142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það hvaða lýsingarorð eigi best við um frumvarpið notaði ég orðið „dapurlegt“, að þetta væri dapurlegt frumvarp. Ég er svo mildur á þessum vordegi. Hv. þingmaður segir „svakalegt“, en ég man eftir öðru orði úr mínum norður-þingeyska banka sem ég tók mér einhvern tímann í munn hér í árdaga og varð dálítið vinsælt um tíma í þinginu, það var orðið „nöturlegt“. Það mætti kannski segja að nöturlegt væri að sjá þetta frumvarp hér frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Mér finnst það eiga ágætlega við.

Já, ég segi alveg eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir. Ég hélt að við værum að komast í burtu frá þessum tímum. Þróunin hefur öll meira og minna verið í þá átt, alla vega allt síðasta kjörtímabil. Valnefndir eru komnar inn í lög og eru vel viðurkennd og þekkt aðferð. Það er eins og hver annar barnaskapur og bull að halda því fram að það sé ógagnsærra ferli. Þvert á móti. Valnefndirnar nálgast málin með því að leggja niður fyrir sér þær faglegu kröfur og forsendur sem menn verða að uppfylla og síðan er það opið ferli eins og hvað annað, hver og einn sem leggur nafn sitt í púkk á rétt á öllum gögnum um sig sjálfan og eftir á er, á grundvelli upplýsingalaga o.s.frv., hægt að krefjast allra gagna. En yfirleitt eru þau afhent refjalaust.

Gamla fyrirkomulagið — við skulum ekki sjá það í neinni rómantík. Hvernig var þetta lengst af? Það var þannig að flokkarnir hver í sínu horni völdu úr sínum röðum fólk sem verið var að verðlauna með stjórnarsetum og bitlingum hér og þar. Þannig var þetta. Það var ekki alltaf óskaplega faglegt heldur var litið svo á að þeir sem hefðu innt af höndum langa og dygga og mikla þjónustu fyrir flokkinn væru þá vel að því komnir að setjast í stjórn á hans vegum, fá bitling eins og bankaráð eða eitthvað því um líkt. Þannig var þetta.

Ég óttast að þetta hafi ekkert endilega mikið breyst ef til kastanna kæmi. Það er himinn og haf (Forseti hringir.) á milli þessara tveggja aðferða og stórkostleg (Forseti hringir.) afturför að mínu mati fólgin í því að fara inn í pólitíkina (Forseti hringir.) með þetta.