142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég skal nú fara í þessa umræðu við hv. þm. Pétur Blöndal við tækifæri og þegar tími gefst til. Eigum við þá að fara yfir árið 2008 þegar hallinn á ríkissjóði var 216 milljarðar? Átti ekki að vera afgangur samkvæmt fjárlögunum, ha? Hver var hallinn þá umfram heimildir? (Sjútvrh.: Það varð hrun.) Það varð hrun, já, það varð hrun.

Þegar þarf að afskrifa á einu bretti 33 milljarða sem settir eru inn í Íbúðalánasjóð, auðvitað kemur það svona út í ríkisreikningnum. Það voru engar fjárheimildir fyrir því að Íbúðalánasjóður væri að fara á hausinn en það varð að bjarga honum. Og svo framvegis.

Við getum farið yfir þetta, en veruleikinn er þó sá að við tókum við þessu þrotabúi af Sjálfstæðisflokknum og erum búin að koma ríkissjóði og þjóðarbúinu þó þangað sem það er komið. Ég held að hv. þingmaður ætti að hugsa sig um áður en hann leggur í mikla rökræðu við mig um þetta ef það á að koma neikvætt út fyrir minn hlut.

Varðandi það að afla eigi tekna með öðrum hætti, stækka kökuna. Alltaf er það sama svarið, alltaf. Alltaf þegar hægri menn, frjálshyggjumenn ræða ríkisfjármál, það er sama hvort er góðæri eða erfitt í ári, lausnin er að lækka skatta og lækkaðir skattar eiga alltaf að skila auknum tekjum, alltaf. Það er alltaf þannig. Enda hef ég stundum spurt menn: Af hverju farið þið þá ekki bara með skattinn niður í núll, það hlýtur að skila almestum tekjum ef þetta gengur upp hjá ykkur?

Auðvitað er það ekki þannig. Það dapurlega er að menn skuli ekki komast niður á jörðina, ýta kreddunum til hliðar og horfa raunsætt á þetta eins og það er. Þetta er spurning um tekjur og gjöld, debet og kredit, eins og ég hef sagt, og þessar brauðmolahagfræðikenningar ganga því miður ekki upp. Það er búið að prófa þetta og prófa úti um allt. Og hvernig er ástandið? Í Bandaríkjunum, eigum við að taka það? Það vantar nú ekki að þar hafi þetta verið tískan, aldeilis, það átti alltaf að lækna meinin í Bandaríkjunum með því að lækka skatta. Ég býð ekki í ríkisreikninginn þar ef lífeyrisskuldbindingar væru teknar með, eins og hv. þingmaður vill nú gjarnan gera. Þá er ég hræddur um (Forseti hringir.) að það væri ekki góð útkoma á bandaríska ríkissjóðnum.