ekki þetta ákvæði jafnvel þó að lögin yrðu afgreidd einhvern tíma í næstu viku. Það er sérstakt ákvæði um að núverandi stjórn starfi áfram þar til búið er að kjósa nýja stjórn þannig að það er ekki hundrað í hættunni þó að þetta bíði fram á haustið og menn gefi sér betri tíma til að finna bestu lausn og tryggi a.m.k. að starfsmenn eigi fulltrúa o.s.frv. Við munum vonandi ræða það aftur í nefndinni því að óskað hefur verið eftir því að málið komi aftur til hennar.

Ef við lesum aftur úr meirihlutaálitinu um valnefndina stendur þar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að valnefndin ber enga ábyrgð gagnvart kjósendum og engin trygging er fyrir því að nýtt fyrirkomulag, sem 9. gr. laganna felur í sér, stuðli að markmiðum laganna eins og þeim er lýst í 3. gr. laganna, þ.e. stuðli að því að félagið þjóni lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum íslensks samfélags.“

Þetta kann að vera rétt. En tryggir hlutfallskosning á Alþingi þetta? Er það þannig að þegar hér verða kosnir fjórir fulltrúar frá stjórnarmeirihlutanum geti ég dregið einstaka þingmenn til pólitískrar ábyrgðar vegna stjórnarskipunar? Eða ber ekki Alþingi allt ábyrgðina?

Það eru engar svona beinar tengingar við þingmenn. Það er ekki þannig að menn sæki um og hér sé hæfasta fólkið valið úr stórum, breiðum hópi. Kannski ætti Alþingi allt að vera valnefndin ef menn treysta sér til þess. Allir flokkar mundu leggja fram nöfn og síðan yrði að ná sátt þar sem allir yrðu að vera sammála um niðurstöðuna. Það er til það fyrirkomulag erlendis að aldrei sé skipuð stjórn ef ágreiningur er til staðar og allir fari í gegnum skoðun af þar til bærum aðilum og hópurinn síðan skipaður. En valin var önnur leið í lögunum, þessi valnefnd, og ég tel að menn eigi að fara eftir henni í staðinn fyrir að eyða tíma í að ræða breytingu á þessu eina atriði.

Í áliti meiri hlutans er talað um að ólýðræðislegt og ógagnsætt sé að kjósa með öðrum hætti en að Alþingi kjósi beint. Þetta er nú eins og að segja að fulltrúalýðræðið, það að menn skipi fulltrúa beint tryggi lýðræðið. Í sjálfu sér bendir ekkert til þess og almenningur fær ekki að fjalla mikið um eða skoða þau mál þegar verið er að kjósa fulltrúa. Almenningur getur kvartað en lengra nær það varla.

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir fór ítarlega yfir álit minni hluta allsherjarnefndar, sem er upp á fjórar blaðsíður, þar sem farið er yfir stöðu mála og reifað hvert markmiðið var með nýju lögunum og af hverju við viljum standa við lögin. Þar voru sett mjög skýr markmið um að skapa þessa armslengd eins og ég nefndi áður. Í nefndarálitinu er líka rætt um hlutverk og verkefni stjórnarinnar eins og ég hef gert hér grein fyrir til að undirstrika að það er samhengi á milli þess hvernig stjórn er skipuð og hver verkefnin eru á hverjum tíma.

Það er líka vakin athygli á því í áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar að þessi undarlega forgangsröðun hafi komið okkur á óvart. Við fjögur í minni hlutanum sem settumst í allsherjar- og menntamálanefnd, sem níu aðilar skipa, þekktumst ekki öll fyrir, þ.e. ég þekkti hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur en ekki aðra sem rita undir álit minni hlutans. Við þessi fjögur sátum og horfðum á hvert annað og sögðum: Hvers vegna erum við að fjalla um þetta? Hvaða brýna þörf var á þessu? Hvað rök eru á bak við þetta? Við höfum ekki fengið nein svör nema þetta: Ég er á móti því að skipa með þeim hætti sem átti að gera, ég ætla að gera þetta öðruvísi og þess vegna á þetta að vera svona. Ég hef það vald og ég ætla að nota það.

Einhver stendur á bak við valdið, það er stjórnarmeirihluti í þinginu sem ætlar greinilega að standa á bak við þetta. Fulltrúar Framsóknar í nefndinni sem standa á bak við meirihlutaálitið hafa ekki getað gefið neinar skýringar á sinni afstöðu enda eru þeir ekki á staðnum og taka ekki þátt í umræðunni.

Í minnihlutaálitinu koma líka fram þau faglegu sjónarmið sem áttu að ráða við skipun stjórnar og eiga að ráða samkvæmt lögunum — það er ekki búið að breyta þeim — og mikilvægi þess að tryggt sé að í stjórninni sé ákveðin þekking á fjármálum, rekstri og öðru slíku, og þekking á mennta- og menningarmálum. Og þar með, eins og rætt var í 1. umr., á íþróttum eða öðru sem eru algengir dagskrárliðir í ríkisfjölmiðli. Það er mikilvægt að tryggja að þau sjónarmið séu inni.

Það er forvitnilegt að skoða þær umsagnir sem við höfum fengið, ég nefni t.d. álit frá einstaklingi, Birni Davíðssyni frá Ísafirði. Hann kvartar þar að vísu yfir því að í lögunum í vor hafi þess ekki verið gætt að fjalla um dreifikerfið og tryggja aðgengi að ríkisfjölmiðlinum um allt land. En hann vekur athygli á byggðasjónarmiðum og mikilvægi þess að þjónustan sé úti um allt land. Og þó að við náum ekki að ræða byggðasjónarmið í þessu samhengi, varðandi stjórnina, þurfum við auðvitað að taka það mál upp í framhaldinu og skoða hvort ríkisfjölmiðill okkar sinnir því hlutverki.

Hefði til dæmis verið ástæða til að gæta þess að í stjórn Ríkisútvarpsins væri landsbyggðarfólk í einhverjum hlutföllum við aðra? Ég held að það væri mjög þarft vegna þess að við sem búum utan við 101 Reykjavík þekkjum að það getur haft áhrif á sjónarhornið í mörgum tilfellum, fjölbreytnin hvað það varðar skiptir máli jafnt og ýmsar aðrar forsendur.

Eitt af því sem er tekið fyrir í nefndarálitinu sem skiptir mjög miklu máli tengist líka þessari nýju ríkisstjórn sem fer af stað með góð fyrirheit sem við erum öll mjög sátt við; aukið samráð, aukið samstarf, leita sameiginlega lausna, fara í lausnamiðuð stjórnmál, málefnalegri umræðu. Það kemur ekki fram í þessu frumvarpi, aldeilis ekki. Hér er það ráðherra sem einn ákveður að fara inn í ríkisstjórn, fær stuðning þar um að leggja þetta fram, þingflokkarnir blessa þetta, málið er komið hér inn. Það er ekkert samráð haft við þá aðila sem stóðu að frumvarpinu á sínum tíma, tíminn er takmarkaður, málið er tekið inn á sumarþing þar sem við erum að afgreiða brýnustu mál og við eigum bara að klappa fyrir því sem þannig kemur fram þegjandi og hljóðalaust.

Væntingar mínar voru ekki um þetta þegar við töluðum um að við styddum samráð og reyndum að vinna vel að málum saman. Við erum þegar í dag búin að afgreiða annað mál sem var flýtimeðferðarfrumvarpið. Þar tókst okkur að ná ágætri sátt jafnvel þó að við hefðum mjög stuttan tíma og málið hefði í sjálfu sér þurft lengri tíma. Við vildum að það hefði framgang enda eitt af þeim forgangsmálum sem voru lögð fram í kosningunum og sem við höfum heitið að styðja við sem ákveðna lýðræðislega niðurstöðu samfélagsins. Það hafi forgang að vinna að lausnum á skuldavanda heimilanna.

Ekkert í kosningabaráttunni benti til þess að kæmust Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur til valda mundu þeir reyna að hrifsa að nýju öll þau völd sem þeir höfðu hér áður. Það voru engin fyrirheit um það, ekkert loforð um það. Það var að minnsta kosti vel falið. Þess vegna er þetta ekki að viðhöfðu neinu samráði við einn eða neinn.

Það kemur ágætlega fram í þeim álitum sem lögð voru fram hvaða leiðir eru farnar annars staðar, sérstaklega frá Lárusi Ými Óskarssyni sem kom fyrir nefndina að ósk eins nefndarmanns og gerði grein fyrir því hvernig málum væri háttað í nágrannalöndunum okkar. Alls staðar er verið að reyna að búa til þessa armslengd frá flokkspólitíkinni yfir í stjórnir stofnunar ríkisfjölmiðla. Það er gert á ólíkan hátt, ýmsar leiðir notaðar, og gerð ágætlega grein fyrir því í áliti hans, það er ólíkt í Bretlandi og á Norðurlöndum. Og eins og ég sagði þá erum við örugglega ekki með einu og bestu lausnina. Það eina sem við vitum er að við erum að hverfa frá leið sem hefur verið prófuð og gafst mjög illa áður. Hún hefur gengið bærilega núna en er allt of áhættusöm til að við getum sett Ríkisútvarpið undir það að eiga að sæta því að vindar pólitíkurinnar ráði því hvernig ríkisstofnun eins og Ríkisútvarpið er rekin, fjölmiðill í almannaþágu.

Það er kannski fyrst og fremst það sem manni líður illa með, vonbrigðin yfir að heyra slíkan málflutning, horfa á slíkan forgang hjá nýrri ríkisstjórn, hafandi einlæglega bundið vonir við að það kæmi eitthvað ferskt inn með nýju fólki og nýju þingi. Við höfum öll gefið loforð um breytta stjórnarhætti, aukið lýðræði, þátttöku almennings. Við sjáum það alls staðar, í gegnum undirskriftasafnanir og annað, að menn vilja segja sína skoðun, segja sitt álit þvert á pólitíska flokka. En svo reyna menn að hrifsa til sín aukin völd á öðrum stöðum. Þetta finnst mér í sjálfu sér algjörlega óviðunandi og mjög leitt að þetta skuli fara svona fram.

Ef við kíkjum á umsagnirnar sem bárust um frumvarpið eru þær allar andstæðar þessum breytingum, þó með ólíkum hætti. Hjá einstaka aðila komu fram sjónarmið um að þetta gengi ágætlega í stjórninni eins og fyrirkomulagið væri núna. Við fáum yfirlýsingu frá stjórn Starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins um vonbrigði þeirra yfir því að þau skuli ekki eiga lengur fulltrúa í stjórninni samkvæmt frumvarpinu. Og það er ekkert gert með það, ekkert reynt að bæta úr því eða laga það.

Síðan getum við tekið álit Bandalags íslenskra listamanna, en ágætlega er gerð grein fyrir því í nefndaráliti minni hlutans. Þar er einmitt talað um valddreifingu og aðkomu almennings án þess að menn þurfi að hafa tengingu við sérstök stjórnmálasamtök. Það er það sem við höfum í raun verið að ýta undir að verði gert.

Það er ástæða til þess að lesa þennan kafla í álitinu, sem hefur komið fram áður, frá Bandalagi íslenskra listamanna. Þar segir, með leyfi forseta, frá Bandalagi íslenskra listamanna:

„Rökin fyrir þessum breytingum voru þau að með þátttöku fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna í valnefnd verði tryggt að fulltrúi með þekkingu á menningarmálum verði valinn í stjórn. Á sama hátt er talið að fulltrúi samstarfsnefndar háskólanna sjái til þess að í stjórn veljist fulltrúi með þekkingu á fjölmiðlamálum.“

Þarna er vitnað í upphaflegt frumvarp. Það segir í álitinu að með engum hætti sé komið til móts við þau sjónarmið og markmið sem sett voru í frumvarpinu.

Athyglisverðar ábendingar koma frá félagi sem kallar sig Ölduna, félag um sjálfbærni og lýðræði. Það sendi inn umsögn um upphaflega frumvarpið á sínum tíma. Það vill ýmsar róttækari breytingar, en efnislega er alltaf verið að tala um það sama, þ.e. að búa til múra á milli stjórnmálanna og fjölmiðilsins sem við fjöllum um hér, Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu. Það gengur þvert á það sem verið er að gera í þessu frumvarpi.

Ég hef áður gert grein fyrir áliti Björns Davíðssonar varðandi landsbyggðarmálin en ástæða er til að fylgja eftir mörgum athugasemdum sem þar koma fram og tengjast dreifinetinu og móttökuskilyrðum eða viðtökuskilyrðum miðla úti um allt land. Ég held að mjög miklu máli skipti að við stuðlum að því að lýðræðisleg umræða geti átt sér stað með því að tryggja að dreifikerfið sé gott. Í áliti hans er líka bent á að það þurfi að vera starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Því er að sumu leyti ágætlega sinnt en að mörgu leyti illa, sem gerir einhæfni sjónarmiða meiri. Þetta eru ágætisábendingar sem ég tel víst að nefndin muni taka upp í framhaldi af umræðunni hér, þær tengjast ekki stjórn RÚV, og við munum taka þetta upp á haustþingi og velta fyrir okkur hvort gera eigi lagabreytingar til að skjóta sterkari stoðum undir landsbyggðarhlutverk þessa fjölmiðils. Að öðru leyti held ég að ekki sé ástæða til að ræða það álit frekar.

Það er forvitnilegt í yfirlitinu sem Lárus Ýmir Óskarsson sendir okkur og bendir á að einmitt þegar frumvarpið um Ríkisútvarpið var samþykkt 2007, undir forustu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur þáverandi ráðherra, var tekinn frá stjórn þess fyrirtækis sá kaleikur að skipta sér af daglegum rekstri. Það muna allir eftir útvarpsráði og slagnum í kringum einstaka liði þar, athugasemdir um einstaka dagskrárliði, hvort Derrick ætti að vera á miðvikudögum eða fimmtudögum eða hvað annað það var.

Þarna var stigið fyrsta skrefið að þessum aðskilnaði. Annað skref er stigið 2013. Hvers vegna í veröldinni ætlum við að stíga skref til baka? Hér í umræðuna vantar svar eða rökstuðning fyrir því. Þau svör hafa ekki komið. Ég vona að við fáum þau við framhald 2. umr. þar sem fleiri mæta og að framsóknarmenn a.m.k. geri grein fyrir stefnubreytingu sinni í þessu máli.

Það var niðurstaða okkar í minni hlutanum sem fjölluðum um málið í nefndinni að vísa ætti því frá, vísa því aftur til ráðuneytisins, framkvæma lögin eins og þau eru núna og snúa okkur að því sem við teljum vera mikilvægara að ræða á sumarþingi, forgangsmálin sem lofað var að fara í í kosningabaráttunni og skipta miklu máli, sem og mál sem við erum að bíða eftir að komi inn í þingið, bæði hvað varðar skatta og eins öryrkja og aldraða. Þau hafa ekki komið fram enn þá.

Það er undarlegt að hafa í huga þá ræðu sem hæstv. forseti þingsins flutti í upphafi þings þar sem hann hvatti ráðherra réttilega til að koma fyrr inn með mál þannig að málflutningur mætti vera vandaðri, ef við eigum að taka hvert stórmálið á fætur öðru á tveimur, þremur dögum í lok þingsins. Nú erum við búin að sitja tvær vikur á sumarþingi, sem undir venjulegum kringumstæðum væri eðlilegt sumarþing, og stóru málin eru ekki enn þá komin fram.