142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er sorglegt að hér skuli koma inn varaþingmenn sem voru þingmenn á síðasta þingi og halda uppteknum hætti hvað varðar vinnubrögð og munnsöfnuð eins og þegar þeir voru kjörnir þingmenn, en voru kosnir út 27. apríl sl. Ég harma þetta og ætla ekki að svara frekar aðdróttunum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar í garð eins þingmanns Framsóknarflokksins því að þær eru einfaldlega ekki svara verðar.

Ég ætlaði að koma hingað upp og ræða stöðu IPA-styrkjanna. Nú er verið að fara af stað með mikla umræðu um að hér sé allt komið í biðstöðu vegna þess að nýkjörin ríkisstjórn Íslands, þjóðkjörin í síðustu alþingiskosningum, hefur lagt umsóknina til hliðar. Það á ekki að halda áfram viðræðuferli, það er klárt og hæstv. utanríkisráðherra hefur tilkynnt ráðamönnum í Brussel það.

Þá komum við að þeirri hlið sem snýr að svokölluðum IPA-styrkjum. Sú sem hér stendur varaði við því allt síðasta kjörtímabil eða allt frá því að umsóknin var lögð inn að við Íslendingar ættum ekki að taka við þeim styrkjum vegna þess að óljóst væri hver vilji landsmanna væri í ESB-ferlinu. Nú hefur komið í ljós hver staða ESB-málsins er. Sá flokkur sem barðist fyrir ESB-aðild fékk rétt tæp 13% í síðustu kosningum. Á móti var Samfylkingin búin að skapa miklar væntingar í opinberum stofnunum vegna þessa fjár sem ríkisstjórnin var farin að taka við eða ætlaði að taka við í formi IPA-styrkja. Svo var þeim brögðum beitt að segja að nú væri ferlið komið svo langt og svo miklir fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi að ekki væri hægt að hætta við ferlið.

Það er kominn tími til að stjórnarandstaðan átti sig á því að hér fóru fram alþingiskosningar 27. apríl sl. Ný stjórnvöld hafa tekið við og (Forseti hringir.) sett ESB-umsóknina á frost. Þar með hlýtur að eiga að endurskoða IPA-styrkina sem áttu að veita (Forseti hringir.) Íslandi brautargengi inn í Evrópusambandið.