142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:43]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti hlýtur auðvitað að tjá sína skoðun á þessu máli, í raun og veru óháð því hvort fram hafi farið fundir með þingflokksformönnum. Það er hins vegar þannig að þingnefndirnar hafa líka sitt eftirlitshlutverk og þegar þingsköpin eru skoðuð blasir það við að þessi mál mundu heyra undir atvinnuveganefnd.

Það getur ekki verið aðalatriðið í huga hv. þingmanns hvort það sé atvinnuveganefnd eða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem tekur þetta mál til meðhöndlunar. Eðlilegt er auðvitað að beina þá óskinni til formanna viðkomandi nefndar. Forseti mun ekki kalla saman þingnefndir, það er ekki hlutverk forsetans. Forseti mun þess vegna ekki gera það.

Forseti hefur hins vegar upplýst að hæstv. ráðherra er á leið hingað í þinghúsið, mögulega til þess að geta gert grein fyrir þessu máli og skýrt það. Forseti telur þess vegna eðlilegast að eftir því sé beðið að hæstv. ráðherra hafi tækifæri til þess að útskýra málið gagnvart þinginu telji hæstv. ráðherra tilefni til þess.