142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

bygging nýs Landspítala.

[14:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka þessa umræðu.

Ríkisstjórnarinnar bíður mikið verkefni og mikinn kjark og þor þarf nú um mundir til að taka þær ákvarðanir sem þarf að taka í íslensku samfélagi til að snúa við ýmsum málum. Það verkefni sem rætt er um nú er til dæmis eitt af því. Farið var af stað með þetta verkefni löngu fyrir hrun og málinu haldið áfram en enginn lokapunktur er sjáanlegur. Við sjáum hvað verkið er búið að taka langan tíma.

Hæstv. heilbrigðisráðherra fór vel yfir það að biðstaða er komin í málið allt til loka maí 2014. Það er því nægur tími til að hugsa um áframhald þessarar byggingar, hvort farið verður í hana strax, seinna eða langtum seinna.

Mig langar því, virðulegi forseti, að rifja upp kosningabaráttu Framsóknarflokksins í heilbrigðismálum. Þar lögðum við áherslu á að 12–13 milljarða þarf strax inn í rekstur Landspítalans og yfirbyggingu hans. Kaupa þarf ný tæki, virðulegi forseti, því það er brýnt mál. Byggja þarf undir nýju tækin, kaupa þarf ný lyf og gera þarf vel við starfsfólkið sem þar starfar. Þessi greining liggur alveg klár fyrir. Þetta settum við framsóknarmenn fram sem forgangsmál í kosningunum.

Ég fagna því þeirri umræðu sem hæstv. heilbrigðisráðherra kynnir hér, þ.e. hverjir áherslupunktar ríkisstjórnarinnar eru í málefnum Landspítalans, því að eins og stjórnarandstaðan leggur það upp í dag er umræðan annaðhvort svört eða hvít, nýr Landspítali eða enginn Landspítali. Leið framsóknarmanna er miðjuleið, að fara meðalveginn. Framsóknarmenn skilja það sem þarf að fara í, og sérstaklega þó þetta með tækjakaupin, því að það læknar enginn neinn (Forseti hringir.) með steypu.