142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hef nú í nokkra daga velt því fyrir mér hvaða lýsingarorð ég eigi að nota yfir þetta frumvarp og orðið „svakalegt“ kemur mér oftast í huga. Í barnaskap mínum hélt ég að almennt samkomulag væri um að færa Ríkisútvarpið úr pólitískum böndum. Ég hefði einhvern veginn haldið að allir væru að reyna að vinna að því og hefðu verið að því í næstum því áratugi. Það er víst ekki svo.

Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að sú leið til að velja í stjórn Ríkisútvarpsins sem hann leggur til sé betri en sú sem nú er í gildi með valnefndina, vegna þess að það væri gagnsærra og kjörnir fulltrúar stæðu þá ábyrgir gerða sinna.

Nú er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon einn af reyndustu mönnum hér í húsi. Mig langar til að spyrja hann barnalegrar spurningar líka: Þekkir hann til þess að það sé einhvern tímann gert eða það sé almennt að þegar valið er í nefndir samkvæmt þeirri aðgerð sem nú er lögð til, að þingflokkar leggi til einhver nöfn, þá sé samráð á milli þingflokka um það þannig að hugsanlega náist breidd, hugsanlega náist kynjahlutföll rétt út? Nú ætla ég bara að fara í reynslubanka þingmannsins hv. og spyrja hann: Heldur hann að það geti verið að sú aðferð sem nú er lögð til verði gagnsærri og skili breiðari stjórn en ef við förum í gömlu hefðbundnu pólitísku aðferðina?