142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[18:29]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Eftir því sem mér skilst erum við að ræða fyrsta frumvarp nýs mennta- og menningarmálaráðherra, það fyrsta sem hann leggur fram í hinu nýja embætti sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Við höfum svo sem rætt það fyrr í dag hvaða áherslur felast í fyrstu frumvörpunum sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar koma með til þingsins og ég vakti athygli á því í umræðu um niðurfærslu á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu að mér fyndist við hæfi að fyrsta þingskjalið sem yrði til umræðu á þessu nýja þingi væri í þeim anda sem formenn stjórnarflokkanna hefðu boðað og talað um þegar hægri stjórnin var mynduð á Laugarvatni síðla í maí, þ.e. um að takast á við vandann í efnahagsmálum sem hefði blasað við okkur í nokkur ár. Fyrsta nýja þingskjal fjármála- og efnahagsráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, fjallaði um ráðstafanir í ríkisfjármálum en með öfugum formerkjum, þ.e. það var ákveðið að leggja fram mál til að auka á hallann, stækka gatið og auka á vandann sem var þó ærinn fyrir, ekki síst að mati formanna stjórnarflokkanna og talsmanna ríkisstjórnarinnar sem hafa bæði haldið fjölmiðlafundi og verið ólatir við að tala ástandið niður og mála það svartara en mögulegt hefur verið að gera og ástæða er til.

En hvað um það, fyrsta mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar fjallar um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Það vekur nokkra undrun að ráðherrann skuli leggja áherslu á að koma með slíkt frumvarp inn á sumarþingið sem átti, ef ég skildi rétt, að vera sérstaklega ætlað að afgreiða mjög mikilvæg pólitísk mál, ég tala nú ekki um mikilvæg mál fyrir skuldug heimili og einstaklinga í landinu, a.m.k. að teygja sig í áttina að því að geta efnt stóra loforðið sem gefið var í aðdraganda kosninga. Því vekur það allnokkra undrun að mál af þessu tagi skuli koma inn í það andrúmsloft og inn á það sumarþing sem nú stendur yfir, fyrsta þing eftir kosningar.

Lög um Ríkisútvarpið voru samþykkt á síðustu dögum síðasta þings í ágætri samstöðu, þ.e. aðeins fjórir þingmenn greiddu atkvæði gegn lögunum þegar þau voru samþykkt, fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Þrír þeirra greiddu atkvæði gegn því af fjárhagslegum ástæðum, þ.e. vegna tekjustofna Ríkisútvarpsins, hvernig ætti að afla Ríkisútvarpinu tekna, ekki af neinum öðrum ástæðum. Í máli þeirra kom ekkert fram sem rökstuddi neinar þær atkvæðagreiðslur eða sem bendir til þess að þau hefðu nokkrar athugasemdir við það frumvarp sem þá varð að lögum aðrar en þær sem sneru að tekjuöflun útvarpsins.

Fjórði þingmaðurinn, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, hafði ýmsar efnislegar athugasemdir við frumvarpið, hv. þingmaður sem þá var og greiddi sömuleiðis atkvæði gegn frumvarpinu á þeim forsendum. Fyrsta mál nýs ráðherra er af þessum toga, það er ekki brýnt heldur er breyting á nýsamþykktum lögum, enginn hefur kallað eftir þessu, hvorki úr þessum þingsal né annars staðar. Þetta háir ekki stofnuninni á nokkurn hátt. Þetta hefur ekki verið til umræðu í samfélaginu. Þess vegna vekur furðu að mál af því tagi komi hingað inn og maður spyr sig, eins og maður á reyndar oft að gera og yfirleitt alltaf þegar lagafrumvarp er lagt fram, hvort sem það er til breytingar á lögum eða setningar nýrra laga, til hvers sé verið að þessu, hver ástæðan sé fyrir því að vera er að leggja fram svona frumvarp.

Hvað býr að baki? Hvaða markmiðum á að ná? Hefur það einhvern tilgang að breyta lögunum eins og lagt er til í viðkomandi frumvarpi?

Þannig held ég að þingmenn eigi ætíð að nálgast lagafrumvörp með gagnrýnum huga hvað þetta varðar. Til hvers er þetta gert? Hver er ástæðan fyrir því? Er nauðsynlegt að gera þetta?

Í frumvarpinu sjálfu er engar slíkar skýringar að finna, það eru engin rök færð fyrir því í frumvarpinu hvers vegna þurfi að breyta lögum um ríkisútvarp frá því í vor. Það virðist ekki vera nein brýn þörf á því. Það liggur ekkert að baki. Það eru engin sérstök rök færð fyrir því önnur en pólitísk. Ég ætla að fá að vitna í ræðu hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þegar hann mælti fyrir þessu frumvarpi á dögunum. Þar sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Þegar ég tók við embætti mennta- og menningarmálaráðherra hafði ráðuneytið þegar hafið undirbúning að skipun valnefndar og sent ósk um tilnefningu í hana 9. apríl sl. Tilnefningar höfðu þegar borist frá Bandalagi íslenskra listamanna og Samstarfsnefnd háskólastigsins en tilnefning þriggja manna í valnefndina og annarra þriggja til vara hafði ekki borist allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis, sem hafði reyndar misst umboð sitt frá og með kjördegi 27. apríl sl. Þar sem engin allsherjar- og menntamálanefnd hefur verið starfandi frá kjördegi hefur því dregist í ráðuneytinu að ljúka skipun valnefndar um tilnefningu fimm stjórnarmanna í stjórn Ríkisútvarpsins.“

Þarna er sagt frá því að málið væri í ferli, lögin væru að fara að taka gildi, það ætti að fara að vinna eftir þeim. Þá var hafinn undirbúningur að því að skipa í stjórn og engin athugasemd gerð við verklagið. Það kom engin athugasemd frá nokkrum aðila til menntamálaráðherra, a.m.k. engin sem hann greindi frá í ræðu sinni, um að það ætti ekki að gera þetta með þessum hætti, hvergi nokkurs staðar.

Hæstv. ráðherra fer í ræðu sinni yfir það hvernig lögin eru, hvernig á að skipa í stjórnina samkvæmt gildandi lögum og gerir engar sérstakar athugasemdir við það. Hann rekur þær staðreyndir sem felast í lögunum. Síðan sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta, í ræðu sinni þegar hann fylgdi frumvarpinu úr hlaði:

„Meðal fyrstu mála sem komu á mitt borð sem mennta- og menningarmálaráðherra var umrætt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum Ríkisútvarpsins. Eftir vandlega skoðun var það niðurstaða mín að þrátt fyrir góð áform löggjafans um aðkomu valnefndar að vali stjórnarmanna félagsins væri fyrirkomulagið gallað því að engin trygging væri fyrir því að það næði markmiði sínu.“

Þetta er dálítið athyglisvert. Þetta er meðal fyrstu mála sem komu á borð ráðherra í nýju embætti. Hver bar þetta mál inn á borð ráðherrans, hver bað um þetta? Það kom ekki fram í umræðu í þinginu, það kom engin ósk fram um það í umræðu í þinginu. Þvert á móti töluðu samflokksmenn ráðherrans og þingmenn núverandi ríkisstjórnar um hið gagnstæða, gegn því sem frumvarpið fjallar um. Ég mun fara yfir það síðar í ræðu minni og vitna í þau ummæli, m.a. fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Ég spyr mig: Hvers vegna var þetta meðal fyrstu mála sem komu inn á borð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra? Hver bar þetta inn til hans? Hver kom með þessa frómu ósk? Eða var þetta einfaldlega eitthvað sem ráðherrann fann að hann þyrfti að gera í sjálfu sér í pólitíkinni sinni eða bara til að koma hingað inn með eitthvert mál sem þyrfti að afgreiða á sumarþingi?

Hann segist hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að breyta þessu eftir vandlega skoðun. Sú vandlega skoðun fylgir ekki frumvarpinu. Það er ekkert í frumvarpinu sem bendir til þess að einhver vandleg skoðun hafi farið fram eða úttekt á þessari tillögu sem rökstyður frumvarpið frekar. Hvernig fór þessi vandlega skoðun fram? Átti hæstv. ráðherra samtöl við sjálfan sig? Var settur á fót einhver starfshópur, einhver nefnd? Hverjir komu að þessari skoðun? Var haft samband við starfsmenn Ríkisútvarpsins? Var rætt við stjórn eða stjórnendur Ríkisútvarpsins? Hvernig fór þessi vandlega skoðun fram sem hæstv. ráðherra nefnir í ræðu sinni þegar hann leggur þetta mál fram að hafi farið fram og knúið hann til að flytja þetta mál á þingi, breytingar á lögum um Ríkisútvarpið? Það er ein breyting um að skipa með pólitískum hætti í stjórn þessarar mikilvægu stofnunar.

Hæstv. ráðherra fjallaði talsvert í ræðu sinni um hlutverk stjórnarinnar og hvert markmið þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, hafi verið með þessu. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði í ræðu sinni þegar mælt var fyrir þessu frumvarpi á þinginu fyrir nokkrum dögum, með leyfi forseta:

„Það var ekki stóra hugsunin á bak við [lögin] að breyta fyrirkomulaginu um skipan stjórnar, að breyta skipan stjórnar með þeim hætti sem gert er í gildandi lögum þannig að starfsmenn eignist fulltrúa …“

Með öðrum orðum var ekki stóra málið með lagasetningunni að starfsmenn ættu þar fulltrúa „þannig að hæstv. menntamálaráðherra,“ heldur hv. þm. Katrín Jakobsdóttir áfram, „skipi formann stjórnar og síðan sé valnefnd sem sé skipuð þremur fulltrúum úr hv. allsherjar- og menntamálanefnd, fulltrúa frá Bandalagi íslenskra listamanna og fulltrúa frá Samstarfsnefnd háskólastigsins, sem síðan velji stjórnarmenn. Hugsunin var ekki sú,“ segir fyrrverandi hæstv. menntamálaráðherra, „að búa til allsendis ópólitíska stjórn, annars hefði hv. allsherjar- og menntamálanefnd ekki komið að málinu, það var alls ekki hugsunin. Hugsunin var sú að breikka grundvöllinn sem stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á, ekki síst vegna þess að í aðdraganda þessarar lagasetningar var farið í gríðarlega vinnu.“

Farið hafði fram gríðarleg vinna, mikil gögn lágu að baki lagasetningunni sem var samþykkt á Alþingi í lok síðasta þings um Ríkisútvarpið, frumvarpi sem var borið fram á fleiri en einu þingi. Það hefur farið margsinnis í gegnum ítarlega umræðu í þingnefnd og fengið margar umsagnir og það lá góð og mikil greining að baki því frumvarpi sem varð til þeirrar samstöðu sem náðist um þessa lagasetningu á þinginu þvert á flokka.

Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir heldur áfram að útskýra fyrir núverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í ræðu sinni hér á dögunum, með leyfi forseta:

„Starfshópur var skipaður sem skilaði skýrslu og benti þar meðal annars á að í þeim lögum sem voru sett árið 2007 þar sem Ríkisútvarpinu var breytt í opinbert hlutafélag — og það var auðvitað stærsta deiluefnið þá, breytingin á rekstrarforminu, hún var það sem stóð upp úr allri umræðu um þau lög — úr því að svo hefði farið að Ríkisútvarpinu hefði verið breytt í ohf. væri í raun og veru mjög sérkennilegt að hafa stjórn þess félags sem síðan var með mjög takmarkaða ábyrgð í lögum.“

Það var hugsun á bak við það frumvarp sem ráðherrann bar hér upp og síðar varð að lögum, það var vandlega skoðað af fjölmörgum aðilum. Eins og ég fór yfir áðan varð samstaða um þetta mál. Það var samþykkt með yfirgnæfandi fjölda atkvæða þingmanna bæði stjórnar og stjórnarandstöðu á þeim tíma. Það komu tvö nefndarálit þegar lögin voru samþykkt á Alþingi, annað sem stjórn og stjórnarandstaða stóðu saman að að undanskildum þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem skilaði sérnefndaráliti en ekki vegna þess að hv. þáverandi þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gerði athugasemdir við skipun stjórnar Ríkisútvarpsins, alls ekki. Það var ekki nefnt í nefndarálitinu heldur var sérálitið af allt öðrum toga.

Það var því nauðsynlegt og ég gerði það að gamni mínu, þó að það sé ekki beinlínis mikil skemmtun að því, að pæla í gegnum flestar ræðurnar sem voru haldnar þegar mælt var fyrir frumvarpinu og þegar lög um Ríkisútvarpið voru sett. Þar er rakinn undirbúningur að lagasetningunni í löngu máli. Ég ætla að hlaupa á helstu atriðum sem þar koma fram og byrja á því að vitna í hæstv. þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem segir, með leyfi forseta:

„Um mitt ár 2009 þegar rúmlega tveggja ára reynsla var fengin á ný lög ákvað ég að skipa starfshóp um almannaútvarp á Íslandi með það verkefni að meta áhrif nýrra laga og gera tillögur að úrbótum.“

Það var eitthvert ferli í gangi af því að lögum um Ríkisútvarpið hafði verið breytt árið 2007 þar til þáverandi ráðherra ákvað að halda því ferli áfram og leggja mat á það hvernig þau lög höfðu reynst Ríkisútvarpinu og hvort ástæða væri til að gera einhverjar úrbætur á þeim.

Áfram segir hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir:

„Skilaði starfshópurinn tillögum sínum í byrjun árs 2010. Þær kynnti ég fyrir stjórn og stjórnendum Ríkisútvarpsins með ósk um að þær tillögur, sem ekki kölluðu á lagabreytingar, yrðu teknar til greina og var brugðist vel við því. Hins vegar kölluðu margar af tillögum starfshópsins um úrbætur á Ríkisútvarpinu á breytingar á gildandi lögum, auk þess sem athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA um tilhögun ríkisaðstoðar til Ríkisútvarpsins voru tilefni lagabreytinga.“

Með öðrum orðum eru tillögur sem unnar höfðu verið bornar undir stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnendur, það er lagt mat á þær og unnið með þær frekar. Ekkert slíkt er að finna í frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar þrátt fyrir að hann hafi fullyrt það í ræðu sinni að að baki því frumvarpi væri mikil skoðun og mikil greining.

Virðulegi forseti. Áfram vitna ég í hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, í umræðum um frumvarp sem síðan varð að lögum um Ríkisútvarpið:

„Með frumvarpinu er mörkuð sú stefna að Ríkisútvarpið leggi megináherslu á það hlutverk sitt að veita fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Af því leiðir að lýðræðis-, menningar- og samfélagslegt hlutverk Ríkisútvarpsins er í forgrunni en viðskiptasjónarmið í starfseminni verða víkjandi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerð verði skýr aðgreining á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi …“

Um þetta var fjallað í frumvarpinu í stórum dráttum.

Síðan er fjallað um það sem varð til þess að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, ekki út af því hvernig væri skipað í stjórnina, ekki vegna þess hvaða hlutverk stjórnin átti að hafa, ekki vegna eðlis Ríkisútvarpsins eða hlutverks þess eins og kveðið var á um í frumvarpinu að þyrfti að vera — heldur vegna tekjustofnanna. Hæstv. fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra segir þá í ræðu sinni:

„Með frumvarpi þessu er einnig mælt fyrir um innri starfsemi Ríkisútvarpsins til að efla lýðræðislega starfshætti þess, enda er gefin sú forsenda að opinbert félag sem á að gegna veigamiklu hlutverki við að efla og viðhalda lýðræði í landinu verði að starfa með lýðræðislegum hætti. Í því felst eðlileg dreifing ábyrgðar og víðtækt samráð um dagskrána með aðkomu starfsmanna og notenda.“

Það var sem sagt hugsun á bak við það sem lagt var fram í frumvarpinu. Áfram er haldið, með leyfi forseta:

„Það er mikilvægt að tekjustofn Ríkisútvarpsins sé skýr, fyrirsjáanlegur og samsvari innheimtu útvarpsgjaldsins til að það geti gert raunhæfar fjárhagsáætlanir til lengri tíma. […] Verði sjálfstæði Ríkisútvarpsins ekki tryggt er vegið að getu þess til að sinna hlutverki sínu sem fjölmiðlaþjónusta í almannaþágu sem á að vera fær um að veita nauðsynlegt aðhald stjórnvöldum á hverjum tíma, vera vettvangur skoðanaskipta, vera í aðstöðu til að geta sett á dagskrá málefni sem stjórnvöldum eða öðrum aðilum mislíkar.

Miðað við þessar forsendur er það eitt af markmiðum frumvarpsins að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi.“

Eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins sem þingið ákvað þvert á flokka að gera að lögum í vor var að styrkja stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart hinu pólitíska valdi. Það var sem sagt hugsun á bak við það sem þarna átti að vera og markmiðin voru skýr.

Með því frumvarpi sem hér er hins vegar til umræðu er verið að nálgast aftur hið pólitíska vald, það er verið að opna aftur dyrnar á milli ráðuneytis og útvarps. Það er galopið á milli, ég tala nú ekki um ef sami háttur verður hafður á hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra eins og skipan í stjórn LÍN, þá gæti þingflokkurinn skipað sjálfan sig inn í stjórn Ríkisútvarpsins. Það væri ígildi þess.

Hæstv. þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra Katrín Jakobsdóttir fjallaði í ræðu sinni sérstaklega um stjórn Ríkisútvarpsins og sagði meðal annars, með leyfi forseta:

„Meðal tillagna starfshópsins sem ég nefndi áðan um almannaútvarp á Íslandi var að skipan og hlutverk stjórnar yrði tekið til athugunar.“ — Það var sem sagt markmiðið að skoða þetta mál sérstaklega. — „Það er gert í þessu frumvarpi einkum hvað varðar skipan og fyrirkomulag við val á stjórn Ríkisútvarpsins. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra menningarmála tilnefni einn fulltrúa sem verði formaður stjórnar. Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins tilnefni einn fulltrúa í stjórn“ o.s.frv. eins og farið var yfir áðan.

„Hugsunin á bak við þetta er að samsetning valnefndar og hlutverk hennar samkvæmt frumvarpinu tryggi að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varðar rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins og ekki síst meginmarkmiðum þess.“

Það var sem sagt hugsun á bak við þá tillögu sem lögð var fyrir þingið og þingið ákvað að gera að lögum óbreytt.

„Þessi hugmynd er að sumu leyti,“ svo ég haldi áfram að vitna í ræðu hæstv. fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, „dregin líka frá þeim sjónarmiðum sem komu fram hjá stjórnendum NRK sem bentu á að mjög mikilvægt væri að í stjórn almannaþjónustumiðilsins sæti góð samsetning af fólki þar sem ekki væri einhæf reynsla undir, heldur kæmi saman ólík þekking og ólík hæfni sem mundi nýtast til þess að skipa stjórn eins og best yrði á kosið. …

Ég vek athygli hv. þingmanna á því að samkvæmt tillögu meiri hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar hefur verið gerð sú breyting að fulltrúi starfsmanna hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt í stjórn Ríkisútvarpsins.“

Til rökstuðnings því hvernig á að skipa í stjórnina er vitnað til þess hvernig það er gert annars staðar og að markmiðin séu skýr. Það er ekki bara að skipa stjórn heldur hafi hún ákveðið hlutverk. Það er markmið að hún sé samansett með tilteknum hætti og stjórn Ríkisútvarpsins sé því í betri færum til að uppfylla markmið Ríkisútvarpsins samkvæmt lögunum.

Það má svo sem nefna hér að eitt af því sem mælt var fyrir í þessu frumvarpi sem síðar varð að lögum var að mæla fyrir um sérstaka vernd í starfi fyrir starfsmenn fréttastofu og dagskrárgerðarmenn, m.a. vegna kjarasamninga svo menn fengju vernd vegna frétta og til að taka upp málefni gegnum fréttir, dagskrárgerð o.s.frv. Það er reynt að styrkja sjálfstæði Ríkisútvarpsins, starfsmanna og stjórnar.

Það voru ekki gerðar miklar athugasemdir við markmið þáverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Hv. fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, Siv Friðleifsdóttir, skrifaði undir álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og studdi málið. Hún greiddi málinu atkvæði sem og flestir þingmenn stjórnarandstöðunnar þá, að fjórum undanskildum. Það var einfaldlega þannig.

Hv. þáverandi þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fjallaði mikið um þetta mál í þinginu, m.a. um stjórnina sem slíka. Þar kemur kannski það fram sem maður óttast að búi að baki frumvarpi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra með skipan pólitískrar stjórnar. Í ræðu sinni fer hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yfir skoðun Sjálfstæðisflokksins á því hvernig eigi að skipa Ríkisútvarpið og segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Það er líka rétt að draga það fram að við innan Sjálfstæðisflokksins — oft er talað um að það sé bara eitt mál innan flokksins sem er deiluefni, þ.e. Evrópusambandið og umsóknarferlið varðandi það, það er ekki rétt. Hægt er að tala um [önnur deiluefni] og síðan er hægt að tala um Ríkisútvarpið sem hefur oft og tíðum verið mjög skemmtilegt umræðuefni á hinum ýmsu fundum innan flokksins sem utan.“

Það skyldi þó aldrei vera, virðulegi forseti, að það sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra nefnir í ræðu sinni, að þetta mál hafi borist inn á borð hjá honum, eitt af fyrstu málum, hafi bara komið beint ofan úr Bolholti, þ.e. verið sé að fylgja eftir pólitískum markmiðum umfram önnur? Í það minnsta er engin önnur haldbær skýring á því hvers vegna hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson velur þetta mál sérstaklega og gefur að minnsta kosti í skyn að þetta mál hafi borist honum inn á borð rétt eins og um einhvern þrýsting hafi verið að ræða eða beiðni um að endurskoða stjórn Ríkisútvarpsins án þess að upplýsa hvaðan hún hafi komið. Hv. fyrrverandi þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þakkar einnig þáverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir að hafa tekið tillit til meiri hluta allsherjarnefndar og þeirrar tillögu um aðild starfsmanna Ríkisútvarpsins að stjórn RÚV, þ.e. fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins tekur undir þá skoðun sem kemur fram, tekur undir þau ákvæði laganna að starfsmenn Ríkisútvarpsins eigi að eiga aðild að stjórninni með málfrelsi og tillögurétti. Það er í andstöðu við það frumvarp sem hér um ræðir.

Hv. fyrrverandi þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir heldur áfram að fjalla um stjórnina í ræðu sinni um lagasetninguna á síðasta þingi, með leyfi forseta, og vitnar hér í frumvarpið sem þá var til umræðu:

„Við tilnefningu á fulltrúum í stjórn skal valnefnd hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja.“

Hún vitnar þar til markmiðanna, efast reyndar og spyrst fyrir um það hvort markmiðið sé að útvíkka hlutverk stjórnarinnar sem hún er andvíg og fær það svar frá hæstv. þáverandi menntamálaráðherra að það sé alls ekki markmiðið. Hv. fyrrverandi þingmaður Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir einnig meðal annars, með leyfi forseta, í umræðum í þinginu í vor:

„Ein af ástæðunum líka fyrir [lagabreytingum sem urðu í Ríkisútvarpinu 2007] á sínum tíma var að klippa á það að stjórn og þá pólitískt vald væri með puttana í dagskrá og dagskrárvaldi Ríkisútvarpsins.“

Það var beinlínis markmið þeirra laga að klippa á pólitísk áhrif í stjórn Ríkisútvarpsins. Það var hnykkt á því með lögunum sem samþykkt voru í vor. Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort til standi að fara að breyta því og lýsir áhyggjum af því ef svo á að vera.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir gekk eiginlega lengra á þeim tíma. Hún vildi opna stjórn Ríkisútvarpsins frekar en lögin kváðu á um og lögin kveða á um að sé og sagði, með leyfi forseta, í ræðu sinni í þinginu um það mál:

„Og með tilliti til almannaöryggis og hugsanlegrar hættu hefði þá ekki verið lag að skoða í valnefnd reynslu manna af almannavörnum, af öryggismálum? Hefði ekki verið rétt að hafa einn slíkan fulltrúa í slíkri valnefnd en ekki eingöngu frá Bandalagi íslenskra listamanna, eins og ávallt er, sem hefur reynslu af nýjum miðlum og fjölmiðlum?“

Hv. fyrrverandi þingmaður og áður menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins tekur undir þau markmið sem þá voru í frumvarpinu og urðu að lögum um það hvernig eigi að skipa í stjórnina. Ekki bara það, hún reynir að útfæra þá hugmynd betur í þá átt sem hugmyndin á bak við tillöguna er, bæði frumvörpin og frá allsherjar- og menntamálanefnd á þeim tíma. Það er engin andstaða við markmiðið. Það er engin andstaða við þessa hugmynd. Mönnum líst vel á hana og eru til í að ganga lengra.

Í nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd í vor þegar fjallað er um frumvarpið um Ríkisútvarpið er fjallað ítarlega um einstaka þætti þess. Þar er stuttur kafli um stjórnina og segir þar, með leyfi forseta:

„Fjallað er um stjórn Ríkisútvarpsins í 9. gr. frumvarpsins. Fram kemur í 1. mgr. að stjórn Ríkisútvarpsins skuli skipuð sjö mönnum og jafnmörgum til vara. Það er álit meiri hlutans að jafnréttissjónarmið skuli gilda um Ríkisútvarpið eins og um aðrar stofnanir í eigu ríkisins. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi benda á 1. mgr. 15. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, en þar kemur fram að við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og skuli hlutur hvors kyns ekki vera minni en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa sé að ræða.“

Það er engin athugasemd gerð við það markmið frumvarpsins hvernig á að skipa stjórnina. Hvergi nokkurs staðar er minnst á það í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem allir þingmenn nefndarinnar stóðu að nema hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem skilaði séráliti.

Eins og ég nefndi áðan stóð hv. þm. Siv Friðleifsdóttir að þessu nefndaráliti og lýsti yfir ánægju með það og hvatti til að frumvarpið yrði samþykkt. Hún sagði að það væri búið að vinna vel að því, það hefði verið unnið vel að því í ráðuneytinu, það hefði verið unnið vel að því af hálfu ráðherra og það hefði fengið gríðarlega góða umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd. Hún hvatti til þess að það yrði samþykkt og hún stóð að því eins og reyndar fleiri.

Við 2. umr. um lagasetninguna í vor var sömuleiðis fjallað um stjórn Ríkisútvarpsins að litlu leyti en fyrst og fremst um pólitísk áhrif á stjórn Ríkisútvarpsins og hvernig því er stjórnað. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, sagði þá, með leyfi forseta:

„Það leiðir náttúrlega hugann að öðru máli sem er allt annað og er sú lenska hjá yfirvöldum núna, bæði hjá stjórnmálamönnum sem styðja ríkisstjórnina og eru í henni, að skipta sér af sjálfstæðum stofnunum,“ sem hv. þáverandi þingmaður kallaði lensku hjá stjórnvöldum. — „Ég er eðlilega með inngrip innanríkisráðherra í sjálfstæði ákæruvaldsins í huga.“ — Hún fer að ræða um ákveðið mál sem þá var í gangi í samfélaginu. — „Það mál sem og þetta undirstrikar að hversu mikið sem við stjórnmálamenn viljum skipta okkur af öllum sköpuðum hlutum er það okkar að móta reglurnar, setja rammann og síðan að sjá til þess að þar til bærar stofnanir, Ríkisútvarpið, ákæruvaldið eða hver sem það er hverju sinni, hafi burði og möguleika til að sinna því markmiði og því hlutverki sem þeim er skipað í stjórnsýslu okkar og stjórnskipan.

Þess vegna tel þá breytingu meiri hlutans mikilvæga að undirstrika, og skilja vel, athugasemdir sem komu meðal annars frá nefnd sem er að fara yfir fjölmiðla undir forustu Finns Becks. Engu að síður er mikilvægt að menn árétti að óumdeilt sé að Ríkisútvarpið hafi ritstjórnarlegt sjálfstæði.“

Hv. þingmaður fer yfir það hvernig stjórnin er skipuð hvað þetta varðar og gerir enga athugasemd við það heldur þvert á móti, hún frekar útvíkkar þetta og kallar fleiri aðila úr samfélaginu til stjórnar eins og ég fór yfir áðan.

Hv. þáverandi þingmaður fjallaði sömuleiðis áfram um pólitíska íhlutun í stjórn Ríkisútvarpsins, hvernig væri hægt að klippa á það og hvernig væri hægt að skipa stjórn útvarpsins með öðrum hætti en verið hefur og sagði þá meðal annars, með leyfi forseta:

„Það má kannski segja að það sé ákveðin þróun og það felst jákvæð þróun í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar,“ þ.e. hvernig á að skipa stjórnina. — „En ég hefði gjarnan viljað eiga þetta samtal áður en ráðherra lagði frumvarpið fram. […] Það þýðir meðal annars að breyta þarf hinum almennu lögum um opinber hlutafélög því að menn gerðu einfaldlega ekki ráð fyrir því að starfsmenn ríkisfyrirtækja ættu að hafa sjálfkrafa aðgang að stjórn Ríkisútvarpsins.“

Það er ekki verið að gera athugasemdir við að stjórnin sé skipuð með þeim hætti heldur spurt hvort gera þurfi einhverjar frekari breytingar á lögum til að svo gæti orðið.

„Það er sem betur fer líka búið að takmarka það í þessu máli. Þeir hafa málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt“ í stjórn Ríkisútvarpsins, bætir hv. þáverandi þingmaður við.

„Það er ekki hlutverk [Ríkisútvarpsins] að vera framlenging á pólitískum ráðherra, hver sem hann er hverju sinni […] Ég er ekki að segja að stjórnin eigi ekki að hafa einhverjar hugmyndirnar um hverjar stóru línurnar eru. Stjórn Ríkisútvarpsins á að hafa skoðun á því að efla og auka hlutdeild sjálfstæðra framleiðenda í dagskrá þess.“

Hæstv. fyrrverandi menntamálaráðherra tekur þannig ítrekað undir þá skoðun sem kemur fram í frumvarpinu og álit allsherjar- og menntamálanefndar um það hvernig eigi að skipa í stjórnina.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir segir í ræðu sinni, með leyfi forseta:

„Virðulegur forseti. Á þeirri mínútu sem ég á eftir vil ég sérstaklega árétta að ég tel mikilvægt að við klárum þetta mál í þinginu núna. Ég tel ómögulegt að láta það bíða til næsta kjörtímabils, það er fráleitt. Við eigum að klára þetta núna. Það er búið að vinna málið vel, þetta mun bæta rammann utan um RÚV, en mun líka stórbæta aðstæður annarra fjölmiðla.“

Svo mörg voru þau orð hjá stjórnarandstöðuþingmanninum þá, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur. Hæstv. núverandi ráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson, sem er sárt saknað í þingsalnum, fjallaði einnig um Ríkisútvarpið, reyndar á aðeins öðrum nótum og það kann að útskýra líka hvers vegna framsóknarmenn hafa nú snúist á sveif með sjálfstæðismönnum í því að stjórnmálavæða stjórn Ríkisútvarpsins. Sem þingmaður vill hann gjarnan skipta sér af því hvernig Ríkisútvarpið starfar. Það kom glögglega fram í máli hans. Eftirfarandi kom fram í ræðu hæstv. núverandi ráðherra Sigurðar Inga Jóhannssonar um starf Ríkisútvarpsins, hvernig Ríkisútvarpið starfaði og hvernig hann telur að það eigi að starfa, með leyfi forseta:

„Ég vil taka eitt lítið dæmi því það er mér mjög nærtækt. Fyrir kjördæmisþing okkar framsóknarmanna sem haldið var 12. janúar var tilkynning send til ríkisfjölmiðlanna um að til stæði að halda þing sem á bilinu 400–500 manns mundu sækja, til þess að raða á lista hjá stjórnmálaafli sem þá mældist næststerkast í því kjördæmi. Það mætti enginn frá Ríkisútvarpinu. Ekki nokkur maður.“

Þetta sagði hv. þingmaður og núverandi hæstv. ráðherra, þ.e. gagnrýni hans á Ríkisútvarpið var sú að enginn mætti á kjördæmisþing Framsóknarflokksins sem þá mældist býsna stór í skoðanakönnunum. Skoðanir sem þessar á almannaútvarpi og ríkisútvarpi hélt maður satt að segja að hefðu fallið fyrir borð fyrir löngu en þær eiga enn upp á pallborðið eins og ég hef vitnað til í ræðum manna og þær eiga enn upp á pallborðið í frumvarpi sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson flytur hér, frumvarpi sem dettur einhvern veginn af himnum ofan, frumvarpi sem enginn hefur kallað eftir og enginn beðið um. Það er enginn að reka á eftir þessu. Það er engin knýjandi þörf á því að skipa með pólitískum hætti í stjórn Ríkisútvarpsins. Hvaðan kemur sú þörf? Hvers vegna í ósköpunum gat hv. þingmaður ekki varast þau víti sem samráðherrar hans höfðu gert með allskuggalegum málflutningi sínum vikuna þar á undan og einfaldlega haft hljótt um sig þetta sumar og ekki komið með nokkur mál inn í þingið frekar en þetta?