142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég ber alltaf töluverða virðingu fyrir þeim sem vilja freista þess að standa við þau kosningaloforð sem menn hafa gefið og þess vegna er ég ósammála hv. þm. Birni Val Gíslasyni um að það sé vel við hæfi að það frumvarp sem við ræðum sé fyrsta mál þessarar ríkisstjórnar og flutt af hæstv. fjármálaráðherra.

Við vitum að þau loforð sem gefin voru af hálfu ríkisstjórnarinnar voru miklu stærri í ýmsum öðrum efnum og ég kom satt að segja hingað til þings, eins og ég lýsti yfir áður en sumarþing hófst, til þess að greiða götu ákveðinna frumvarpa og loforða sem hæstv. ráðherrar höfðu lýst yfir að þeir mundu leggja fram. Ég hef verið mjög undrandi yfir því að þetta mál skuli einmitt vera fyrsta mál ríkisstjórnarinnar. Ég átti von á því eftir þau himinháu loforð sem Framsóknarflokkurinn hafði gefið varðandi skuldaniðurfærslur að það yrði fyrsta málið sem ég fengi þann heiður að fá að hjálpa í gegnum þetta þing. Ég kom hingað til þess að styðja hæstv. forsætisráðherra til þess að ná þeim málum í gegn og mig undraði satt að segja að einu efndirnar hingað til á þeim loforðum hafa verið þær að hér var lögð fram þingsályktunartillaga sem var í reynd ekkert annað en minnisblað frá hæstv. forsætisráðherra til ríkisstjórnarinnar um hvað gera bæri núna á næstu mánuðum.

Í því speglaðist það að sjálfsögðu að ríkisstjórnin kom að þessu leyti til algjörlega vanbúin til þings og þær áætlanir og útfærslur sem Framsóknarflokkurinn hafði lofað að yrðu lagðar fram bak kosningum voru bersýnilega ekki til. Nú á að kveðja saman sérfræðinganefndir til þess að búa til það sem Framsóknarflokkurinn lét alla halda að væri til reiðu.

Í annan stað þá kom ég hingað til þess að hjálpa hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra til þess að standa við þær yfirlýsingar sem glöddu mig, um að afnema skerðingar sem fyrrverandi ríkisstjórn þurfti að framkvæma í kjölfar hrunsins sem hér varð. Mig langar þess vegna til að spyrja hv. stjórnarliða sem eru í þessum sal: Hvað dvelur þann langa orm? Hvernig stendur á því að það frumvarp er ekki fram komið? Nú er liðið á þriðju viku frá því að sumarþingið hófst og enn bólar ekki á þessu öðru meginmáli hæstv. ríkisstjórnar.

Ég spyr hæstv. forseta hvort hann geti gefið einhverjar upplýsingar um það hvenær þess er að vænta að þingheimur fái að sjá það frumvarp og hvort ástæðan fyrir því að það er ekki komið í sali þingsins sé sú að andstaða sé við það mál innan Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst skipta máli að við fáum að vita það og það tengist meira að segja þessu máli að því marki að með því frumvarpi sem hér liggur fyrir til 2. umr. er augljóslega verið að skerða svigrúm ríkissjóðs til þess einmitt að grípa til ívilnandi aðgerða af þeim toga sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra lagði sitt pólitíska líf að veði fyrir að kæmi hér fram, síðast úr þessum ræðustól fyrr á þessum degi. Hvernig stendur á því að það er ekki komið fram?

Mér finnst að þeir ágætu hv. þingmenn stjórnarliðsins sem hér eru skuldi þingheimi skýringar á því. Og af því að hér er formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins — hún kallaði fram í hér í dag þegar hv. þm. Björn Valur Gíslason lét að því liggja í ræðustóli að það væri vegna þess að málið væri fast hjá Sjálfstæðisflokknum að andstaða væri við það þar. Hv. þingmaður, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri rangt, málið væri ekki fast þar. Þess vegna vildi ég gjarnan fá að vita það undir þessari umræðu hvort svo sé eða ekki.

Herra forseti. Ég tapa ekki löngum svefni að minnsta kosti þó að þessi hæstv. ríkisstjórn komi til þings og nái fram þessu máli. Það er ekki hægt að brigsla henni um að hún hafi ekki sagt frá því fyrir fram hvað hún hygðist gera. Báðir stjórnarflokkarnir sögðu það algjörlega skýrt að þeir ætluðu að taka aftur þessa hækkun með þeim hætti sem við höfum síðan séð í frumvarpsformi, það er alveg ljóst. En hitt verð ég að segja að það skýtur skökku við þegar það er gert í umhverfi þar sem hæstv. ráðherrar, ekki síst hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, boða til sérstaks blaðamannafundar til þess að lýsa því mjög sterkum litum hversu illa haldinn ríkissjóður sé. Og hverju byrja þeir á? Þeir byrja á því að reyna að bora örlítið gat á hann líka.

Í ljósi þess að vafi leikur á því að ríkisstjórnin komi fram frumvörpum sínum, einmitt vegna þess að ekki er svigrúm innan vébanda ríkissjóðs til þess að gera það, þá finnst mér eðlilegt að menn skýri með hvaða hætti eigi þá að koma til móts við og uppfylla þann tekjumissi sem af þessu frumvarpi hlýst. Það er fullkomlega eðlileg krafa við þessar sérstöku kringumstæður.

Erindi mitt hingað upp í þennan stól var þó fyrst og fremst það að gera nokkrar athugasemdir við ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals, bæði jákvæðar og neikvæðar, og spyrja hann einnar spurningar til þess að greiða fyrir skilningi mínum og þar með fyrir þingstörfum í dag.

Hv. þingmaður sagði réttilega að það væri gríðarlega góður gangur í ferðaþjónustu hér á landi og sannarlega er það svo að eitt af undrum íslensks atvinnulífs á síðustu árum hefur einmitt verið gangurinn í ferðaþjónustu. Það hefur glatt mig sem fyrsta formlega ferðamálaráðherra Íslands á sínum tíma en ekki síst þykist ég sjá í viðgangi og vexti greinarinnar merki um skipulögð og öguð vinnubrögð. Ekki skal ég leggjast gegn þeirri skoðun hv. framsögumanns Péturs H. Blöndals hér í dag að tvö eldgos hafi vafalítið átt þátt í því að setja Ísland á kortið og greypa það svo í vitund heimsins að það hefur haft sterkara aðdráttarafl fyrir vikið. En hitt er alveg ljóst að fyrrverandi ríkisstjórn lagði metnað sinn og mikið af fjármunum skattborgaranna í að efla markaðssókn fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu og þarf enginn að fara í grafgötur með að það bar árangur.

Markaðsátakið Inspired by Iceland, sem ýmsir gagnrýndu í upphafi og kostaði mikla peninga, hefur eigi að síður heyjað Íslandi orðstír á alþjóðavettvangi. Hún hefur sömuleiðis hlotið mörg verðlaun víðs vegar um heimsbyggðina og er enn að sanka að sér verðlaunum. Ísland allt árið er önnur herferð sem skilað hefur ákaflega miklum árangri. Og þó að ég ætlist nú ekki til mikils af hv. stjórnarliðum finnst mér samt alveg að þeir gætu haft þá stærð til að bera að viðurkenna það sem vel er gert. Ég held að það sé ekki nokkur maður sem ekki getur fallist á annað en að þarna voru framkvæmdar og mótaðar skýrar áætlanir og fjármunir fylgdu þeim. Á síðasta kjörtímabili voru samtals lagðar 1.350 milljónir króna bara í markaðssóknina sem ég nefndi hér, þessar tvær herferðir, miklu meira en nokkru sinni fyrr í þessa atvinnugrein og það skilar svo sannarlega þeim árangri sem lýst hefur verið í dag. Á þessu ári nemur aukning erlendra ferðamanna til landsins um 100 þús. ferðalöngum. Sama var uppi á teningnum í fyrra og benda spár til þess að þróunin haldi áfram en hugsanlega dregur örlítið úr henni á öðru ári héðan í frá.

Ef menn ætla að skoða þetta án tillits til kosningaloforða held ég að allir geti komist að þeirri niðurstöðu að greinin er ekki bara mikilvæg, hún er að verða fær um að leggja töluvert meira af höndum til samfélagsins. Ég gengst líka alveg fúslega við því að á sínum tíma var ég krítískur á þá aðgerð sem upphaflega var lögð fram af þeirri ríkisstjórn sem ég sat í og ég skildi þau rök sem ferðaþjónustan hafði fram að færa. Það var einkum tvennt sem hún hafði með sér sem ég taldi að hlusta ætti á; það var í fyrsta lagi að hækkunin væri of brött og í öðru lagi að fyrirvarinn væri of skammur, en á það var hlustað. Það var bara þannig.

Niðurstaðan eftir miklar umræður um þetta mál, sem var ansi umdeilt á sínum tíma, leiddi til þess að málinu var skotið lengra inn í framtíðina og sömuleiðis var skatturinn lækkaður. Það skiptir máli. Ég held að enginn geti haldið því fram með sterkum rökum að þetta geti með einhverjum hætti riðið greininni á slig og er ég ekki endilega að segja að menn hafi talað þannig. En menn þurfa hins vegar að vita á hvaða grunni þeir standa þegar þeir grípa til ákvarðana af þessum toga.

Ég hjó eftir því í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals að hann talaði gunnreifur um að lækkunin mundi leiða í gegnum alls konar sitrunarleiðir út í samfélagið til þess að ríkissjóður mundi, þegar upp er staðið, hafa jafn mikið í hendi. Að lækkunin mundi sem sagt skila sér með sama hætti annars staðar. Reyndar hjó ég eftir því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega áfengisgjaldið og veit ég ekki hvort hann er sérstaklega að gera út á aukinn drykkjuskap túrista, sem ég tek fram að ég hef ekki orðið var við.

En mér finnst að þegar menn koma við þær aðstæður sem ég hef lýst fyrr í ræðu minni, og leggja fram tillögu sem felur það í sér að ríkissjóður verður af 1,5 milljörðum á ári á sama tíma og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra nær ekki, greinilega vegna andstöðu innan Sjálfstæðisflokksins, að koma fram frumvarpi til þess að bæta kjör aldraðra og öryrkja af því að það er ekki til svigrúm, þá finnst mér að menn verði að minnsta kosti að leggja fram grunninn sem tillagan er lögð á. Ég hefði þess vegna viljað spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal, ef hann væri ekki genginn mér úr greipum og kannski hefur hann fínar afsakanir fyrir því að vera ekki hér sem framsögumaður málsins, undir lok ræðu minnar hvort það væri rétt skilið hjá mér að hv. þm. Pétur H. Blöndal væri þeirrar skoðunar að þessi lækkun mundi skila sér að fullu til baka í gegnum annars konar gjöld sem mundu þá spretta af styrkari ferðaþjónustu en ella.

Það mundi að minnsta kosti greiða fyrir skilningi mínum á þessu máli. Mér finnst í reynd að það sé ein af lykilspurningunum. En ef hv. þm. Pétur H. Blöndal er ekki staddur hér þá ætla ég ekki að biðja hæstv. forseta um að færa hann hingað í böndum. En gott væri ef svona lykilstaðreyndir lægju fyrir: Á hverju er þetta byggt? Ég tel að það væri heiðarlegt af stjórnarliðinu bara að segja það ef sú er raunin að frumvarpið sé lagt fram til þess að standa við kosningaloforð. Það er alla vega heiðarlegt að láta okkur vita af því og við erum þá kannski betur í stakk búin til þess að ræða hér síðar í dag eða á morgun hvað veldur því að því ágæta frumvarpi sem hæstv. húsnæðis- og félagsmálaráðherra hefur lýst yfir síðast á þessum degi að sé að vænta. Hvað veldur dvöl þess? Af hverju er það ekki komið hér fram?