142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:13]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Stjórn RÚV þekkja flestir. Í henni sitja þessir einstaklingar og þeir voru skipaðir. Það var ekki með nokkrum hætti af minni hálfu verið að vega að þessari stjórn. Ég hef akkúrat ekkert út á hana að setja, akkúrat ekki neitt. Ég held að hún hafi staðið sig ágætlega þann tíma sem hún hefur setið þannig að ég frábið mér það að ég sé með eitthvert sérstakt eðli í þá veru að varpa rýrð á störf þessa fólks. Ég er ekki að því. Ég tel að þarna inni sé fólk með ólíka þekkingu, ólíka hæfni og ólíka reynslu og hafi starfað vel.

Ég spurði vegna þess að hv. þingmaður sagði að sú breyting sem hæstv. menntamálaráðherra leggur til hér og nú ógni og geti verið ógn við sjálfstæði stofnunarinnar sökum pólitískra fingrafara. Þess vegna spurði ég hv. þingmann hvaða munur hann teldi að væri á þeirri skipan sem verið hefur undanfarið og var með þessari stjórn RÚV, sem ég ítreka að ég set ekki út á, tel að hún hafi starfað með prýði þau ár sem hún hefur verið, og þessari breytingu. Af hverju telur hv. þingmaður að það frumvarp sem hæstv. menntamálaráðherra leggur fram hér og nú ógni sjálfstæði stofnunarinnar sem slíkrar?