142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:14]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar sem talaði áðan, að það væri með trega sem hann kæmi hingað upp til þess að ræða þessi mál. Þetta er svona mál sem virðist ætla að vera lengi í umræðunni en eitt af því sem einkenndi síðasta þing var hið eilífa málþóf og pontan hertekin. Eitt af því sem við í Bjartri framtíð erum til dæmis alls ekki hrifin af er að langar umræður fari fram og pontan sé tekin í gíslingu. Það er ekki á okkar dagskrá að standa í því.

Mér finnst málið einhvern veginn mér skylt þar sem ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég nefndi það í þeim ræðum sem ég hef haldið á þessu sumarþingi að mér hefur fundist þessi — hvað á ég að segja? Ég get alveg sagt eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson sagði áðan: Til hvers erum við að ræða þetta mál?

Ég sem nýr þingmaður og tiltölulega nýr í stjórnmálum, svo að ég fari nú aðeins út í það, er farinn að velta fyrir mér af hverju ég fór út í stjórnmál. Það var vegna þess að ég vildi breyta stjórnmálunum. Ég vildi breyta því umhverfi og þeirri umræðu og þeirri stjórnmálamenningu sem hefur einkennt okkur Íslendinga svo lengi, valdapólitík og eilíf heiftug umræða.

Ég sagði það í ræðu um daginn og beindi orðum mínum til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ég byndi mikla von við þessa ríkisstjórn. Ég er mikill lýðræðissinni og ríkisstjórnin fékk góðan meiri hluta, er með sterkan meiri hluta á þingi og var kosin á grundvelli kosningaloforða sem voru mikil og stór, en ég sá hvergi í stefnuyfirlýsingunni að breyta ætti stjórn RÚV.

Ég hef fylgst með stjórnmálaumræðu, ég er sveitarstjórnarmaður og hef fylgst með pólitískri umræðu undanfarin ár og ekki bara undanfarin ár heldur oft þegar talað hefur verið um málefni Ríkisútvarpsins. Það er eilíf þræta um hlutverk þess, skipan í stjórnina og fréttastofuna. Alla tíð hafa menn verið að þræta um þessa stofnun sem er í mínum augum ein merkilegasta menningar- og öryggisstofnun landsins. Það er með hreinum ólíkindum að við Íslendingar skulum vera að rífast um þessa stofnun og eilíft hnútukast skuli vera út í fréttastofu, útvarpsstjóra og fréttamenn. Hvernig ætla menn að ráða inn á fréttastofu RÚV? Hvernig ætla menn að fara að því faglega? Menn hafa misjafnar skoðanir í pólitík, það er alveg ljóst. Það er það besta við þetta líf að við erum öll ólík og höfum ólíkar skoðanir. En hvernig á að ráða inn í Ríkisútvarpið?

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar stendur líka, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnvöld og umræðu í þjóðfélaginu um nokkurt skeið.“

Ég … (Gripið fram í: Um nokkurt skeið?) Um nokkurt skeið, já. Nú vil ég líka tala sem hinn almenni borgari. Ég lít á mig sem fulltrúa allra landsmanna þó að ég sé úr Suðurkjördæmi og ég er þingmaður allrar þjóðarinnar þó að ég hafi verið kosinn inn af þeim sem kusu Bjarta framtíð. Ég lít á þessa ríkisstjórn sem mína ríkisstjórn. Ég lít líka á hæstv. menntamálaráðherra sem minn menntamálaráðherra.

Ég er alveg orðlaus yfir því hvernig við byrjum þetta þing, ég verð að segja alveg eins og er. Eins og ég las upp: „… mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi …“ Þá kemur hæstv. ríkisstjórn með þessi mál inn fyrst.

Ég er mikið á ferðinni heima hjá mér, fer niður á bryggju og hitti fólk. Ég verð að segja að ég held að hæstv. ráðherrar og stjórnarþingmenn ættu að fara að hugsa sinn gang aðeins og velta því fyrir sér á hvaða leið þeir eru því að það er að magnast upp, finnst manni, ótrúlegur órói. Ég vil ekki að hér verði uppþot eins og var hér um árið. Það er ótrúlegur urgur í fólki, eins og þessi loforð voru fín. Ég sagði það líka um daginn að ég hefði sennilega kosið Framsóknarflokkinn út af loforðunum ef ég hefði ekki verið að brölta sjálfur í stjórnmálum. Síðan koma þeir inn með svona mál. Þetta mál snýst um hvernig eigi að skipa í stjórn Ríkisútvarpsins. Það er nýbúið að samþykkja lög um Ríkisútvarpið. Það sem fær mig til að koma hingað upp og ræða þetta mál er að það voru eiginlega allir sammála og víðtæk sátt var um það þannig séð, meira að segja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sat hjá, hann var ekki einu sinni á móti því. Þá fer maður að velta því fyrir sér á hvaða leið við erum.

Það er búið að nefna hérna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Eitt af því sem fékk mig til þess að hafa meiri áhuga á stjórnmálum var einmitt sú skýrsla. Það vaknaði sú von í brjósti mínu að eitthvað væri að breytast á Íslandi því að eins erfitt og ömurlegt þetta hrun okkar var vonaði maður auðvitað að fólk mundi læra af því, að við mundum læra eitthvað sem þjóð og mundum breyta stjórnarháttum og framkomu okkar gagnvart hvert öðru. Því miður virðist það ekki vera þannig.

Talað var um þetta hrun, hið efnahagslega og fjárhagslega, en mér fannst siðferðilega hrunið miklu meira. Þegar maður ræddi við fólk úti í samfélaginu var það búið að fá upp í kok af stjórnmálamönnum.

Ég nefndi það hérna í ræðu um daginn að það væri þyngra en tárum tæki að hlusta á hvernig fólk talaði um stjórnmálamenn. Um daginn var sagt við mig: „Það verður spennandi að sjá hvað líður langur tími, Palli, þangað til þú verður eins og hin fíflin á Alþingi.“ — Fíflin, hugsið ykkur. Það er verið að tala um alþingismenn. Það er verið að tala um okkur sem erum kosin hingað inn og það er verið að tala um okkur sem fífl. Af hverju skyldi það vera?

Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir vitnaði í skýrslu rannsóknarnefndar þar sem Styrmir Gunnarsson, sem var ritstjóri Morgunblaðsins til margra áratuga, innsti koppur í búri hjá Sjálfstæðisflokknum, sem er svo sem allt í lagi, það var aldrei farið í neinar grafgötur með það, sagði nákvæmlega eins og hv. þingmaður hafði eftir honum, með leyfi forseta:

„Ég er búin að fylgjast með þessu í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp. Það eru engar hugsjónir. Það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“

Mér finnst þetta mál einkennast af þessu. Það er bara verið að gera þetta af því að menn geta það. Við erum komnir til valda aftur og við munum hafa þetta eins og við viljum.

Það sem mér finnst svo sárt líka við þetta mál er að fyrrverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Katrín Jakobsdóttir, hélt hér ræðu um daginn og sagði okkur þingmönnum nákvæmlega hvernig allt ferlið hefði verið. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir minntist líka á það áðan. Mér finnst málið hafa verið einstaklega vel upp sett og akkúrat í anda lýðræðis og breyttra stjórnarhátta að breyta lögunum eins og gert var, víkka sviðið þannig að fleiri kæmu að stjórn Ríkisútvarpsins. Eins kom fram hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni áðan, í sambandi við þær umsagnir sem við fengum í nefndinni, hvernig aðrar þjóðir gera þetta, t.d. Bretland með BBC Trust. Þar reyna menn að ýta þessu frá þannig að pólitíska valdið hafi ekkert um þetta að segja. Það fannst mér mjög athyglisvert og einhvern veginn akkúrat í anda þess sem maður vill sjá gerast hér. Það er ótrúleg valdabarátta sem á sér stað. Þetta er svo sorglegt.

Ég sagði á nefndarfundi um daginn að mér fyndist þetta asnalegt mál, þið verðið bara að fyrirgefa. Mér finnst asnalegt að koma með þetta inn á sumarþingið núna þegar allir bjuggust við því að hér yrði lögð fram fullmótuð aðgerðaáætlun til þess að koma til móts við skuldavanda heimilanna og þeirra sem verst eru settir í þjóðfélaginu. Við þurfum ekki nema að líta út um gluggann hér á Alþingi til að sjá fólk sem á afskaplega erfitt og bágt. Ég veit ekki hvað ég á að segja um það. Það er sagt í fræðum um alkóhólisma að enginn hætti drykkjuskap nema vilja það sjálfur, eins og það fólk sem ég er að benda á hérna úti. En það er fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefur það verulega skítt. Fólk sem batt vonir við það að við sem kæmum inn á Alþingi núna færum að vinna í þeim málum að leiðrétta þennan forsendubrest og þessi háu lán og allt sem á hefur dunið. Þá koma mál inn eins og þetta.

Ég hélt að við ætluðum að reyna að breyta þessu. Það var mikið hlegið að mér og mínum flokki í kosningabaráttunni. Hann var kallaður litla Samfylkingin og sagður stefnulaus flokkur, við hefðum ekkert að segja og værum hálfgerðir bjálfar, tækifærissinnar, en við erum fólk sem trúum því að hægt sé að breyta þessu, hægt sé að breyta stjórnmálum, gera þau svolítið manneskjulegri. Þau eru ekkert voðalega manneskjuleg. Auðvitað tekur maður eftir því hérna á þinginu að fólk er vinir og spjallar saman, svo þegar það kemur inn í þingsal breytist allt.

Út á hvað ganga stjórnmál? Þau ganga út á almannaheill. Það er til dæmis hlutverk Ríkisútvarpsins að gæta almannahagsmuna og veita okkur gleði, færa okkur líka sorgartíðindi og annað fram eftir götunum. Í minningunni er Ríkisútvarpið eitthvað svo stórt. Það skipar svo stóran sess í lífi manns. Maður lá yfir því sem ungur maður, Lögum unga fólksins o.fl. Þetta á svo stóran part í hjartanu, í alvörunni, það er einhvern veginn þannig. En það eru alltaf einhverjir stjórnmálamenn að rífast um það hverjir eigi að vera í stjórn og hvaða frétt sé birt. Svo hrekkur maður svolítið við þegar þetta frumvarp kemur fram í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið og þeirra orða sem hafa verið látin falla, t.d. orð áðurnefnds Styrmis Gunnarssonar sem sagði að það þyrfti bara að hreinsa út úr þessari stofnun. Svo þegar frumvarpið var lagt fram í mars sagði einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það þyrfti að losa Ríkisútvarpið við þetta samfylkingar- og vinstrigrænnalið. Eru menn eitthvað hissa á því að maður hrökkvi við? Svo sagði einn hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins í umræðum um þetta um daginn að það þyrfti að fá (Gripið fram í.) alvörufólk í stjórn RÚV. Alvörufólk, hvað er alvörufólk? Hvernig skilgreinum við það? Ekki fólk sem hefur svona félagslegar og lýðræðislegar hugsjónir? Hann nefndi meira að segja þetta vinstra lið — lið, það er nú eitt þegar fólk er að tala saman og talar um lið, þetta lið og hitt liðið.

Ég get alveg sagt það að ég hef oft látið stór orð falla um Sjálfstæðisflokkinn. Ég hef aldrei verið mikill aðdáandi hans eða stefnu hans. Ég hef oft látið stór orð falla um hann og er ekki stoltur af því. Ég var uppreisnarseggur, rífandi kjaft og hafði sterkar skoðanir en var mjög þröngsýnn. Ég hafði mínar skoðanir og allt annað var vitleysa, sérstaklega það sem Sjálfstæðisflokkurinn sagði. Ég hef sem betur fer þroskast og lært að meta það að fólk getur verið misjafnt og hafði ólíkar skoðanir. Manni ber að virða þær allar. Ég virði svo sem skoðanir þess fólks sem vill breyta þessu, en ég skil það samt ekki í ljósi þess sem á undan er gengið. Hvers vegna er verið að breyta þessu? Af því bara?

Ég sit í allsherjar- og menntamálanefnd, sem er mjög vel mönnuð nefnd, þar er ungt fólk, líka úr Framsóknarflokknum, þrjár glæsilegar konur sem eiga framtíðina fyrir sér og ég er stoltur af að vinna með, en ég sakna þeirra hér. Það hefði verið rosalega gaman að fá að heyra þeirra sjónarmið til þessa máls því að í rauninni hafa þær ekki sagt eitt einasta orð um það.

Það var verið að ræða um þá sem gáfu umsagnir um þetta mál. Það var ekki einn einasti maður sem mælti með því nema kannski einn sem situr í útvarpsráði í dag. Hann var sá eini sem hafði ekki einhverjar efasemdir um þetta og fannst það bara fínt. Það kom líka fram í þessum umsögnum að menn eru mjög ánægðir með stjórn Ríkisútvarpsins. Það hefur verið vel unnið á þessu tímabili. Þetta er að breytast. Þá fær maður það á tilfinninguna að það sé bara verið að sýna pólitískt vald með þessu. Ég held það. Það er sorglegt því að maður trúði virkilega að það væru bjartari tímar fram undan í stjórnmálum á Íslandi, að menn vildu breyta, að menn meintu það sem þeir sögðu í kosningabaráttunni — það eru breyttir tímar fram undan, það eru ný vinnubrögð, það á að hafa samráð við minni hlutann og þetta á að vera allt rosafínt og flott. Svo er ekkert meint með því. Það finnst mér svolítið sorglegt.

Ég get alveg sagt frá mínum vinnubrögðum í bæjarstjórn. Ég fór í bæjarstjórnina í Grindavík með það að markmiði að reyna að auka samtakamátt og samvinnu. Það hefur tekist alveg rosalega vel. Markvisst hefur verið unnið að því að reyna eingöngu að vinna að hag íbúanna. Það er nákvæmlega það sem við eigum að gera hér líka.

Ég veit ekki, virðulegi forseti, hvað ég á svo sem að segja meira í þessu máli. Ég er ekki vanur að standa í pontu og tala tímunum eða mínútunum saman, en mér finnst einhvern veginn að ég verði að koma því frá mér að mér líst ekkert á þetta. Mér finnst þetta ekki góð byrjun. Þegar maður kemur hingað inn sem þingmaður hefur maður vissar væntingar en mér hefur ekki fundist þetta byrja vel.

Ég óska ríkisstjórninni alls góðs. Ég hef sagt það að ég muni styðja hana í að leysa þau brýnu vandamál sem herja á þjóðina. Ég talaði oft um það í kosningabaráttunni því að það kom mjög fljótlega í ljós hverjir mundu sigra.

Mig langar að lesa hérna smágreinarstúf sem ég las á netinu um þetta eftir heimspeking og lektor í listfræði í háskólanum þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Tillaga ráðherra felur í sér að hætta að skipa í stjórn stofnunarinnar út frá faglegum forsendum, skipan sem byggir á núgildandi lögum frá Alþingi. Í stað þess að Alþingi setji almennar reglur um skipan í stjórn RÚV vill ráðherra að Alþingi sjálft skipi beint í stjórnina. Hér er lagt til að lögunum verði breytt frá almennri reglu sem sett var til að tryggja sem best hlutleysi við skipan stjórnar; í staðinn kemur regla um sértæka skipan mála þar sem ríkisstjórn og ráðherra koma beint og óbeint til með að ráða hvernig stjórn er skipuð hverju sinni. Hér er því verið að breyta úr lögskipuðu umhverfi í áttina til stjórnunar með sértækum tilskipunum ráðherra og Alþingis. Ef þetta yrði að veruleika væri því um talsverða afturför að ræða, í átt til aukins harðræðis en ekki lýðræðis eins og ráðherra vill láta í veðri vaka.“

Það er einmitt þetta sem maður óttast. Einn af þeim sem kom til okkar í nefndina og talaði um þessa breytingu sagði: Ekki láta þetta fara í þá átt að þetta verði eins og útvarpsráð var forðum.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra dragi þetta frumvarp til baka og láti reyna á nýju lögin sem sett voru í mars, það eru fjórir mánuðir síðan. Ég óska þess að ráðherra geri það og leyfi okkur að fá reynslu á þessi nýju lög. Það er lágmark að láta reyna á þau. Það er mín ósk.

Ég vonaði svo sannarlega að íslenska þjóðin væri að vakna til vitundar eftir hrunið um að reyna að bæta samskipti, bæta vinnubrögð, minnka þessa pólitík og þetta endalausa valdatafl. Kannski á maður eftir að læra á það á næstu árum að maður þurfi að vera pólitískur refur og svíkja og vera óheiðarlegur til að ná einhverjum málum í gegn. Ég ætla að vona að það verði ekki. Ég hef alla vega ekki áhuga á því.

Ég hef svo sterka sýn á það hvernig ég vil sjá íslenskt samfélag blómstra vegna þess að þetta er land tækifæranna, þetta er 320 þús. manna þjóð sem hefur ekki síst ótrúlegan mannauð. Við stjórnmálamenn megum ekki skemma það.

Meiri hlutinn ræður. Það er náttúrlega þannig. Ég er mikill lýðræðissinni. Þess vegna kem ég hingað upp. Ég veit að þetta mál fer sennilega í gegn. Það er nú bara þannig. Mér sýnist á öllu að þetta verði keyrt í gegn. Það er ekkert við því að gera. Ég ber þá ósk fram að menntamálaráðherra dragi þetta frumvarp til baka og gefi nýju lögunum sem samþykkt voru í vor séns og láti á þau reyna. Ef það er alveg vonlaust fyrirkomulag er bara hægt að taka það upp á síðari stigum í þinginu og breyta því aftur, koma þá jafnvel með betri tillögur. En hvað veit ég? Þetta er svona.

Mig langar að lokum að fara með smáklausu úr Dhammapada, samansafni af tilvitnunum í Búdda, skrifað fyrir mörg hundruð árum, 400 árum fyrir Krist. Með leyfi forseta langar mig að fara með þetta að lokum til að undirstrika það að ég vonaði að við mundum vakna til vitundar og breyta þjóðfélagi okkar. Samstaða hefur oft verið mikil á Íslandi en það er alveg ljóst að á undanförnum árum hefur sundrungin aukist, hún er orðin heiftugri. Það er alls ekki gott fyrir okkur sem þjóð. Við eigum að reyna að sameinast frekar en sundrast. Mér finnst þetta frumvarp vera akkúrat í þá áttina að sundra frekar en hitt, það hefur bara sýnt sig hérna. Það skilur ekki nokkur einasti maður hvers vegna þetta er sett fram. En svona er þetta bara. Mig langar að enda þetta með því að vitna í Dhammapada:

Það er erfitt að afneita þægindum og gera það með gleði. Sárt er að lifa í sundurþykkri fjölskyldu. Erfitt að deila geði með gerólíku fólki. Ævinlega flæktur í eirðarleysi og þjáningu. Erfitt er að fæðast maður. Erfitt er líf dauðlegs manns. Enn erfiðara er að hlýða rödd sannleikans og vakna til nýrrar vitundar. Að forðast allt illt. Að rækta réttsýni og góðsemi. Að hreinsa hugann. Þetta er kenning þeirra sem vaknað hafa til nýrrar vitundar.

Ég vona að við eigum bjarta og góða tíma fram undan hér á Alþingi. Ég verð að viðurkenna að ég er með sorg í hjarta yfir þessari byrjun og sérstaklega hvaða forgangsröðun ríkisstjórnin hefur ákveðið að hafa. Þetta kemur ekki bara frá mínu hjarta því að ég heyri annað fólk líka segja þetta. Það eru mikil vonbrigði úti í samfélaginu, en ég vona samt að allt fari vel. Það er náttúrlega það sem öllu máli skiptir að við vinnum af heilindum og af heilum hug og hjarta fyrir þjóðina og látum ekki pólitíkina eyðileggja það.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.