142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[15:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér tökum við fyrir í 2. umr. eitt af tíu málum sem komu fram í þingsályktunartillögu um skuldavanda heimilanna og úrlausnir í þeim, eitt af þeim þremur af þessum tíu sem kemur fram í beinni tillögu og verður til afgreiðslu á þessu sumarþingi. Öðru er öllu saman vísað í frekari vinnslu og til afgreiðslu einhvern tíma síðar í haust og flestallt í nóvember ef eftir gengur.

Fram hefur komið í umræðunni að þessum málum hefur verið hraðað í dómskerfinu hingað til en bent hefur verið á það af sumum aðilum að skýrari heimild þurfi til að menn geti haft þetta í forgangi. Við teljum sjálfsagt að veita þessu máli stuðning og framgang en höfum haft þann fyrirvara að ríkisstjórnin verði þá að tryggja að dómstólar nái nægt fé svo að önnur mál tefjist ekki ef þannig vill til í framhaldinu. En ég lýsi yfir stuðningi við frumvarpið.