142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[16:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Við ræðum hér fyrsta mál þessa þings, þ.e. fyrsta þingmál þessarar ríkisstjórnar, á þskj. 1, flutt af fjármála- og efnahagsráðherra. Það er við hæfi að fyrsta mál hvers þings sé flutt af fjármála- og efnahagsráðherra. Það er að minnsta kosti venjan á haustþingi að fyrsta mál á dagskrá varði fjármál og fjárlög íslenska ríkisins. Það sama á við um þetta frumvarp sem við fjöllum um, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Það hefði mátt ætla, miðað við þau orð og þau ummæli sem féllu þegar tilkynnt var um myndun ríkisstjórnarinnar að Laugum síðari hluta maímánaðar, að þetta frumvarp mundi fjalla um það hvernig ætti að bregðast við erfiðri stöðu í ríkisfjármálum því að nógu svört var sú mynd sem þá var dregin upp og hefur síðar verið dregin upp af formönnum stjórnarflokkanna í þeim efnum. Það var öðru nær og árangurinn af þrotlausu pönnukökuáti og sumarbústaðarápi þeirra formanna í vor á sex vikum, það tók þá sex vikur, er að leggja fram fyrsta þingmál þessa þings sem fjallar um að draga úr tekjum ríkisins, auka á vandann, auka á fjárlagahallann, auka á gatið en engar tillögur. Þeir leggja ekki fram eina einustu tillögu um það hvernig á að koma til móts við þann skaða sem af frumvarpinu mun hljótast.

Í athugasemdum við frumvarpið, sem er reyndar ekki nema tvær greinar, þ.e. 1. gr. fjallar um að breyta eigi prósentuhlutfallinu úr 14% í 7% og 2. gr. um að lögin taki strax gildi, segir að með því sé verið að uppfylla stjórnarsáttmála hægri flokkanna, þ.e. Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, um að einfalda eigi skattkerfið á kjörtímabilinu. Markmiðið virðist því vera fyrst og fremst það að einfalda eitthvað sem er flókið og mönnum óyfirstíganlegt að glíma við og skiptir þá litlu máli hvað það kostar.

Hvað er flókið við það að vera með þrepaskipt virðisaukaskattskerfi sem er þrepaskipt fyrir? Hvað er svona óyfirstíganlega flókið við það að vera með þrepaskipt virðisaukaskattskerfi eins og aðrar þjóðir eru með? Hvað er svona óendanlega flókið við það að vera með þrepaskipt tekjuskattskerfi eins og aðrar þjóðir eru með og komast nú tiltölulega auðveldlega í gegnum það?

Ég geri ekki ráð fyrir því að menn hér á Íslandi séu í samanburði við aðrar þjóðir það tregir að þeir geti ekki klórað sig í gegnum það að vera með þrepaskipt skattkerfi.

Virðulegur forseti. Í frumvarpinu er fjallað allmikið um ferðaþjónustuna sem slíka, hvers konar atvinnugrein hún er. Þar er farið allnokkrum orðum um uppganginn sem hefur verið í ferðaþjónustunni á undanförnum árum og fjölgun ferðamanna. Í athugasemdum við frumvarpið segir, með leyfi forseta:

„Á vef Ferðamálastofu má nálgast upplýsingar um hagtölur í ferðaþjónustu og þar kemur fram að frá árinu 2000 hefur fjöldi ferðamanna meira en tvöfaldast en það ár voru erlendir ferðamenn um 303 þúsund talsins. Heildarfjöldi erlendra ferðamanna var orðinn um 673 þúsund árið 2012 og var þar um að ræða 18,9% aukningu frá árinu 2011 en þá voru erlendir ferðamenn um 565 þúsund talsins. Frá árinu 2000 hefur árleg aukning gistinátta að jafnaði verið um 6,7% milli ára og var heildarfjöldi þeirra um 3,7 milljónir árið 2012. “

Við erum sem sagt ekki að tala um atvinnugrein sem er á hnjánum, sem er við það að brotna, sem má ekki við miklu, má ekki við því að virðisaukaskattur af tíunda hluta þess sem ferðamaðurinn greiðir þegar hann kemur til landsins, þ.e. tíundi hluti kostnaðarins, beri hærri virðisaukaskatt. Við erum að tala um fullvaxna og öfluga atvinnugrein sem jafnast á við stærstu atvinnugreinar landsins. Hvaða réttlæti er í því að slík atvinnugrein fái sérstakan afslátt af virðisaukaskatti, borgi innan við þriðjung og líklega ekki nema um fjórðung þegar allt er til talið (Gripið fram í.) af virðisaukaskatti sem aðrar innlendar atvinnugreinar greiða? Atvinnugreinin er líka í samkeppni hér heima. Hvaða réttlætir slíka skattheimtu? (FSigurj: Erlend samkeppni.) Erlend samkeppni, kallar hv. þm. Frosti Sigurjónsson fram í fyrir mér.

Þá skulum við skoða það aðeins hver álagning er á ferðaþjónustu erlendis. Við skulum fara aðeins yfir það í hverju slík samkeppni er fólgin. Virðisaukaskattur í Noregi er 8%, 9% í Finnlandi, 12% í Svíþjóð og 25% í Danmörku. Þetta er sá virðisaukaskattur og að meðaltali um 11% í ríkjum Evrópu, fyrir utan það að flest þau fyrirtæki búa við annað og óhentugra tekjuskattskerfi en fyrirtæki á Íslandi búa við eins og farið hefur verið yfir hér fyrr í dag. Það eru því engin rök fyrir því að fullvaxta atvinnugrein, ein af burðarstoðum í íslensku atvinnulífi, skuli búa við einhvers konar afslátt af þessu tagi, fyrir utan það að greinin getur einfaldlega vel staðið undir því og er vel burðug til þess að afla nægilegra tekna. Við erum að tala um tíunda hluta af þeim kostnaði sem ferðamaðurinn ber þegar hann kemur til landsins.

Í frumvarpinu segir að ætla megi að lægri virðisaukaskattur af gistiþjónustu hafi einhver áhrif á eftirspurn. Sömuleiðis segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum lækka tekjur ríkissjóðs að óbreyttu um rúmlega 500 millj. kr. frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013.“

Þetta er álit flutningsmanns frumvarpsins, formanns Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sem fullyrðir þetta í frumvarpinu.

„Þá er einnig áætlað að árið 2014 og eftirleiðis muni tekjur ríkissjóðs verða um 1,5 milljörðum kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á móti því tekjutapi vegur, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn og viðbótartekjur, a.m.k. til lengri tíma litið.“

Hér eru nokkur lykilorð í þeirri athugasemd sem ég var að lesa sem lýsir ágætlega efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar, þessu fyrsta þingmáli ríkisstjórnarinnar og fyrsta máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það eru lykilorð eins og „ætla má“ og „ef að líkum lætur“. Ef að líkum lætur mun aukin eftirspurn vega upp tekjutapið — ef að líkum lætur. Það er ekki mikið hald í því, ekki frekar en að ætla megi að virðisaukaskattur hafi áhrif á eftirspurn. Liggja einhverjar rannsóknir þarna að baki? Eru einhver gögn sem fylgja með þessu frumvarpi sem benda til þess að einhver fótur sé fyrir „ef að líkum lætur“ og „ætla megi“ geti jafnvel og kannski eitt og annað gerst? Svona frumvörp hafa sjaldan verið flutt með jafn veikum röksemdafærslum af hálfu þeirra sem stýrt hafa fjármálaráðuneytinu undanfarin ár, það skal ég fullyrða. Nei, það liggja engin gögn hérna fyrir og engar rannsóknir. Engar vísbendingar eru um að einhver fótur sé fyrir því að ætla megi og að líkum láti, ekki nokkur einustu gögn.

Annað liggur fyrir. Ákveðnar staðreyndir liggja fyrir um það að þegar virðisaukaskattur á ferðaþjónustu var lækkaður niður í 7% á sínum tíma hafði það nánast ekki mælanleg áhrif á verð á gistinóttum, sáralítil mælanleg áhrif voru á verð á gistinóttum. Það má halda því fram með góðum rökum að gjaldheimtan á gistinóttum hér á landi sé í raun og sann með 14% álagningu, ekki 7%, vegna þess að það hafði engin áhrif þegar prósentan var lækkuð á sínum tíma. Þetta liggur fyrir. Það þarf ekkert að leiða neinar líkur að því, þetta eru staðreyndir. Það þarf ekkert að ætla þetta því að þetta eru staðreyndir.

Virðulegur forseti. Í umsögn hinnar ágætu skrifstofu um opinber fjármál úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu, þaðan sem þetta frumvarp er runnið, frá skrifstofu fjármálaráðherra, segir, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum er áætlað að ríkissjóður muni verða af tekjum sem nema 535 millj. kr. árið 2013 og verða tekjur ríkissjóðs þá lakari en áætlað var í fjárlögum sem því nemur. Þá er áætlað að árið 2014 og eftirleiðis verði tekjur ríkissjóðs um 1,5 milljarða kr. lægri árlega en ella hefði orðið að óbreyttum lögum. Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóð. Verður því að gera ráð fyrir að afkoman versni í sama mæli og þar með að sama eigi við um framgang markmiðs um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs …“

Það er engin smálesning sem kemur af skrifstofu opinberra fjármála, úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þar kunna menn að lesa í gögn, þar kunna menn að rýna í tölur og þar áætla menn ekkert eða láta skeika að sköpuðu hvaða áhrif slík frumvörp hafa sem hér um ræðir. Það er ekkert „að líkum lætur“ í því, virðulegur forseti. Hérna segir beinlínis að þetta frumvarp ógni efnahagsáætlun landsins, bæði efnislegt innihald þess og eðli þess, þ.e. lausatökin sem er verið að búa til í ríkisfjármálunum enn og aftur verða þau sömu og ríktu hér í aðdraganda hrunsins.

Er þetta hluti af einhverju plani? Er einhver áætlun á bak við þetta frumvarp? Hvar er sú áætlun? Hvernig fellur þetta frumvarp inn í ríkisfjármálaáætlunina? Eða er bara verið að fylgja einhverri hugmyndafræði um að lágir skattar muni alltaf auka tekjur?

Þetta frumvarp felur í sér að enn og aftur, þótt upphæðin sé ekki há í stóru samhengi ríkisfjármálanna, er verið að taka upp sömu lausatökin, veiku áætlanagerðirnar og voru hér í aðdraganda hrunsins og leiddu til — hvers?

Í lokafjárlögum 2011 sem afgreidd voru á Alþingi í lok síðasta þings er fjallað aðeins um ríkisfjármálaáætlunina og lausatökin í fjárlagagerð hér á landi og eftirfylgni fjárlaga og hvað léleg áætlanagerð kostaði okkur. Þar segir meðal annars að yfirfærðar fjárheimildir, þ.e. frá fjárlögum til lokafjárlaga, þegar gengið er endanlega frá fjárlögum hvers árs, hafi á árinu 2006, þegar góðærið var allt að brenna hér upp og allir voru að orna sér við hitann, verið 5,9% af fjárlögum, í sjálfu góðærinu voru yfirfærðar heimildir sem hlutfall af fjárlögum yfir til lokafjárlaga 5,3% árið 2007, því mikla ári, 4,8% 2008.

Hvernig gekk það í hruninu? Hvernig gekk það þegar allt fór hér fjandans til í kjölfar hrunsins, þegar efnahagsóreiðan var fullkomin og stóra bálið geisaði? Við náðum tökum á þessu. Við náðum tökum á þessu með því að hafa stjórn á fjármálunum, bæta áætlanagerðina og ná stjórn á því sem við vorum að gera. Árið 2011, virðulegi forseti, fór áhrifa hrunsins að gæta hvað mest. Þau fjárlög voru kölluð stóru hrunfjárlögin og voru erfiðustu fjárlögin sem hafa verið afgreidd hér á þingi. Þá vorum við komin niður í 2,6% af yfirfærðum heimildum á lokafjárlög sem hlutfall af fjárlögum, á móti 5,9% í góðærinu.

Á síðustu þremur árunum fyrir hrun var farið 75 milljarða fram úr fjárlögum. Undir það nefndarálit um lokafjárlög skrifar hver einasti þingmaður í fjárlaganefnd — hver einasti. Stjórn og stjórnarandstaða skrifuðu undir þetta plagg og staðfestu það, enda var afar góð samvinna í fjárlaganefnd um öll þau mál sem þar voru afgreidd. Í nefndarálitinu var vísað til þess að þetta mætti ekki endurtaka sig, þetta mætti ekki gerast hér aftur, þetta sé algerlega galið. Til að undirstrika það enn frekar var aftur fjallað um það í nefndaráliti við frumvarp til fjáraukalaga þegar það var gert að lögum síðastliðið haust, þ.e. fjáraukalög 2012. Þar segir, með leyfi forseta:

„Til margra ára hefur Ríkisendurskoðun, og reyndar einnig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, bent á nauðsyn þess að takmarka útgjöld með því að draga úr vægi fjáraukalaga“ — o.s.frv.

„Á undanförnum árum hefur tekist að koma á breytingum í þá veru að takmarka viðbótargjaldaheimildir í fjáraukalögum, þrátt fyrir niðurskurð á hverju ári …“

Síðar er fjallað um 6–8% framúrkeyrslu á fjárlögum frá árinu 2007 til 2008 sem nú er komin niður í 2% og farin að nálgast það sem gerist í öðrum löndum þar sem agi og stjórn er á fjármálum. Sem betur fer.

Enn og aftur fjallar meiri hluti fjárlaganefndar um að gera megi betur með samstilltu átaki í áætlanagerð og það megi ekki endurtaka sig sem hér gerðist.

Er þetta frumvarp til merkis um það þar sem lykilorðin eru „að ætla megi“ og „ef að líkum lætur“ muni hitt og þetta kannski eða jafnvel gerast? Ekkert bendir til þess annað en að með því sé stefnt í nákvæmlega sama farið og áður.

Hv. þm. Pétur Blöndal fór hér yfir nefndarálit meiri hlutans þar sem áherslan er lögð á tvö eða þrjú atriði, í fyrsta lagi að einfalda skattkerfið.

Þarf að lækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu til að einfalda skattkerfið? Er það svona hræðilega flókið? Er það svo hræðilega flókið að menn skilji það ekki, erfitt sé að búa við það? Vita menn hvað flókin skattkerfi eru? Vita menn hvað þrepaskipt skattkerfi er í nágrannalöndum okkar sem við miðum okkur við? Menn stóðu á öndinni af hneykslun í þessum sal fyrir örfáum árum þegar tekið var upp þrepaskipt tekjuskattskerfi með þremur tiltölulega einföldum þrepum. Er það eitthvað flókið? Hefur það ekki gengið sæmilega fyrir sig? Hafa þeir sem hafa þurft að véla með það ekki komist klárlega og ágætlega frá þeim málum?

Hér er talað í allundarlegri klásúlu í nefndarálitinu um eftirlit. Ég áttaði mig ekki á því við lestur þessa frumvarps að það snerist um eftirlit og að það gangi ekki eins og segir í nefndarálitinu, með leyfi forseta, „að innlendir starfsmenn, sem virða kjarasamninga og greiði skatta, fái ekki störf vegna vonlausrar samkeppni við erlent starfsfólk sem virði ekki kjarasamninga …“

Fjallar þetta frumvarp um kjarasamninga og útlendinga? Er verið að setja einhverja útlendingaskattalög hér á borð þingmanna? Stendur til að mismuna jafnvel Íslendingum og útlendingum í skattalegu tilliti hvað þetta varðar?

Álit meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar er algjörlega út í hött hvað þetta varðar og þarfnast miklu frekari skýringar en kemur fram í nefndarálitinu og kom fram hjá hv. þingmanni og framsögumanni nefndarálitsins, Péturs Blöndals.

Sömuleiðis er talað hér mikið um skattsvik og að draga þurfi úr undanskotum, sem er allt hárrétt. En liggur eitthvað fyrir, hafa verið lögð fram gögn hér í þinginu — þau voru ekki lögð fram á síðustu fjórum árum við sams konar umræðu — um að bein tengsl séu á milli skattsvika og prósentu skatta? Eru slík tengsl fyrir hendi? Af hverju fylgja þau ekki með þessu frumvarpi? Eða erum við ekki að tala um undanskot í þessu nefndaráliti þar sem er 7% virðisaukaskattur — ekki 25%, ekki 30% eða 50%, nei, 7%? Það er verið að tala um að verið sé að koma í veg fyrir undanskot með skattprósentu sem er 7%. Hvað þarf að fara langt niður með skattprósentuna að mati flutningsmanns þessa frumvarps og meiri hluta nefndarinnar til að koma í veg fyrir skattsvik? Voru ekki skattsvik hér þó að fjármagnstekjuskattur væri 10%? Ég er nú aldeilis hræddur um það. Reyndu menn ekki að komast undan því að borga þann skatt? Ég held nú betur. Það var hvergi meira um það en einmitt þar sem skatthlutfallið var lægst, virðulegur forseti.