142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hún var í tveimur liðum ef ég skildi rétt. Það var í fyrsta lagi um vafa á lögmæti núgildandi verðtryggðra lána — er það gott? Hv. þingmaður spyr síðan hvort ég sé sammála því að ríkisstjórnin sé að auka á óvissuna og auka á ólögmætið. (Gripið fram í.)

Að sjálfsögðu er stefna ríkisstjórnarinnar að vinna þetta með vönduðum hætti. Tillagan er sú að settur verði í gang sérfræðingahópur til að skoða alla anga málsins og útfæra afnám verðtryggingar á neytendalánum sem ætluð eru til íbúðakaupa og að tillögur og tímasett áætlun liggi fyrir í árslok 2013. Það er hópsins að meta áhrif af þeim breytingum í víðum skilningi og gera tillögur til að lágmarka neikvæð áhrif.

Það er kannski ekki mitt að tala fyrir hönd nefndarinnar í þessu heldur get ég bara lýst persónulegri skoðun minni. Ég held að það væri mjög heillavænlegt að lántakendur íhugi að gæta sín á verðtryggðum lánum og lánastofnanir ættu virkilega að íhuga það vegna þess að enn ríkir vafi á lögmæti þessara lána. Það er einhver vafi þar. Þá er hugsanlega vissara, ég tek undir það með þingmanninum, að taka ekki of mikið af þeim, að leggja minni áherslu á þau. En mér skilst reyndar að þess sé þegar farið að gæta að fólk taki síður verðtryggðu lánin.