142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

tekjuöflun fyrir skattalækkunum.

[15:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég lagði tvær eða þrjár spurningar fyrir ráðherrann sem hæstv. ráðherra svaraði ekki: Er ágreiningur í ríkisstjórninni um tillögur hennar um það hvernig á að fjármagna skattalækkanir og útgjaldahækkanir, m.a. til að afturkalla skerðingar á kjörum aldraðra og öryrkja? Þetta er tiltölulega skýr og afmörkuð spurning sem ráðherrann á að geta svarað með sambærilegum hætti.

Mér er vel kunnugt um áform fyrri ríkisstjórnar í álagningu á fjármálafyrirtæki og mér er einnig kunnugt um gríðarlega andstöðu sjálfstæðismanna við þær hugmyndir á síðasta kjörtímabili sem og ýmissa framsóknarmanna. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar um hennar hugmyndir í þessum málum? Hefur þetta verið rætt í ríkisstjórn og er þetta ástæðan fyrir því að frumvarp hennar um almannatryggingarnar er fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og kemst ekki þaðan út?