142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. En nú liggur fyrir að það frumvarp sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra leggur fram í þinginu er um endurskoðun á skerðingu sem gerð var á kjörum ellilífeyrisþega og öryrkja en er ekki heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu í heild sinni.

Því langar mig að spyrja hv. þingmann, sem segir jafnframt að hugsanlega þurfum við ekki að vera hér mjög lengi og rétt að draga mál til baka: Telur hv. þingmaður að sá tími sem eftir lifir af þessu sumarþingi sé til þess fallinn að ljúka jafn mikilvægu máli og heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu er — og ég tek undir það með hv. þingmanni — samhliða því að endurskoða og draga til baka þær skerðingar eða hluta þeirra skerðinga sem hér voru settar á 2009 í kjölfar hruns?