142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í dag hef ég hugsað mest til lýðræðisins vegna þess að nánast allt sem gerst hefur í dag varðar lýðræðið á einhvern hátt en því miður undantekningarlaust á neikvæðan hátt enn sem komið er. Það sem hér er til umræðu er auðvitað skipun á stjórn Ríkisútvarpsins.

Það eru tvær röksemdir sem hæstv. menntamálaráðherra hefur notað til þess að færa rök fyrir frumvarpi sínu; það er annars vegar til þess að auka lýðræði og hins vegar til þess að auka gegnsæi. Nú er ég nú bara aumur pírati og hef kannski ekki fullan skilning á þessum tveimur hugtökum. En ég get sagt eitt um gegnsæi; tilgangurinn með gegnsæi er til þess að sjá hluti og þegar maður sér síðan eitthvað sem er slæmt er ekki hægt að réttlæta það með því að segja að það sé augljóst. En ég sé ekki betur en að eina gegnsæið hér sé að stjórnmálaleg aðkoma að stjórn RÚV er öllum augljós. Það er því á ákveðinn hátt satt að hér sé gegnsæi en það sem sést er ekkert sérlega fallegt.

Þegar kemur að lýðræðislegum vinnubrögðum og lýðræði almennt hefur oft verið sagt og með réttu að lýðræði sé meira en einhvers konar kosningar. Það þarf meira en það í lýðræði. Tjáningarfrelsi er t.d. hluti af því að hafa virkt lýðræði en við förum ekki að kjósa um hver má tjá sig og hver ekki. Það er samt sem áður réttur. Það er ekki þannig að kosningar eigi heima við öll tækifæri í lýðræðisríki, stundum þvert á móti.

Þegar kemur að því að velja stjórn RÚV virðist það ekki alveg nógu skýrt fyrir hæstv. menntamálaráðherra að RÚV er ekki málpípa Alþingis. RÚV sinnir ekki því hlutverki að tala fyrir hönd þjóðarinnar. RÚV á að vera hlutlaust.

Þegar hæstv. menntamálaráðherra talar um lýðræði í sambandi við stjórn RÚV ætti hann í raun og veru frekar að segja „pólitík“. Þegar hæstv. ráðherra talar um gegnsæi ætti hann frekar að segja „skammarlaust“, „óskammfeilið“.

Það má kalla það gegnsæi að hafa ekki einu sinni fyrir því að fela pólitísk afskipti af RÚV, ef menn vilja punta það upp, en það gerir það ekki sjálfkrafa gott það sem sýnilegt er.

Það er deginum ljósara að þetta frumvarp er skref aftur á bak. Ég hef hitt tvær manneskjur hingað til sem finnst frumvarpið vera góð hugmynd, alla vega hefur enginn haft fyrir því að rökstyðja það eitthvað betur en með þeim rökum að þetta eigi að vera lýðræðislegra og gegnsærra. Annar einstaklingurinn er hæstv. menntamálaráðherra og hinn einstaklingurinn er í stjórn RÚV nú þegar og gerir væntanlega ráð fyrir því að þetta frumvarp verði að lögum. Og þótt maður vilji auðvitað ekki væna fólk um að vera óheiðarlegt verður ekki hjá því komist að spyrja stjórn RÚV um hvernig stjórn RÚV skuli háttað. Það er frekar skrýtið svo ekki sé meira ekki sagt.

Allir aðrir, allir sem ég hef talað við, innan þings sem utan, innan nefndar sem utan, sjá þá augljósu staðreynd að hér er verið að auka pólitísk afskipti af stjórn RÚV og það kemur fram í öllum umsögnum. Það er ekki lýðræðislegt, þvert á móti. Ég ætla ekki að nefna þau lönd þar sem svona tíðkast með góðu.

Það er ekki meira um málið að segja í raun nema kannski til þess að undirstrika það að stjórn RÚV á að vera fagleg. Þarna eru gerðar hæfniskröfur. Við vitum öll, hv. þingmenn, að það eru engar sérstakar hæfniskröfur gerðar þegar kemur að kosningu þingmanna. Af hverju? Jú, vegna þess að við erum kosnir á þing.

Þegar kemur að stjórn RÚV eiga að vera gerðar hæfniskröfur, það á einfaldlega ekki að vera þannig að hver sem er sé hæfur í starfið svo lengi sem það þykir einhver lýðræðisleg aðferð til þess að fara í stjórn.

En hvað sem því líður á RÚV að vera hlutlaust. Þar á að vera hlutleysi. Það hefur ekkert með kosningu að gera hvort menn mega tala. Það kallar ekki á kosningu hvort fjalla á svona eða hinsegin um hitt eða þetta málefni. Þetta er ekki vinsældakeppni. Starf RÚV er ekki vinsældakeppni. Það er ekki hlutverk RÚV. Við kjósum ekki um tjáningarfrelsi ekki frekar en um fréttamennskuna á RÚV. Það er faglegt fyrirbæri og á að vera það.

Aðeins meira um það sem Lárus Ýmir Óskarsson nefndi fyrir nefndinni; þetta er þveröfugt við það sem verið er að gera á öðrum Norðurlöndum. Þar talar fólk ekki um armslengd, þar tala menn um engin afskipti stjórnmálamanna af ríkisútvarpinu. Þannig á það að vera. Þetta er faglegt fyrirbæri. Þetta er fagleg stofnun. Stjórnin á að vera fagleg. Það er ekkert sérstaklega flókið.

Að lokum langar mig aðeins að minnast á núverandi fyrirkomulag samkvæmt núgildandi lögum. Hæstv. menntamálaráðherra telur að það sé á einhvern hátt ógegnsætt. Það eru aðeins fleiri skref í ferlinu, vissulega, en það er ekkert ógegnsærra en hugmynd sem hæstv. menntamálaráðherra felur í sér, ekki á neinn hátt, það eru bara aðeins fleiri liðir í ferlinu.

Ef markmið hæstv. menntamálaráðherra væri aukið gegnsæi hefði hann t.d. getað stungið upp á því að fundargerðir væru birtar á netinu eða eitthvað því um líkt. Það eru margar leiði til þess að auka gegnsæi en þetta er ekki ein af þeim. Þetta eykur ekki gegnsæi nema að því leyti að markmiðið er augljóst, nefnilega pólitísk afskipti af RÚV.

Það er í raun og veru ekki mikið meira um málið að segja. Þetta er hneisa en það sem er jafnvel enn þá meiri hneisa er hversu fáir virðast hafa áhuga á málinu.