142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[19:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég, eins og margir sem hafa rætt um þetta mál í dag, er mjög undrandi á að það skuli vera komið fram með þessum hætti á sumarþingi. Sumarþing notar ný ríkisstjórn yfirleitt til að setja fram helstu áherslumál sín sem hún telur að þoli enga bið, mál sem menn telja svo brýn að koma þurfi þeim strax í gegn. Þá hefði ég haldið að menn hefðu einbeitt sér að málum sem væru nær því sem þeir höfðu lagt til í kosningabaráttunni eins og málefnum heimilanna. Þeir hafa lagt fram þingsályktunartillögu sem er eins konar óskalisti. Eitt atriði af þeim tíu sem þar eru nefnd er hefur verið lagt fram sem þingmál, og það var sköruglega gert af hæstv. innanríkisráðherra, um flýtimeðferð dómsmála. Annað hefur ekki komið hér inn. En svo ákveða menn að nota þetta sumarþing til að drífa í gegn breytingu á lögum um Ríkisútvarpið til að koma því þannig fyrir að fara í sama gamla farið þar sem hlutfall stjórnmálaflokka á Alþingi réð samsetningu á stjórn Ríkisútvarpsins.

Ég er mjög undrandi á þessu máli og ég er líka undrandi vegna þess að Framsóknarflokkurinn stóð með fyrrverandi ríkisstjórn að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið og hann stóð með þeim breytingum sem hér er verið að taka til baka. Mig undrar mjög að menn skyldu þá líta svo á að þetta mál þyrfti sérstaka flýtimeðferð í gegnum þingið á sumarþingi sem iðulega er það stutt að venjulegir frestir til umsagna nást ekki.

Ég sakna þess að framsóknarmenn skuli ekki taka þátt í umræðunni til að segja okkur hinum sem unnum með þeim að breytingum á lögunum fyrir nokkrum mánuðum hvers vegna þeir telja núna að málið sé svo mikilvægt að það þoli enga bið og þurfi að fara í gegn á sumarþinginu.

Hæstv. forseti. Ég kalla eftir því að þau sjónarmið komi fram. Hvað breyttist og hvers vegna?

Virðulegi forseti. Í gegnum tíðina, í þau tíu ár sem ég hef setið á Alþingi, hefur umræðan um Ríkisútvarpið verið mikil, við höfum átt margar stundir í þessum sal þar sem við höfum rætt Ríkisútvarpið og þá kannski ekki síst þá stöðu sem stjórn þess hefur haft samkvæmt gildandi lögum hverju sinni. Fyrirkomulagið hefur nefnilega verið umdeilt mjög lengi, það fyrirkomulag sem var áður en fyrrverandi ríkisstjórn gerði þær breytingar sem núna er verið að taka til baka, að láta stjórnina endurspegla kjörna fulltrúa á Alþingi hverju sinni.

Breytingin nú er umdeild vegna þess að hún er ekki lýðræðisleg, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kom inn á á undan mér. Hún er ekki lýðræðisleg þegar við horfum til þess að Ríkisútvarpið eigi að vera sjálfstæð stofnun. Það er ekki þannig að eftir kosningar til Alþingis eigi bara að taka samfélagið og skipta því upp eftir hlutfallstölum og niðurstöðum alþingiskosninga. Það er ekki þannig. Það er ekki það sem beðið er um. Samfélagið kallar ekki á það. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var ekki kallað á að samfélagið væri þannig heldur var þvert á móti talað fyrir því og bent á að við þyrftum að fara nýjar leiðir til að tryggja sjálfstæði stofnana og fjölmiðla ekki síst.

Virðulegi forseti. Þess vegna er ég mjög undrandi á þessu. Frumvarpið sem hér er komið fram er mjög slæmt að mjög mörgu leyti vegna þess að breytingin sem gerð var með nýjum lögum í mars síðastliðnum fól í sér að farið var frá því fyrirkomulagi að hafa fimm manna stjórn, sem var í raun bara rekstrarstjórn, kom ekki nálægt neinu dagskrárvaldi, yfir í stærri stjórn þar sem inn kæmu ólík sjónarmið frá Bandalagi íslenskra listamanna, frá háskólasamfélaginu, frá ólíkum aðilum, líka Alþingi. Það var ekki verið að slíta nein tengsl þar á milli, kjörnir fulltrúar Alþingis áttu líka að koma að ákvörðunum um þetta. Farið var yfir í stærri stjórn sem hefði meira um stefnumörkun Ríkisútvarpsins að segja. Með öðrum orðum að hleypa almenningi og almannasamtökum betur í stjórnina auk þess sem langþráð markmið starfsmanna Ríkisútvarpsins náðist með því að þeir fengu mann í stjórn.

Frá þessu á núna að hverfa og ekki aðeins að fara til þess tíma sem var fyrir gildistöku laganna sem menn eru að gera breytingar á heldur enn lengra aftur. Menn ætla að skipa stjórn með þeim hætti að hún endurspegli hlutföll á Alþingi. Hún á ekki að vera einungis rekstrarstjórn eins og var heldur er hún líka komin í stefnumörkun dagskrár og annarra þátta innan Ríkisútvarpsins.

Virðulegi forseti. Hún hræðir mig, sú hugsun að þetta sé í lagi. Leiðangurinn sem var farið af stað í og þingmenn allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins studdu á síðasta þingi var sá að fara langan veg frá þessum vinnubrögðum og inn í nýja tíma þar sem stjórnvöld opnuðu faðminn, gæfu starfsmönnum, almannasamtökum og aðilum sem ella hefðu ekki haft neina aðkomu að starfsemi Ríkisútvarpsins, tækifæri til að koma þarna að til að tryggja fagmennsku. Það var það sem vakti fyrir fólki með breytingunum, öllum stjórnmálaflokkum nema Sjálfstæðisflokknum sem studdi ekki þá tillögu, en hann greiddi ekki atkvæði gegn þessu nema fjórir þingmenn hans, restin sat hjá. Það var meginstefna Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki hvert hæstv. ráðherra er að fara með þessu. Ég reyndi að hlusta vel eftir því hvað hann sagði í ræðu sinni þegar hann flutti þetta mál. Þá heyrðist mér þetta aðallega hafa verið þannig að hann hafi verið byrjaður að fá tilnefningar í valnefndina inn á sitt borð frá hinum faglegu aðilum utan þings og það hafi slegið um hann köldum svita yfir nöfnunum sem hann fékk. Ég heyrði ekki betur en að hann nefndi nafn Kolbrúnar Halldórsdóttur, fyrrv. alþingismanns, þó nokkrum sinnum í andsvörum eftir framsöguræðu sína. Ekki var annað að heyra en að það væri hugsanlega rótin að því að menn þyrftu að gera róttækar breytingar á fyrirkomulaginu.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki hugsunarháttur sem sæmir Alþingi. Þetta er ekki hugsunarháttur sem sæmir nútímanum. Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir fulltrúa í valnefnd og hvað gerist? Ráðherrann sér nafnið, fær hroll og gerir lagabreytingu. Er það það sem er í gangi hérna? Ég velti því fyrir mér út frá orðum hæstv. ráðherra og það vekur mér ugg. Mér finnst þetta sjónarmið líka kristallast í ummælum þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur áðan í andsvörum við hv. þm. Björn Val Gíslason; menn eru að taka með þeim hætti nöfn inn í umræðuna.

Nöfnin sem hæstv. ráðherra nefndi síðan og sú stjórn sem þar var skipuð, ég veit ekki betur en að þau hafi verið valin með gömlu aðferðinni sem menn ætluðu ekki að beita aftur. Við vorum að fara í allt aðra átt en það á ekki einu sinni að leyfa lögunum að sanna gildi sitt, ekki einu sinni að prófa í eitt skipti, láta reyna á nýja fyrirkomulagið. Nei, þetta er neyðarástand og við þurfum að koma með frumvarp til laga inn á Alþingi strax til að gera á þessu breytingar og það má alls ekki gerast að starfsmenn, hvað þá einhverjir fagmenn úti í bæ, séu að skipta sér af Ríkisútvarpinu. Það er viðhorfið á bak við þetta. Það er að mínu mati afar sorglegt viðhorf.

Hér er verið að draga gamla tímann aftur upp á dekk þar sem menn vilja hafa stjórn á öllu. Síðustu fjögur ár hafa verið Sjálfstæðisflokknum erfið, ég veit það, við vitum það öll. Þeim hefur þótt óþægilegt að hér hafa menn verið að gera breytingar sem eru að mínu mati til lýðræðislegra umbóta í íslensku samfélagi. Það hefur mönnum þótt óþægilegt. Gamli tíminn var miklu þægilegri þar sem Flokkurinn með stóru F-i réði þessu. Nýtt fyrirkomulag þar sem leyfa á fólki og aðilum utan húss að koma að og hafa eitthvað um opinberar stofnanir að segja er líklega erfitt fyrir flokka sem eru kannski — ja, hvað skulum við segja, reknir af meira stjórnlyndi en af frjálslyndi vinstri vængsins.

Það má ekki vera þannig að við látum stjórnast eða taka ákvarðanir út frá því sem við teljum vonda fólkið og góða fólkið eftir því hvar menn standa í pólitík. Umræðan um málið þegar það var lagt fram endurspeglaði þann hugsunarhátt.

Virðulegi forseti. Ég segi enn og aftur: Ég er mjög á móti þessari breytingu. Ég er gríðarlega á móti henni vegna þess að með henni förum við mörg, mörg ár aftur í tímann. Það er búið að gera tvær breytingar síðan þetta fyrirkomulag var við lýði. Tvær breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins og þá ætla menn að fara aftur til síðustu aldar og fyrirkomulagsins þá. Það getur ekki boðað gæfu fyrir þessa mikilvægu stofnun fjórða valdsins að gera þetta svona.

Ég segi því, virðulegi forseti, að gegn þessari breytingu mun ég berjast af öllu afli en ég vil líka segja að ég er mjög undrandi á því hvers vegna þessi eini þáttur í lögunum var tekinn út og breytingar á honum lagðar fram með þessum hætti. Þessi eini liður. Breytingin á honum er algjörlega á skjön við markmið og markmiðsgreinar laganna sjálfra.

Það eru strax komnar mótsagnir ef frumvarpið verður að lögum vegna þess að þá er ekki hægt að halda því fram að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, eins og fjallað er um í 2. gr. laganna. Þá erum við sömuleiðis komin aftur á þann stað sem við ætluðum að fara frá, þar sem Ríkisútvarpið er tortryggt. Við viljum ekki fara aftur til þess tíma þegar menn tortryggja opinbera fjölmiðilinn. Við eigum öll að treysta honum. Þjóðin á að treysta opinberum fjölmiðli okkar. Þegar við tökum aftur upp fyrirkomulag síðustu aldar hverfum við frá því að byggja upp traust á fjölmiðlinum. Markmiðið með lagabreytingunni á síðasta þingi var einmitt að byggja aftur upp traust á Ríkisútvarpinu og tryggja að þjóðin treysti því sem þaðan kæmi, allir stjórnmálaflokkar sætu við sama borð og ákveðið jafnræði ríkti.

Virðulegi forseti. Frá þessu á að hverfa og fara ekki bara aftur til fyrirkomulagsins sem var tekið úr gildi með nýju lögunum heldur enn lengra aftur þar sem enn meira stjórnlyndi og enn meiri pólitík réði för. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég get ekki annað en nefnt það líka, verandi í ræðustól þar sem ég hef farið yfir hversu undrandi ég er á því að þetta sé málið sem menn ákveða að leggja fram á sumarþingi sem sé svo brýnt að það megi ekki bíða og ekki megi leyfa nýju fyrirkomulagi að taka gildi, að það er mjög margt á þeim málalistum sem ríkisstjórnin hefur lagt fram sem kemur mér á óvart. Þeir hafa lofað öllu fögru til heimilanna í landinu en leggja síðan mesta áherslu á að fara aftur til síðustu aldar með stjórn Ríkisútvarpsins, stjórnmálavæða Ríkisútvarpið, eins og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson kallaði það áðan og mér fannst ágætlega orðað, og síðan að helminga veiðigjöld.

Þetta eru aðaláherslumál ríkisstjórnarinnar. Þetta eru málin sem eru svo brýn að leggja þarf nótt við nýtan dag til að koma þeim í gegn á sumarþingi án þess að þau fái einu sinni almennilega umfjöllun heldur á að keyra þau hratt í gegn. Áherslan sem lögð er á þessi tvö mál segir okkur mjög mikið. Hún segir okkur mikið um þá ríkisstjórn sem núna er tekin við. Ríkisstjórn stjórnlyndis og ríkisstjórn þjónkunar við sérhagsmuni.

Virðulegi forseti. Ég tel þess vegna að þetta frumvarp eigi að bíða, ekki eigi að keyra það í gegn á þessum hraða, alls ekki. Það verður að geyma frumvarpið og fara betur yfir það ef menn hafa eitthvað út á fyrirkomulagið að setja. Er ekki eðlilegra að fá einhverja reynslu á nýja fyrirkomulagið fyrst, þannig að hægt sé að dæma það út frá því? Það er ekki hægt vegna þess að engin reynsla er komin á það að leyfa starfsmönnum að eiga fulltrúa í stjórn, sem þeir hafa kallað eftir lengi, og óska eftir því að háskólasamfélagið og listamenn í landinu, Bandalag íslenskra listamanna, komi líka að vali á fulltrúum.

Það hefur ekkert reynt á þetta og að kalla það fyrirkomulag andlýðræðislegt eins og nánast er gert hér í greinargerð með frumvarpinu — það er ekki sagt beinum orðum en gefið í skyn — er sjónarmið sem ég get alls ekki fallist á. Þó að kosið sé til Alþingis er þjóðin ekki að kjósa hlutfallslega skiptingu á öllum stofnunum í samfélaginu. En Sjálfstæðisflokkurinn ætlar núna að sýna að hann er kominn aftur og nú á að byrja að endurstilla samfélagið að nýju. Endurstilla samfélagið eins og það var og eins og þeim finnst að það eigi að vera. Þetta frumvarp ber þess öll merki og röksemdirnar í greinargerð með því.

Ég er ósammála þeim rökum. Við stjórnmálamenn erum kosin á Alþingi en við eigum líka að bera ákveðið skynbragð á það hvernig best er að setja lög, lög þar sem almenningi og öðrum stofnunum utan þings er líka treyst til verka. Það er gert í núgildandi lögum um Ríkisútvarpið. Í þeim köllum við eftir sjónarmiðum háskólasamfélagsins, sjónarmiðum starfsmanna og listamanna í landinu. Það er líka verkefni okkar sem kjörin eru til Alþingis en ekki bara að segja: Nú er þessi flokkur með 24% og þessi með 26% og nú á samfélagið að taka mið af því að öllu leyti.

Auðvitað ekki. Við eigum að setja lög og við eigum að kalla fólk til verka og það var gert með lagasetningunni sem menn ætla núna að taka úr sambandi. Það eru margar spurningar í þessu máli sem ég vil fá svör við og þá kannski ekki síst frá framsóknarmönnum. Hvað breyttist, af hverju er þetta neyðarmál, af hverju er þetta tekið fram yfir hag heimilanna og kosningaloforð um málefni heimilanna? Af hverju? Hvað hefur breyst frá því að framsóknarmenn tóku þátt í þeirri vinnu sem skilaði okkur þessum lögum og ákvæði um skipun stjórnar sem menn ætla nú að kippa úr sambandi?

Mér finnst það vera stóra spurningin. Rökin fyrir því af hverju ekki er komið inn á þing með málin tíu á þingsályktunartillögunni um málefni heimilanna eru þau að menn verði að vanda til verka, eitthvað geti orkað tvímælis eða ekki staðist stjórnarskipunarlög eða annað slíkt. Samt geta menn komið með svona mál sem er algjört afturhvarf til síðustu aldar og flókin mál eins og helmingun á veiðigjöldum þar sem menn eru ekki aðeins að afsala ríkinu tekjum upp á 6,5 milljarða á ári heldur eru líka að breyta flóknum útfærslum. Það er ekkert mál, þá þarf ekki að velta fyrir sér stjórnarskipunarlögum eða tíma eða umsagnarfresti eða neinu slíku þegar kemur að aðalmálunum.

Það æpir á mann hver forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er. Ég get ekki annað sagt en að mér mislíkar hún. Mér finnst þetta mál sem við ræðum hér bera öll merki stjórnlyndis sem ég sjálf aðhyllist ekki í pólitík. Við eigum frekar að vera á þeim stað þar sem við opnum samfélag okkar. Við eigum að kalla eftir lýðræðislegri umræðu, við eigum að vera óhrædd við að taka hana. Við eigum að vera óhrædd við að skjóta málum til þjóðarinnar í auknum mæli, kalla eftir sjónarmiðum ólíkra aðila sem hafa bundist samtökum með skipulögðum hætti í samfélagi okkar og kalla eftir sjónarmiðum þeirra við t.d. stjórn stofnana og stjórn samfélagsins. Samfélagið er ekki bara stjórnmálaflokkar þó að til Alþingis sé kosið og þar fáist ákveðin hlutfallsleg niðurstaða. Mér finnst að öllu leyti óeðlilegt að sú hlutfallstala sé tekin og menn ætli núna að yfirfæra hana meira eða minna yfir á samfélagið. Það er bara ekki rétt hugsun.

Virðulegi forseti. Ég læt hér staðar numið og segi enn og aftur: Ég er afar undrandi á þessu, ég er afar ósátt og ég ætla að skora á hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að draga í land með þetta mál, bíða með það. Hann getur þá komið með frumvarpið aftur í haust þannig að það fái eðlilega umræðu en komi ekki inn í einhverja flýtimeðferð á sumarþingi.