142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í gær kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, að hann hefði greitt 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð án heimilda enda hefðu ekki legið fyrir heimildir í fjárlögum eða fjáraukalögum og nauðsyn borið til.

Nú stendur í 41. gr. stjórnarskrárinnar, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Þarna voru greiddir 33 milljarðar — það er svona helmingurinn af nýju háskólasjúkrahúsi — á einu bretti án heimildar í fjárlögum eða fjáraukalögum.

Nú er tiltölulega auðvelt að leggja fyrir Alþingi fjáraukalög. Það má gera mörgum sinnum á ári þó að það hafi verið venjan að gera það einu sinni á ári. Það ætti í raun að gera það í hvert skipti sem tilefni er til. Í hvert skipti sem tilefni er til, út af kjarasamningum og öðru slíku, ætti að leggja fram ný fjáraukalög til að það liggi fyrir að skuldbindingin sé heimil og að heimilt sé að greiða hana. Þarna hefðu menn til dæmis getað lagt fyrir Alþingi fjáraukalög upp á 33 milljarða inn í Íbúðalánasjóð og þá væri málið á hreinu.

Af hverju er ég að tala um þetta? Þetta er mjög mikilvægt. Á þremur árum, 2009, 2010 og 2011, fór ríkissjóður 101 milljarð fram úr heimildum. Hann greiddi 101 milljarði meira en heimild var til; og svo segja menn að fjárlögin séu góð. Það er enginn vandi að sýna góða stöðu á fjárlögum ef ekki er meiningin að fara eftir þeim.

Það er mjög mikilvægt að þetta sé haldið og ég skora á hv. þingmenn og hæstv. ríkisstjórn að sýna aga í fjármálum, sýna aga sem því miður vantar mjög víða. Vil ég þá benda á æpandi dæmi í Suður-Evrópu, í Grikklandi og víðar, þar sem menn hafa ekki sýnt raunverulega stöðu.