142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum, nr. 146/2012. Þar er um að ræða að taka aftur hækkun á virðisaukaskatti á gistingu úr 7% í 14%, taka hækkunina til baka.

Meginniðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar sem fékkst eftir að hafa fengið gesti á sinn fund, fengið umsagnir og umsögn frá meiri hluta atvinnuveganefndar var að þrjú atriði mæla með því að lækka þennan skatt úr 14 í 7%.

Í fyrsta lagi er það einföldun skattkerfisins. Það er markmið stjórnarflokkanna að einfalda skattkerfið og einfalda umhverfi fyrirtækja. Það frumvarp sem við ætlum að taka til baka skapar einmitt flækjustig vegna þess að bætt er inn nýjum skattstofni í virðisaukaskattskerfið fyrir einungis 608 lögaðila. Það eykur möguleika á undanskotum, eykur möguleika á flækjustigi og gerir auk þess úrvinnslu í kerfinu og eftirlit með því o.s.frv. miklu erfiðari. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að stuðla eigi að einföldun kerfisins með því að viðhalda þeim þremur skattþrepum sem eru til staðar, þ.e. 0%, 7%, 25,5% auk þess sem fjórða þrepið er til sem er skattleysi, þ.e. menn falla ekki undir virðisaukaskattsskyldur og það eru mjög stórir aðilar. Það er allur fjármálamarkaðurinn, allur heilbrigðisgeirinn og allur menntageirinn sem ekki er virðisaukaskattsskyldur og getur ekki dregið frá innskatt.

Annað sjónarmiðið var alþjóðleg samkeppni um ferðamenn. Það er ljóst að Ísland keppir við öll önnur lönd í heiminum, sérstaklega nágrannalönd okkar, um ferðamenn. Þar getur skipt miklu máli hver kostnaðurinn er t.d. við gistingu og virðist vera að ferðamenn horfi meira til gistingar og fargjalda en annars kostnaðar eins og að fara út að borða, kaupa minjagripi og fara í stuttar ferðir. Þegar menn velja ferð horfa þeir meira til gistingar og fargjalda. Þess vegna er mjög mikilvægt að setja ekki of háa skatta á gistinguna. Það getur fælt fólk frá og þýðir að við yrðum af einhverjum ferðamönnum sem hefðu skilað ríkissjóði miklum tekjum, t.d. í formi áfengisgjalds.

Í þriðja lagi komu fram fyrir nefndinni þau sjónarmið að mikið væri um kvartanir um brot á kjarasamningum í ferðaþjónustunni og eins að lögbundnum sköttum og gjöldum væri ekki skilað. Meiri hlutinn tekur undir það sjónarmið að mikilvægt sé að auka eftirlit og aðhald með greininni þannig að jafnræði ríki og heilbrigð samkeppni geti þrifist. Það gengur ekki að innlendir starfsmenn sem virða kjarasamninga og greiða skatta fái ekki störf vegna vonlausrar samkeppni oft og tíðum við erlent starfsfólk sem virðir ekki kjarasamninga og jafnvel ekki skattalög og að innlendir aðilar, sem sumir eru líka útlendingar, gangi um atvinnulausir. Talið er að það flækjustig sem lagt var til í vor verði til þess að erfiðara verði að hafa eftirlit með þessu.

Nokkuð var rætt um áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs. Það er ljóst að ríkissjóður verður af 535 millj. kr. árið 2013 og 1,5 milljörðum árið 2014, að öllu öðru óbreyttu. En það er einnig ljóst að þessar breytingar á skattalögum geta haft áhrif annars staðar ef fleiri ferðamenn koma til landsins vegna þess að gistingin er orðin ódýrari. Það þarf ekki að vera neitt mjög stór hluti til að það gæti skilað tekjum til ríkissjóðs eftir öðrum leiðum, t.d. gegnum áfengisgjaldið eða gegnum vörugjöld og virðisaukaskatt af matvælum og á matsölustaði og annað slíkt. Aukning ferðamanna mundi þá leiða til þess að borgaðir væru meiri skattar. Það er ekki endilega víst að tekjutap ríkissjóðs verði eins mikið og þessar beinu tölur gera ráð fyrir enda er vel þekkt að of mikil skattlagning á ákveðnar greinar getur valdið því að tekjur ríkissjóðs lækka. Það hefur enda sýnt sig á undanförnum fjórum árum að margir skattstofnar sem voru mjög blómlegir eru farnir að láta á sjá eftir mikla skattlagningu.

Nefndarálitið kemur fram á þskj. 32 og þar geta menn kynnt sér það út í hörgul, ég las það ekki allt upp. Einnig geta menn lesið þar umsögn frá meiri hluta atvinnuveganefndar sem var sent til efnahags- og viðskiptanefndar og er dagsett 19. júní 2013.