142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:15]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það ógni sjálfstæði stofnunarinnar þegar hún heyrir orðið beint undir menntamálaráðherra, þ.e. hvernig hún er skipuð, og fari undir hans borð, sama borð og þetta frumvarp dúkkaði upp á og enginn veit hvaðan kom. Þannig tel ég að vegið sé að sjálfstæði Ríkisútvarpsins.

Ég ætla bara að rifja það upp sem ég gerði hér áðan og margoft hefur komið fram í umræðunni og það er hvernig stjórn Ríkisútvarpsins er skipuð núna. Formaður er tilnefndur af ráðherra og stjórnarmaður, sem Starfsmannasamtök Ríkisútvarpsins kjósa úr sínum röðum, er með málfrelsi og tillögurétt. Aðrir stjórnarmenn skulu tilnefndir af valnefnd sem Bandalag íslenskra listamanna, samstarfsnefnd háskólastigsins og allsherjar- og menntamálanefnd þingsins tilnefna fulltrúa í. Farið er breitt yfir sviðið. Það er ekki pólitískur ráðherra sem skipar flokksmenn sína þangað inn eins og hæstv. núverandi mennta- og menningarmálaráðherra ætlar sér að gera.

Það sem ég gerði athugasemdir við í fyrra andsvari hv. þingmanns og þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins var að hún skyldi lesa hér upp nafnalista þeirra sem sitja nú í stjórn Ríkisútvarpsins og segja síðan: Það vita allir hvaða pólitísku skoðanir þetta fólk hefur. Það er þá þess vegna sem þetta er gert enda spurði ég áðan í svari við andsvari: Var þetta rætt á þessum nótum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, vegna þeirra einstaklinga sem nú sitja í stjórn Ríkisútvarpsins og allir vita hverra pólitísku skoðana eru? Það er þá búið að varpa nýju ljósi á þetta mál og hvernig það í ósköpunum datt ofan á borð hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra úr lausu lofti, eitt af hans fyrstu málum, og hvaðan það er þá komið.