142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

orkuverð til álvers í Helguvík.

[15:09]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það fór ekki svo að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon yrðum ekki einhvern tímann sammála. Ég er nefnilega sammála því að það þarf að eyða þessari óvissu og það þarf að fá niðurstöðu í þetta mál. Það er ekki við það búandi að þessi hálfkláraða mikilvæga framkvæmd standi þannig, hálfkláruð. Það var grátlegt í nýliðinni kosningabaráttu að geta nánast farið með sömu rulluna og fyrir fjórum árum. Ég er því sammála hv. þingmanni um að það þarf að fá niðurstöðu í þetta.

Annað sem fram kom í máli hv. þingmanns var hvort við ættum ekki að láta álverin lönd og leið og fara að horfa til nýrra fyrirtækja. Af hverju þarf alltaf að stilla þessu upp sem andstæðum? Það er það sem ég vil forðast að gera. Ef álfyrirtæki ná samkomulagi hér á landi um að reka starfsemi sína hér og slíkar ákvarðanir verða teknar þá fagna ég því og býð þau velkomin.

Ég býð einnig velkomin fyrirtæki úr öðrum greinum og ég ætla ekki að setja upp einhverja matsnefnd í mínu ráðuneyti sem býður sum fyrirtæki velkomin en önnur ekki. (Forseti hringir.) Það verður ekki gert undir minni stjórn.