142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Mig langaði að taka til máls um málefni sjómanna. Nú höfum við í þessum ræðustól gert heila stétt að glæpamönnum og hefur það verið stundað hér síðustu ár. Þetta finnst mér ekki vera bjóðandi stétt sem hefur byggt þetta land svo lengi sem við munum. Það er mjög mikilvægt að þessi umræða taki aðeins málefnalegri vinkil og að við berum virðingu fyrir þessari stétt.

Mjög margt fólk í þessu landi, um allar dreifðar byggðir, á mjög mikið undir því að sjávarútvegurinn gangi vel. Við tökum þessa einu stétt og ræðum hana sérstaklega, í umræðu um auðlindagjöldin, og gerum hana tortryggilega, að mínu mati. Þetta finnst mér ekki rétt.

Það eru margar aðrar auðlindir sem við erum að nýta. Ef við tökum heita vatnið sem dæmi fá margir notið heita vatnsins á lágu gjaldi en svo hafa aðrar byggðir ekkert heitt vatn. Það er svona dæmi sem hægt er að taka heildstætt um þetta. Ég kalla eftir því að horft sé til þess hvað þeir sem starfa í sjávarútvegi hafa gert mikið fyrir þetta land og að það sé virt við þá. Einu sinni var sjávarútvegurinn allur rekinn með tapi. Nú er farið að reka hann með hagnaði sem er gott. En á það að vera ávísun á að ráðist sé á þá sem atvinnugreinina stunda? Við þurfum að taka þetta svolítið skynsamlega og taka þessa auðlindaumræðu alla í heild sinni með virðingu fyrir þeim sem í þessu vinna. Þeir eiga ekki að þurfa að búa við óstöðugleika og ávirðingar.