142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ekki eru margir dagar frá því að valið var í þingnefndir og umræður urðu um kynjaskiptingu hér í þingsal og annars staðar; og ekki að ástæðulausu því að við leyfum því skammarlega að gerast aftur og aftur að á annað kynið hallar í þingnefndum. Af hverju voru kynjahlutföll í alþjóðanefndunum ekki lagfærð og leiðrétt um leið og kynjahlutföll í öðrum nefndum voru leiðrétt?

Alþingi Íslendinga sendi þrjá karla á sumarþing Evrópuráðsins og það er klárt brot á reglum um kynjakvóta. Þetta er litið alvarlegum augum enda eiga kynjahlutföllin samkvæmt reglum Evrópuráðsins að endurspegla hlutfall þeirra í þjóðþingunum eða í versta falli að ein kona sé með í för. Á morgun verður úrskurðað um það hvort íslenska sendinefndin verði send heim með skottið á milli lappanna vegna brota á reglum ráðsins.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag er fjallað um þetta mál undir yfirskriftinni „Kvenmannslausir karlar ávíttir“. Er nema von að leiðarahöfundur spyrji hverju það sæti að Íslendingar hunsi reglur Evrópuráðsins, eða eins og fram kemur í leiðaranum, með leyfi forseta:

„Skilaboðin sem svona klúður sendir umheiminum eru nefnilega eingöngu þau að Íslendingar séu dónar sem kunna sig ekki og láta sig engu varða hvaða reglur gilda í þeim fjölþjóðlegu samtökum sem þeir þó enn þá eru meðlimir í.“

Tökum nú höndum saman og finnum leiðir til að koma í veg fyrir svona klúður. Stjórnarflokkarnir hafa afl til að skipa bæði karl og konu í þingnefndir og þeir ættu að hafa með sér samráð um kynjaskiptingu í alþjóðanefndum með færri fulltrúum. Getum við ekki sameiginlega fundið einhverja slíka ferla til að koma í veg fyrir að við verðum okkur til skammar?