142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:23]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Bygging nýs Landspítala er grundvallaratriði til að tryggja öryggi sjúklinga og bæta aðbúnað þeirra en ekki síður til að skapa betri vinnuskilyrði fyrir það fjölmarga starfsfólk sem vinnur á Landspítalanum. Þetta er öryggismál fyrir landið allt, Landspítalinn er þjóðarsjúkrahús, Landspítalinn er hjartað í heilbrigðiskerfinu.

Yfirlæknirinn á Egilsstöðum, Stefán Þórarinsson, hefur lýst þeim skoðunum sínum, að sterkur Landspítali sé grundvöllurinn fyrir heilbrigðisþjónustu um allt land, hvort sem við erum að tala um FSA, aðra stóra heilbrigðisstofnun eins og heilbrigðisstofnunina í Vestmannaeyjum eða litlar heilsugæslur vítt og breitt um landið sem og borgina.

Við höfum fengið reykinn af réttunum fyrir það sem í vændum er. Skapast hefur vandamál á Landspítalanum því að hjúkrunarheimilispláss skortir fyrir það gamla fólk sem lokið hefur meðferð þar. Þetta var alvarlegur vandi í byrjun ársins og fyrrverandi ráðherra — og núverandi hæstv. ráðherra líka, geri ég ráð fyrir — leggja allt kapp á að leysa þetta. En þetta er bara byrjunin á þeirri sprengingu sem verður þegar stóru árgangarnir fara að eldast og munu — kannski í minna mæli vegna bættrar heilsu, sem er mjög ánægjulegt — þurfa á hjúkrunarheimilum að halda, en munu þurfa á aukinni þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda, ekki síst í formi aðgerða sem tengjast krabbameini og hjartasjúkdómum.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þessa umræðu og inna hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra eftir því hvort hann telji það ekki óábyrgt ef við förum ekki að bregðast við því sem fram undan er í breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.