142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja eins og er að þetta er líklega með ósmekklegri athugasemdum sem hafa komið í þinginu alllengi. Hér er lesinn upp nafnalisti stjórnar Ríkisútvarpsins og spurt: Er það þetta fólk, er þarna kannski komin ástæðan fyrir þessu frumvarpi?

Var þetta rætt á þessum nótum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins? Það er þetta fólk, það er þessi nafnalisti, þess vegna þurfum við að breyta lögum um stjórn Ríkisútvarpsins.

Þetta er algerlega makalaust innslag í umræður um ríkisútvarp í almannaþágu og hvernig á að skipa í stjórn þess. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir að innslag af þessari tegund, af þessu eðli skuli berast hingað upp í ræðustól af jafn vönduðum þingmanni og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins er, hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur.

Þetta snýst ekki um þessa einstaklinga, ekki af minni hálfu. Þetta snýst ekki um þetta fólk eða hvernig stjórnin var skipuð. Þetta snýst að mínu mati um pólitísk fingraför, pólitískar áherslur menntamálaráðherra. Það er ekki góð reynsla af því enn sem komið er. Hann hefur aðeins skipað eina stjórn hingað til, hún kemur öll úr innsta kjarna flokksins. Þetta snýst um það. Þetta snýst ekki um þá einstaklinga sem þarna eru, hvort þeir eru hæfir, hvort þeir ógna Ríkisútvarpinu eins og hér var gefið til kynna.

Ég frábið mér að þurfa að ræða málið á þessum nótum. Við skulum ræða um það á efnislegum nótum, um frumvarpið sjálft, hvert markmiðið með því er og til hvers á að skipa stjórn í Ríkisútvarpið og hvert hlutverk stjórnarinnar er en ekki um einstaklingana sem þar eru. Þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér í þessum sal.