142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn leggur mikið upp úr samvinnu og samráði. Það frumvarp sem liggur fyrir um breytingar á almannatryggingalöggjöfinni er búið að vera í sex ára samvinnu- og samráðsferli. Það er búið að vera í löngu umsagnarferli. Þetta er grundvallarlöggjöf. Það er ekkert vandamál að þingið vinni áfram lengra inn á sumarið með það að ljúka málinu. En að sitja hér og bíða — umrætt frumvarp hefur ekki komið í þingið, ég veit ekki einu sinni hvort það kemur hér inn. Það liggur ekki alveg ljóst fyrir en maður ræður það svona af því sem sagt er en vegna orða ráðherra hér fyrr í dag sannfærðist maður um að frumvarpið væri að koma inn.

Ég held að þeir þingmenn sem til þekkja telji mikilvægt að skoða þessi mál samhliða. Ef það er álit meiri hlutans í þinginu að eingöngu eigi að fara í það að draga til baka skerðingarnar án þess að fara í þessar metnaðarfullu breytingar þá munum við að sjálfsögðu styðja að skerðingarnar verði dregnar til baka en við munum harma að það verði ekki gert samhliða kerfisbreytingunni. Við getum alveg setið hér lengur ef það varðar mál sem við teljum svo sannarlega til hagsbóta fyrir stóran hóp lífeyrisþega og mál sem unnið er í löngu og vönduðu samráðs- og samvinnuferli.