142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

tekjuöflun fyrir skattalækkunum.

[15:10]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra um tekjuöflun fyrir skattalækkunum og tekjusamdrætti hjá ríkissjóði.

Hæstv. ráðherra skrifaði um þetta ágætlega skilmerkilega grein á heimasíðu sinni og þar segir, með leyfi forseta:

„Við höfum“ — þ.e. ríkisstjórnin — „lofað skattalækkunum og að skerðingar á kjörum aldraðra og öryrkja verði afturkallaðar. Fjármálaráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp um afnám hækkunar á virðisaukaskatti á gistingu sem kostar 1,5 milljarða á ársgrundvelli og sjávarútvegsráðherra boðar breytingar á lögum um sérstakt veiðigjald. … Allt eru þetta dýrar aðgerðir og munu kosta ríkissjóð fleiri milljarða króna“ — sem er auðvitað allt satt og rétt.

Áfram heldur ráðherra í grein sinni:

„Því tel ég brýnt að sem allra fyrst verði lagður sérstakur skattur á skuldir allra þeirra fyrirtækja sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki …“

Til viðbótar, með leyfi forseta, segir hæstv. ráðherra:

„Skuldir þeirra lögaðila sem starfa undir lögum um fjármálafyrirtæki eru um 10 þús. milljarðar kr. og ætti skattur á þær að geta skilað um 30–40 milljörðum kr. árlega í ríkissjóð — sem ætti að dekka vel fyrirhugaðar skattalækkanir og aukin útgjöld þar til þær aðgerðir fara að skila sér í auknum umsvifum. Það sem er umfram er hægt að nýta til að fjármagna sérstakan afskriftasjóð vegna skuldaleiðréttingar til að byrja með.“

Hæstv. ráðherra lýkur ágætum pistli sínum á því að brýna okkur og segja sem svo að þannig getum við öll tekið höndum saman og létt á áhyggjum okkar af stöðu ríkissjóðs sem við höfum mörg hver haft talsverðar áhyggjur af.

Nú bregður svo við, virðulegur forseti, að fjármála- og efnahagsráðherra er ósammála hæstv. ráðherra félagsmála. Í viðtali við Fréttablaðið í gær leggst hann gegn þessum hugmyndum. Ég vil spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort þessi mál hafi verið rædd í ríkisstjórn, hvort ríkisstjórnin sé samstiga í að afla tekna upp á 1% af vergri þjóðarframleiðslu með skattlagningu á fjármálafyrirtækin — ekki skal standa á mínu liði við það — eða hvort ástæðan fyrir því að frumvarp hæstv. ráðherra, um afnám skerðingar aldraðra og öryrkja, er fast í Sjálfstæðisflokknum (Forseti hringir.) er sú að Sjálfstæðisflokkurinn fellst ekki á þessa tekjuöflunarleið.