142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:09]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir útskýringarnar á þeim kafla sem þarna er. Það breytir því ekki að framsögumaður nefndarálitsins lagði talsverða áherslu á þann hluta sem hluta af frumvarpinu sjálfu, þ.e. að það væri beinlínis markmiðið með því að lækka virðisaukaskattinn að koma í veg fyrir undanskot og koma í veg fyrir að útlendingar tækju vinnu af Íslendingum. Ég sé það ekki sem markmið þessa frumvarps. Það getur vel verið að þetta verði einhvers konar breytingartillaga þó að ég sjái það alls ekki hér í dag.

Ég skil alveg hvað verið er að fara þarna, ég átta mig alveg nákvæmlega á því og ég er sammála því sem fram kemur hvað varðar aukið eftirlit, brot á kjarasamningum, ef þau eru fyrir hendi. En ég skil hins vegar ekki tenginguna, að lækkun virðisaukaskatts á tíunda hluta af kostnaði erlendra ferðamanna hingað til lands eigi að verða einhvers konar inngrip í kjarasamninga, að það komi í veg fyrir brot á kjarasamningum eða það að ekki gangi að erlendir starfsmenn sem ekki virða kjarasamninga taki vinnu af Íslendingum sem vilja vinna samkvæmt kjarasamningum og greiða skatta samkvæmt skattalögum, að sjálfsögðu.

Það er það sem ég vildi vekja athygli á því að framsögumaðurinn nefndi þennan kafla sérstaklega í tengslum við undanskot, kjarasamningsbrot og skattsvik í ferðaþjónustu. En ég sé bara akkúrat engin tengsl milli þess og frumvarpsins, eins og ég fór yfir áðan. Ef til eru einhver gögn um að lág skattprósenta, 7%, 9% eða 15%, dragi frekar úr skattsvikum en 25% eða 20 eða 30% þá vildi ég gjarnan fá að sjá slík gögn. Ég kallaði eftir þeim hér í fjögur ár í umræðu um skatta úr þessum ræðustól en ég fékk þau aldrei vegna þess að hér er einfaldlega verið að fylgja þeirri hugmyndafræði (Forseti hringir.) að lágir skattar auki alltaf tekjur.