142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[17:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér um eina mikilvægustu stofnun íslensks samfélags, Ríkisútvarpið, sem við settum ný lög um í vor. Var mikill einhugur um málið þó að vissulega hafi Sjálfstæðisflokkurinn og einhverjir framsóknarmenn setið hjá í málinu. Við erum flest, þó ekki öll, sammála um að vera með ríkisrekinn fjölmiðil í almannaþágu og voru gerðar margþættar breytingar á lagareglum sem giltu um Ríkisútvarpið og lögð megináhersla á hlutverk þess sem fjölmiðils í almannaþágu í nýju lögunum. Því er meðal annars ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Þetta eru háleit markmið og það er vísað í ákveðin siðferðisgildi sem Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri, svo sem fagmennsku, heiðarleika og virðingu, auk þess sem áhersla skuli lögð á rækt við íslenska tungu, sögu og menningu þjóðarinnar.

Til þess að framfylgja lögunum var sett inn í þau ákvæði um stjórn og reglum um skipun stjórnarinnar breytt. Í stað hlutbundinnar kosningar á Alþingi þar sem stjórnmálaflokkarnir tilnefndu fulltrúa sína í stjórn stofnunarinnar, og stjórnin hafði aðallega það hlutverk að huga að rekstri hins opinbera hlutafélags sem Ríkisútvarpið er, var í nýju lögunum breytt fyrirkomulagi á skipun í stjórnina þannig að sérstök valnefnd væri fengin til þess að velja sex fulltrúa og sá sjöundi var valinn af starfsmönnum Ríkisútvarpsins enda er það í anda nútímans að vera með rödd starfsmanna í slíkum stjórnum. Stjórnina átti ráðherra að skipa út frá tillögum þessarar valnefndar enda átti stjórnin að vera þannig samsett að litið væri til þekkingar stjórnarmanna á þeim sviðum er lúta að rekstri og starfsemi Ríkisútvarpsins sem og þekkingar á fjölmiðlum og menningarmálum. Það kemur til af því að í nýju lögunum á stjórnin samkvæmt 1. tölulið 10. gr. að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma.

Miklar skyldur eru lagðar á herðar þessarar stjórnar sem á að sitja tvö ár í senn. Mikilvægt er að í hana sé valið af gaumgæfni fólk sem endurspeglar ólík sjónarmið, hefur mismunandi reynslu í farteskinu til að rækja skyldur stjórnar en sem getur jafnframt unnið saman að markmiði laganna um góðan fjölmiðil í almannaþágu.

Með þessu litla og sakleysislega frumvarpi sem hér er til umræðu er gjörsamlega verið að umturna markmiði laganna. Nú er horfið frá valnefndinni sem á að vinna sameiginlega að því að velja fulltrúa í stjórnina en við förum aftur í gamla góða farið, stjórnmálaflokkarnir tilnefna fulltrúa í stjórn hver eftir sínum hentugleik í hér í þingsal og þetta verða sjö fulltrúar. Þegar við vorum í þessu áður voru fulltrúarnir fimm en þeim er fjölgað núna um tvo. Alvarleikinn í frumvarpinu er að fulltrúarnir eiga ekki eins og áður að gæta að rekstri Ríkisútvarpsins heldur eiga þeir að móta dagskrárstefnu.

Það er verið að draga úr faglegum þætti í dagskrárstefnunni sem endurspeglar stjórn sem vinnur þetta samhent og sérvalið. Nú vitum við ekkert hvernig samsetningin verður, það verða beinir fulltrúar hins pólitíska valds sem eiga að móta stefnuna hverju sinni. Sjö fulltrúar verða þá valdir þannig að meiri hlutinn er með meiri hluta fulltrúa þannig að við verðum með ríkisútvarp sem verður með dagskrárstefnu í samræmi við þá ríkisstjórn sem situr að völdum hverju sinni. Í þessu liggur hættan.

Mér verður það æ hugleiknara hversu vandmeðfarið vald er. Við erum hér kjörnir fulltrúar og höfum fengið gríðarlegt vald frá umbjóðendum okkar. Síðan eru sum okkar sem styðja ríkisstjórn til að fara með framkvæmdarvaldið og það er annars konar vald en engu minna en löggjafarvaldið þó að framkvæmdarvaldið eigi í orði að lúta vilja löggjafarvaldsins. Við sem förum með vald þurfum að vera mjög meðvituð um áhrif gjörða okkar og það hvernig við getum misbeitt valdi með alvarlegum afleiðingum. Við eigum að leitast við það í hvívetna að nýta vald okkar til þess að gagnast almenningi í landinu. Við erum fulltrúar kjósenda.

Herra forseti. Ég lít svo á að ég sé fulltrúi kjósenda Samfylkingarinnar, ég er fulltrúi kjósenda í Reykjavíkurkjördæmi suður og ég er fulltrúi allra kjósenda á landinu. Þegar ég eða aðrir í þinginu eða í ríkisstjórn störfum hér erum við að vinna að hag allra landsmanna. Við erum ekki hér til þess að sinna þröngum pólitískum hagsmunum okkar flokka þó að við séum að sjálfsögðu fulltrúar þeirrar stefnu sem við erum kosin á Alþingi fyrir.

Það er líka ágætt að hafa í huga að meiri hlutinn í þinginu telur 38 manns sem er dágóður meiri hluti þingmanna en ríkisstjórnin er bara með 51% atkvæða landsmanna að baki sér. Það vefst þó ekkert fyrir því ágæta fólki að vilja með afgerandi hætti þröngva hinu pólitíska valdi inn á einn öflugasta fjölmiðil landsins.

Mér finnst þetta valdhroki og mér finnst mjög sérkennilegt og gefa vond skilaboð um það sem í vændum er á þessu kjörtímabili að það skuli vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar, sem talar um samráð og samvinnu í öðru hverju orði í nýjum stjórnarsáttmála, að koma með frumvarp sem þetta í algjörri andstöðu við ekki bara minni hlutann í þinginu og ýmsa úr stjórnarliðinu sem studdu lögin fyrir nokkrum mánuðum heldur líka alla þá umsagnaraðila sem hafa fjallað um málið. Frumvarpið sem var samþykkt í mars var mörg ár í vinnslu, fékk mjög ítarlega umfjöllun, en þessu er slengt hér fram án nokkurs samráðs, án nokkurrar umfjöllunar og látið að því liggja að það sé sjálfsögð og eðlileg breyting að ráðherra vilji fá að hafa pólitískan meiri hluta í stjórn Ríkisútvarpsins.

Við höfum oft haft áhyggjur af því í íslensku samfélagi, og það kemur meðal annars fram í rannsóknarskýrslu Alþingis, að fjölmiðlar hér á landi eru fremur veikt afl. Nýju lögin voru meðal annars hugsuð til þess að leysa Ríkisútvarpið frekar undan pólitísku valdi og efla það sem fjölmiðil, efla valdið sem á að hafa eftirlit með okkur, eftirlit með Alþingi, ríkisstjórninni, forsetanum, sveitarstjórnum, með þeim aðilum eða stofnunum eða einstaklingum eða félagasamtökum hér í landinu sem gera sig gildandi í samfélaginu og hafa áhrif á það hvernig líf okkar er sett saman.

Þessi nýja ríkisstjórn kom inn með miklum lúðrablæstri, það voru aldeilis nýir tímar þegar ungir menn komu til að takast á við — hvað? Skuldavanda heimilanna. Það var forgangsmál. Svo var hver ráðherrann á fætur öðrum sem lýsti því yfir að nú skyldi aldeilis bæta lífeyrisþegum skerðingar fyrri ríkisstjórnar, skerðingar sem voru gerðar út af gríðarlega alvarlegu ástandi ríkissjóðs og sem nú eru tillögur um að vinna til baka með heildstæðri nýrri löggjöf um almannatryggingar sem er til bóta fyrir alla lífeyrisþega.

En hvaða mál koma hér inn? Kom skuldavandinn hér inn? Já, það komu tillögur um að við mundum kannski í haust eitthvað hugsa út í skuldavanda heimilanna. Þá fengjum við kannski einhverjar tillögur á borðið. Þessir flokkar sem í fjögur ár hafa býsnast yfir því á Alþingi að ekki sé nóg gert koma tillögulausir til þings nema tillögurnar fela í sér að það eigi að búa til hópa til að skoða þetta. Þeir treysta sér ekki einu sinni til að segja að það eigi að búa til tillögur í anda kosningaloforðanna. Þessar tillögur eru svo loðnar að það kom til dæmis fram í velferðarnefnd, þar sem við fjölluðum um málið, að fólk var svo sem jákvætt í garð þess að það ætti að bæta hag heimilanna en þessar tillögur væru svo opnar að það væri erfitt að leggja mat á hvort þær væru góðar. Erum við hér að fjalla um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar? Nei, en það fer sögum af því að það frumvarp sé í einhvers konar kostnaðarmati í fjármálaráðuneytinu.

Það sætir furðu, herra forseti, því að það frumvarp hefur nú þegar verið afgreitt út úr ríkisstjórn og þaðan afgreiðast frumvörp ekki nema þau hafi fengið kostnaðarmat. Svo fer líka sögum af því að það frumvarp hafi verið afgreitt út úr Framsóknarflokknum. Þetta eru ekki dylgjur, herra forseti, heldur þær ályktanir sem hægt er að draga af því sem sagt er hér þegar ég, sem formaður velferðarnefndar, spyrst fyrir um hvað valdi því að við erum ekki búin að fá aðalmálið okkar inn í nefndina. Ef það er í kostnaðarmati er búið að gera breytingar á því frá því að það var afgreitt út úr ríkisstjórn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það mun líta út. Við í Samfylkingunni viljum að sjálfsögðu vinna að því að draga úr skerðingum lífeyrisgreiðslna en við ætlumst til þess að heildstætt frumvarp sem við erum búin að leggja hér fram öðru sinni um breytingar á almannatryggingakerfinu verði rætt samhliða.

Um þær breytingar var þverpólitísk samstaða og þær breytingar koma upp úr margra ára vinnu. Úr því að talað er um samvinnu og sáttavilja er sérkennilegt að ríkisstjórnin hafi ekki treyst sér til þess að leggja fram það frumvarp sem var tilbúið í velferðarráðuneytinu sem felur í sér gríðarlegar umbætur. Við skulum sjá hvað tefur og ráðherra félags- og húsnæðismála hefur lýst því yfir að við förum ekki heim af sumarþingi fyrr en það frumvarp verði að lögum. Ég verð að segja að ég er ánægð með að ráðherra skuli standa svo með lífeyrisþegum en ég velti fyrir mér hvenær við fáum málið til umfjöllunar. Í þingsköpum segir að þing eigi að taka leyfi frá 1. júlí til 10. ágúst og við höfum fundað hér hvern föstudaginn á fætur öðrum til að fjalla um mál sem var kannski ekki haft hátt um í kosningabaráttunni. Það hefur ekkert staðið á tillögum um lækkun á veiðigjaldi, lækkun á vaski á ferðaþjónustu og pólitísk afskipti af RÚV. Þar er ekkert japl, jaml og fuður og beðið fram á haust með samráði og samvinnu. Þar er bara slegið til og þar er örlætið á fé ríkissjóðs ótakmarkað. Svo velti ég líka fyrir mér, fyrst ríkisstjórnin er með þá stefnu að auka pólitísk afskipti af opinberum hlutafélögum ríkisins, hvort við megum vænta þess sama til dæmis varðandi skipanir í stjórn fjármálafyrirtækja, hvort við eigum að taka þann gamla sið upp að vera hér með hlutbundna kosningu í bankaráð og ráð sparisjóðanna sem við eigum. Ég er ekki viss um að mönnum hugnist það jafn vel. Þá væri áhugavert að vita hvort þetta sé einhver sérstök stefnubreyting, hvort það sé einhver heildstæð hugsun sem liggi að baki þessu eða hvort þetta sé bara leið til að draga úr krafti fjölmiðla til þess að halda uppi gagnrýninni umræðu í samfélaginu.

Mér fyndist ákaflega eðlilegt að þetta mál yrði tekið út af dagskrá, það yrði farið betur ofan í saumana á ástæðunni fyrir framlagningu þess og ráðherra, snúist honum ekki hugur sem ég vona sannarlega að gerist, komi þá með ítarlegri breytingar, hann taki þá vald af stjórninni til að móta dagskrána í Ríkisútvarpinu. Það er líka mikilvægt að fá svör við því af hverju hann vill ekki vinna í samræmi við núgildandi lög sem voru samþykkt hér fyrir nokkrum vikum. Þá sat ráðherra hjá og hafði sig ekkert sérstaklega í frammi, hafði engar sérstakar áhyggjur af þessu máli.

Mér skilst að mikið kapp sé lagt á að ná veiðigjöldunum úr nefnd. Ætli skuldamálin komi ekki undir lok vikunnar en almannatryggingarnar eru ekki komnar inn enn þá. Spurningin er þá hvort við eigum að vera hér dag eftir dag að ræða óþurftarmál sem þingmenn stjórnarflokkanna láta sig litlu varða. Það var mikið kallað eftir því hér fyrir helgi að þingmenn Framsóknarflokksins tjáðu sig um málið. Það er auðvitað hverjum í sjálfsvald sett hvort hann tjáir sig um einstök mál í ræðustól og alveg eðlilegt að heilu þingflokkarnir komi ekki upp til að tjá sig, en það væri þó áhugavert ef fulltrúarnir í nefndinni vildu lýsa fyrir okkur af hverju þeir telja ásættanlegt að hverfa frá þeim breytingum sem við gerðum nýverið og hvort þeim finnist þetta í anda þeirra faglegu vinnubragða og þess samráðs sem boðað er í hinum gjörvulega Laugarvatnssáttmála.

Núna ræðum við þetta mál og 15 þingmenn eru með fjarvist, þar af 11 úr stjórnarmeirihlutanum. Við erum komin inn í sumarstörfin í alþjóðanefndunum, þingmenn eru þar á fullu og ég skil ekki af hverju menn geta ekki bara nýtt tímann til að vinna betur í þeim málum í nefndunum sem þeir telja nauðsynlegt að koma að á þessu sumarþingi, geti þá unnið betur í þessu máli og lagt fram annað mál í haust eða bara sleppt því. Að sjálfsögðu vil ég hafa lögin óbreytt en það er nýr ráðherra og ef hann telur svo brýna þörf á að breyta þessum lögum tel ég rökstuðninginn fyrir þessari breytingu algjörlega ófullnægjandi. Mér finnst óþægilegt að ekki sé betri rökstuðningur en fram kemur í þessu frumvarpi fyrir þeirri stefnubreytingu sem á að gera með RÚV.

Herra forseti. Það er því tillaga mín að þetta mál verði tekið út af dagskrá og hæstv. ríkisstjórn stundi í þessu það samráð sem hún lofsamar svo mjög í Laugarvatnssáttmálanum.