142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að draga úr flækjustiginu og draga þessa skattlagningu til baka. Við gagnrýndum það mikið, þáverandi stjórnarandstaða, þegar ríkisstjórnin ákvað að setja stefnumótun um skattlagningu á ferðaþjónustuna á í fjárlagafrumvarpinu án samráðs við greinina sem búin var að selja afurð sína ár fram í tímann. Svona á maður ekki að vinna að stefnumótun, svona á maður ekki að vinna að breytingum í skattkerfinu og þess vegna fagna ég því mjög að þetta sé dregið til baka.

Það er mikið talað hér um tekjutap af þessu. Ég leyfi mér að efast um að það flækjustig sem enn eitt skattþrepið, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal fór vel yfir hér áðan, hefði í raun skilað sér í auknum tekjum, ég held að allar slíkar áætlanir séu gróflega ofáætlaðar og að á endanum muni einfalt og gagnsætt skattkerfi skila meiri tekjum inn í ríkissjóð.