142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:42]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er bara alveg orðlaus yfir þessum orðum hæstv. forseta. Mér finnst með algjörum ólíkindum að koma með vendingar af því tagi að málið eigi heima í atvinnuveganefnd.

Virðulegi forseti. Við erum ekkert að tala um atvinnumál, við erum ekki að tala um nein mál sem heyra undir þá þingnefnd. Við erum að tala um eftirlitshlutverk þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Við erum að tala um það sem heyrir sannarlega undir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Það var óskað eftir því fyrir klukkustundum síðan að haldinn yrði fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ráðherrann kallaður á fund nefndarinnar til að rækja það starf sem nefndinni er falið samkvæmt þingsköpum. Og ég verð að segja að ég lýsi furðu yfir því að hæstv. forseti skuli snúa málinu svona gjörsamlega á haus úr sæti forseta án þess að um það hafi verið rætt við þingflokksformenn eða á nokkrum þeim eðlilega samráðsvettvangi sem væri rétt að reifa þessi sjónarmið áður en þau koma fram á forsetastóli.