142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er afar mikilvægt að mínu viti að öll störf þingsins séu hafin yfir vafa. Leiki einhver vafi á um persónulega hagsmuni beri að taka á þeim málum af hálfu þingsins ef þingmenn sjálfir finna það ekki hjá sér.

Atvinnuveganefnd hefur til umfjöllunar afar stórt og mikið mál þessa dagana, þ.e. lækkun veiðigjalds þar sem hagsmunir bæði ríkisins og fyrirtækja í sjávarútvegi hlaupa á milljörðum sem og einstaklinga í sjávarútvegi. Af þessum ástæðum lagði ég fram eftirfarandi bókun á fundi atvinnuveganefndar í morgun, með leyfi forseta:

„Í ljósi persónulegra hagsmuna nefndarmanna í atvinnuveganefnd við afgreiðslu frumvarps um breytingu á lögum um veiðigjöld vil ég að eftirfarandi komi fram:

Ég tel ekki fara vel á því að þingmenn sem hafa ríka persónulega hagsmuni af málum sem þingið hefur til umfjöllunar taki þátt í umræðum og afgreiðslu um þau mál í nefndum þingsins. Með því er sáð efasemdum um hagsmunaárekstra viðkomandi þingmanna sem varpað geta rýrð á störf nefnda og þingsins við vinnslu og afgreiðslu mála. Auðveldlega má komast hjá slíku með því að nefndarmenn víki sæti við umfjöllun og afgreiðslu mála sem þeim tengjast.“

Ég mun senda forseta Alþingis erindi í kjölfar þessarar bókunar og óska eftir því að hann taki þetta mál til umfjöllunar með það í huga að bregðast við með hagsmuni Alþingis í huga. Ég vil árétta að ekki er um ásökun að ræða eða það að eitthvað hafi komið upp í því heldur árétting á að slíkar grunsemdir vakni ekki vegna augljósra persónulegra hagsmuna líkt og er í þessu máli í atvinnuveganefnd.