142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals, um skort á heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum um framlag í Íbúðalánasjóð, vil ég taka fram að ég tel að þingmaðurinn muni þetta ekki rétt. Á fjáraukalögum 2010 var samþykkt 33 milljarða framlag til Íbúðalánasjóðs og það man ég vel því að forsendan fyrir því að ég gæti samþykkt það var sú að þingsályktunartillaga mín, um rannsókn á Íbúðalánasjóði, yrði samþykkt samhliða. Það var og gert og nú eigum við von á niðurstöðum úr þeirri rannsókn sem er ekki óþarft þar sem þessi sjóður mun kosta landsmenn, og klúðrið sem þar fór fram, tugi milljarða; og ekki er allt komið fram í þeim efnum.

Ég þakka hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar, kærlega fyrir svörin. Ég er sammála honum um það að tillögurnar eru nokkuð opnar og ákvörðunum um skipan lánamála hefur verið vísað fram á næsta þing. Ég fagna því þess vegna að hann vilji gefa skýrari skilaboð og telji óheppilegt að haldið sé áfram veitingu óverðtryggðra lána. Ég tel rétt að formaður efnahags- og viðskiptanefndar kalli lánastofnanir á fund nefndarinnar og fari yfir þessi sjónarmið því að eyða þarf óvissu á íslenskum lánamarkaði, hún er öllum til óþurftar, ekki síst íslenskum heimilum.