142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Þann 21. júní síðastliðinn var málþing um samgöngumál á Vestfjörðum. Á málþinginu var fjallað um áherslur Vestfirðinga í samgöngumálum. Það er því miður staðreynd að þéttbýlisstaðir á Vestfjörðum eru ekki enn komnir í heilsársvegasamband, hvorki á milli helstu staða né með öruggum tengingum inn á aðalþjóðvegakerfið. Nokkrir hv. þingmenn sóttu málþingið og er sú sem hér stendur ein þeirra. Auk þess sótti hæstv. innanríkisráðherra málþingið.

Á málþinginu upplýsti hæstv. innanríkisráðherra að hún hefði heimilað vegamálastjóra að setja vegagerð um Teigsskóg í nýtt umhverfismat. Um er að ræða svokallaða B-1 leið um Vestfjarðaveg nr. 60, en þessi leið er bæði skynsamleg og mjög hagkvæm. Ég er ánægð með ákvörðun hæstv. innanríkisráðherra og ég vona að hægt sé að fara með veginn þessa leið því að það væri mikil samgöngubót fyrir íbúa Vesturbyggðar og nágrennis og er grundvöllur þess að svæðið sé samkeppnishæft hvað varðar búsetu og rekstur fyrirtækja.

Með því að fara í þessa framkvæmd og leggja láglendisveg í gegnum Teigsskóg náum við að aflétta ferðabanni sem ríkt hefur á svæðinu um nokkurt skeið, en á laugardögum hefur ríkt ferðabann í Vesturbyggð sem þýðir að enginn mokstur hefur verið á leiðinni á laugardögum, engar flugsamgöngur hafa verið á laugardögum og Baldur hefur ekki siglt á laugardögum. Það ástand er því miður á fleiri stöðum á Vestfjörðum og má þar m.a. nefna veginn í Árneshrepp norður á Ströndum, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði. Vestfirðingar hafa setið á hakanum í samgöngumálum og nú er komið að því að bæta úr því og því ber að fagna.