142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefnir hér að þau mál sem eru til umræðu séu mörg hver óþurftarmál, það var orðið sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir notaði. Það kann að vera að hv. þingmanni þyki það. En ég kem hérna upp vegna þess að hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er jafnframt formaður velferðarnefndar og hún lýsir því hér yfir sem formaður nefndarinnar að þegar tekið verði til umræðu frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um almannatryggingakerfið, þegar það verður komið fram, muni hún, hv. þm., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, krefjast þess að frumvarp sem hér liggur frammi, þar sem 1. flutningsmaður er Guðbjartur Hannesson, sama frumvarp og lagt var fram á síðustu dögum þingsins á síðasta kjörtímabili, verði rætt samhliða.

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ég hafi heyrt rétt þegar hv. þingmaður lýsti því yfir að hún sem formaður velferðarnefndar, hv. þingmaður Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, mundi krefjast þess að það frumvarp yrði rætt samhliða.