142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki endilega alveg sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að menn eigi ekki að eiga þann rétt að endurskoða óskynsamleg kosningaloforð ef aðstæður breytast eða menn hafa málefnalegar ástæður til þess, eins og ég ímyndaði mér að forustumenn stjórnarflokkanna væru að gera með því að draga upp þessa dekktu mynd sína af ástandi ríkisfjármála, að þeir hlytu að vera að búa í haginn fyrir það í og með að geta heldur dregið úr væntingunum sem þeir hefðu gefið um að sáldra silfrinu í allar áttir. Nú kann ég ekki allan loforðaflauminn. Þetta er eins og smáatriði borið saman við stóru loforðin, móður allra kosningaloforða um mörg hundruð milljarða skuldaaðgerðir o.s.frv. Ég þekki ekki hvort þessari tilteknu skattalækkun var beinlínis lofað af stjórnarflokkunum. En jafnvel þótt svo væri hefði ég ekki talið þá vera minni menn þó að þeir hefðu staldrað við, meðal annars í ljósi sinna eigin orða um að þyngra sé fyrir fæti í ríkisfjármálum.

Ástæða þess að ég kem hingað er aðallega sú að ég verð að gera ákveðnar athugasemdir við þau ummæli fyrrverandi hæstv. ráðherra að hann sé fyrsti formlegi ferðamálaráðherrann á Íslandi. Ég kannast ekki við annað, hafandi gegnt til dæmis samgönguráðuneytinu á ofanverðri síðustu öld, á árunum 1988–1991, en að þá höfum við líka litið á okkur sem ferðamálaráðherra og gert þeim málaflokki hátt undir höfði. Ég ætla ekki að hafa neinn heiður af fyrrverandi hæstv. ráðherra, mér þykir vænt um að hann skuli vera stoltur af því að hafa sinnt ferðamálum í Stjórnarráðinu, en ég verð fyrir hönd sjálfs mín og annarra samgönguráðherra þessara ára, sem litum alltaf svo á að við værum líka ferðamálaráðherrar enda gegndum við því embætti í alþjóðlegum samskiptum og vorum stoltir af, að biðja hv. þingmann allra vinsamlegast að hafa það í huga.