142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var ekki ætlun mín að fara í andsvar við hv. þm. Össur Skarphéðinsson en fyrst hann hóf mál sitt og ræðu á því að undrast þá afstöðu mína að þetta mál væri það fyrsta sem hæstv. ríkisstjórn leiðir fram á þinginu þá útskýrði ég það eins vel og ég mögulega gat en reyni að gera það aftur svo hv. þingmaður átti sig á því hvað ég var að fara í þeim efnum. Mér fannst það mjög við hæfi í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hægri stjórnin gaf — þegar hún var mynduð og tilkynnt var um við myndun ríkisstjórnarinnar að erfiðir tímar væru í efnahag landsins, erfiðir tímar væru í fjármálum landsins, hérna væri að myndast ógnarstórt gat í fjárlögum, menn vissu ekki hvernig ætti að bregðast við — að fyrsta mál, fyrsta þingskjal, fyrsta þingmál þeirrar ríkisstjórnar væri frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum, það finnst mér vel við hæfi. En það fjallar ekki um það, það fjallar um að stækka gatið, auka hallann. Það fjallar um að færa aukinn kostnað á íbúa landsins í formi vaxtakostnaðar og minni opinberrar þjónustu, lakara velferðarkerfis o.s.frv. því að það hefur allt áhrif af þessu tagi.

Ég efast ekki um vilja hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar og get vel ímyndað mér að hann hafi hangið á hurðarhúni Alþingis á fyrsta degi þessa þings og beðið óþreyjufullur eftir að fá að fjalla um tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldamál heimilanna. Ég sem venjulegur Jón úti í bæ gerði hins vegar engar kröfur til þess að staðið yrði við það mál og geri það ekki enn. Enda sýnist mér að þeim tillögum sé aldeilis gefið á glannann af umsagnaraðilum varðandi það þingmál sem er til umfjöllunar í allsherjarnefnd þingsins.