142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið og fagna því að fá að svara þessari spurningu. Ég mun ekki krefjast þess persónulega í krafti embættis míns sem formaður velferðarnefndar, það er krafa sem þingflokkur Samfylkingarinnar hefur lagt fram að það mál verði sett á dagskrá og rætt samhliða. Meðferðin í nefndinni er í höndum nefndarinnar og þar vinnum við í sátt og samlyndi. En það er eðlilegt að þessi mál séu send samhliða til umsagnar. Málið sem um ræðir á sér langan aðdraganda. Það er búið að vera í vinnslu frá árinu 2007, endurskoðun á löggjöf um almannatryggingar. Sú vinna hefði sannarlega mátt ganga hraðar en meðal annars höfðu áföllin sem ríkissjóður varð fyrir þau áhrif að þeirri vinnu seinkaði.

Það var þverpólitísk samstaða um frumvarpið á þingi. Það kom mjög seint til velferðarnefndar, í lok síðasta þings. Það var gríðarleg krafa um að það mál yrði unnið á því þingi. Það var ómögulegt því að það kom svo seint fram og var því ekki hægt að gefa málinu nokkra daga í umsagnarfrest. Það var óeðlilegt þegar um er að ræða svo miklar grundvallarbreytingar á almannatryggingalöggjöfinni sem er grundvallarlöggjöf í íslensku samfélagi. Það mál hefur því verið í umsagnarferli um langan og góðan tíma og það er eðlileg krafa þingflokks Samfylkingar, sem lagði málið fram þegar ljóst var að ráðherra ætlaði ekki að gera það, að það fáist rætt hér samhliða þegar verið er að ræða breytingar á almannatryggingum.