142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (val stjórnarmanna). Þetta mál hefur á sér tiltölulega sakleysislegt yfirbragð, frumvarpið er þannig að það er varla að taki því að prenta það, það er svo stutt og lítið. Einhverjum kynni að detta í hug að það gengi bara í gegnum þingið án þess að nokkur tæki eftir því.

Sem betur fer er stjórnarandstaðan hér svo vakandi að hæstv. forsætisráðherra sér ástæðu til að vera með kveinstafi í heilli grein í Morgunblaðinu í dag þar sem hann ber sig illa undan henni. Það hefur ekki alltaf þótt vera góður máti þeirra sem fara fyrir liði að vera mjög kvartsárir en þetta er kannski eitthvað þjóðmenningarlegt, ég átta mig ekki alveg á því.

Þessi umræða snýst um það hvernig við veljum stjórnarmenn og þessi sakleysislega breyting snýst einfaldlega um að herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu. Eftir að hafa farið í gegnum umræðuna, sem hefur verið allnokkur, standa nokkur atriði upp úr.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða algerlega samráðslaust mál. Hér fer veruleg breyting á lögum sem voru samþykkt fyrir örfáum vikum, tilbúin, án samráðs við nokkurn mann, og hefur á sér hefðbundið valdapólitískt yfirbragð Sjálfstæðisflokksins eins og hann gerist verstur. Það sem er raunalegast við það er að Framsóknarflokkurinn, félagsskapurinn í ríkisstjórn, er líka í gamalkunnugum stellingum, þ.e. hann styður málið gagnrýnislaust, algerlega gagnrýnislaust.

Eftir því er tekið að enginn framsóknarmaður hefur talað í þessu máli. Eftir því er tekið að Framsóknarflokkurinn sér ekki ástæðu til að gera kjósendum sínum þann greiða að gera grein fyrir 180 gráðu viðsnúningi í málinu. Hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem voru í stórum stíl sammála þessu máli fyrir örfáum vikum, hafa skipt um skoðun. Það er ekki endilega partur af samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, það kemur ekki fram í pappírnum sem var kynntur á Laugarvatni að þetta væri eitt af forgangsverkefnunum. Einhvers staðar er þetta í óskrifuðum textum, einhverjum handaböndum, eða kannski er það einfaldlega þannig að Framsóknarflokkurinn er aftur kominn heim í faðm Sjálfstæðisflokksins. Þá er sá háttur hafður á að menn spyrja ekki spurninga heldur samþykkja.

Látum það vera ef það væri þannig að Framsóknarflokkurinn hefði farið í gegnum rökræðu um málið og væri reiðubúinn að gera kjósendum sínum, og þingheimi jafnvel, grein fyrir viðsnúningnum, að við heyrðum hér í einhverjum nefndarmönnum úr allsherjar- og menntamálanefnd eða formanni þingflokksins, ég tala nú ekki um hæstv. ráðherrum, Gunnari Braga Sveinssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni, sem báðir voru með málinu fyrir nokkrum vikum. Nei, enginn af þessum þingmönnum er til viðræðu þegar verið er að ræða þessi mál.

Nú er einn hv. þingmaður Framsóknarflokksins í salnum og það er spurning hvort hann treystir sér til að gera grein fyrir þessum viðsnúningi. Eða kannski hefur hann ekki skipt um skoðun. Það kemur þá í ljós og verður þá (Gripið fram í: Þeir eru tveir.) — og tveir — áhugavert að sjá hvort sá þingmaður sem var hér í vor hefur skipt um skoðun og hvort hann er þá reiðubúinn að gera grein fyrir þeim viðsnúningi á skoðunum sínum.

Þegar maður fer yfir þingsöguna þá hefur ákveðin tegund af málum, ef svo má segja, verið til umræðu þegar við göngum til sumarþings að afloknum kosningum. Það eru oft mál sem eru háð dagsetningum, mál sem þarf að afgreiða vegna þess að einhver dagsetningarpressa er á þeim. Það eru mál sem má telja kosningaloforð, eitthvað sem ríkisstjórnarflokkarnir telja að þeir þurfi að klára gagnvart umbjóðendum sínum og kjósendum. En ég sé ekki undir hvaða tegund af mikilvægum málum þetta tiltekna mál fellur. Það er mjög sérkennilegt og vekur mann til umhugsunar að koma með mál af þessu tagi til sumarþings sem er að jafnaði þing þar sem liggur á málum af ýmsum ástæðum.

Ég spyr: Hver bað um þetta mál? Hver vildi þetta mál? Hvaðan kom óskin um þetta mál? Var það landsfundur Sjálfstæðisflokksins? Var það einhver stofnun flokksins? Eða hver vildi þetta mál? Hvað veldur því að hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem er nýsestur á virðulegan ráðherrabekkinn, leggur svona mikla áherslu á að keyra þetta mál í gegn, gerir það að fyrsta og mikilvægasta málinu, lítur á það sem stefnumarkandi mál? Hér er kominn nýr mennta- og menningarmálaráðherra í stólinn og ætlar að merkja sig með þessu máli. Og þá er um að ræða mál sem er alveg ótrúlega afturhaldssamt og ótrúlega púkalegt, ef mér leyfist að nota svo hallærislegt orð í þessum virðulega ræðustól. Það snýst um hefðbundið afturhald, þ.e. að snúa til baka frá þeirri þróun sem er í öllum löndum í kringum okkur.

Það er líka umhugsunarefni að þessi stimpilpúðastemning, sem er ekki bara hjá Framsóknarflokknum heldur líka hjá hv. þingflokki Sjálfstæðisflokksins, endurspeglast í því að í nefndaráliti meiri hlutans er ekkert um umsagnirnar. Nefndarálit meiri hlutans er í algeru skötulíki. Ekki er fjallað um það á nokkurn hátt hver efnisatriði málsins eru og þann veruleika að ekki einn umsagnaraðili mælir með frumvarpinu. Það er enginn sem segir: Þetta er frábært. Þetta er frábært frumvarp, gerum þetta. Nei, það er enginn sem gerir það.

Hv. meiri hluti nefndarinnar sér ekki einu sinni ástæðu til að reifa málið. Við förum bara eftir forskriftinni: Ráðherrann kemur með einhverja vitleysu og við samþykkjum það af því að þannig vinnum við. Þetta er dálítið á skjön við annað sem truflaði sjálfstæðismenn, sem var skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, og snerist um sjálfstæði þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu, það að við sýndum lágmarkssjálfsvirðingu í því að fara yfir mál, skoða málin; þó að nefndin kæmist að sömu niðurstöðu og ráðherrann þá væri alla vega búið að reifa málin með einhverju móti.

Ég vil geta þess í þessari umræðu að í nefndaráliti minni hluta var missagt að valnefndin væri skipuð tíu fulltrúum. Hið rétta er að valnefndin er skipuð fimm fulltrúum, allsherjar- og menntamálanefnd tilnefnir þrjá, Bandalag íslenskra listamanna einn og samstarfsnefnd háskólastigsins einn. Þetta var missagt í nefndaráliti og ég vænti þess að það verði leiðrétt.

Ræddur hefur verið mikilvægur punktur sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson minntist á í umræðunni á dögunum sem er misskilningurinn að því er varðar hugtakið „lýðræðislegt“ og mér finnst afar mikilvægt að halda þeirri orðræðu til haga. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fer hér fram og vísar til þess að breytingin stafi af lýðræðissjónarmiðum. Hann dregur sem sagt upp lýðræðisrök til að rökstyðja breytinguna. Hvað er í hans huga lýðræðislegt? Það er það sem endurspeglar styrk einstakra þingflokka á Alþingi Íslendinga. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns, sem ég vitnaði í hér áðan, þá er þetta alger misskilningur þegar rætt er um fjölmiðla.

Þegar fjölmiðlar eru undir þá erum við ekki að tala um vægi stjórnmálaflokka á Alþingi í stjórn viðkomandi stofnunar. Nei, þá erum við að tala um „lýðræðislegt“ í þeim skilningi að almenningur treysti stofnuninni, og hér er um að ræða ríkisfjölmiðil þar sem traustið skiptir öllu máli, og að gagnsæi sé fyrir hendi að því er varðar skipan stjórnarmanna og það byggir á því að margar raddir komi að borðinu og séu þess eðlis að þær séu því sem næst hafnar yfir vafa.

Í meðferð málsins í vor lá það fyrir að menn voru að leggja til ákveðna millileið. Sú leið sem hér er valin er ákveðin millileið. Allsherjar- og menntamálanefnd á að tilnefna þrjá í valnefndina af fimm þannig að í raun og veru er um það að ræða að hið pólitískt kjörna Alþingi hefur með það að segja, þ.e. vægið endurspeglast þar, og síðan fulltrúar Bandalags íslenskra listamanna og samstarfsnefndar háskólastigsins. Þetta taldi hæstv. menntamálaráðherra ekki nóg og þá má kannski velta fyrir sér hvort að hans mati dugi ekkert minna en að allir stjórnarmennirnir séu helst úr Valhöll. Þannig var það að minnsta kosti að því er varðar stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem var skipuð fimm fulltrúum, félögum og vinum hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra. Það er eina fólkið sem hæstv. ráðherrann treystir almennilega af marka má hans orð — hann rökstyður það þannig að það sé svo mikilvægt að ráðherrann treysti stjórnarmönnunum. Sem sé, hann treystir ekki öðrum en þeim sem eru í Sjálfstæðisflokknum. Eða hvernig í ósköpunum á að skilja það öðruvísi?

Ég vék stuttlega að því áðan hvað olli viðsnúningi framsóknarmanna og ekki síður hver bað um breytinguna. Hér er um að ræða gamalkunnug tilþrif. Þetta eru gamalkunnug tilþrif sem minna óþægilega á stjórnartíð ríkisstjórnar þáverandi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við lok síðustu aldar. Tilþrif sem snerust um að taka ákvarðanir í sem minnstum hópum. Þetta er stjórnunarstíll sem einkennist af valdhroka og því að samráð sé ekki til bóta. Við getum til að mynda nefnt ákvörðun um að styðja innrásina í Írak sem var tekin bak við luktar dyr, tveir menn. Og þótti eðlilegt. Maður sér að afsprengin haga sér eins og uppalendurnir lögðu upp. Yfirbragðið er svolítið í anda þeirra sem þar um véluðu og mér eru það vonbrigði. Auðvitað vonar maður að stjórnmálin séu í einhvers konar þroskafasa og margir stjórnmálamenn hafa talað um það, og töluðu sérstaklega um það í aðdraganda síðustu kosninga og kosninganna 2009, að komið væri að því að endurmeta stjórnmálin, að við færum upp úr hinum hefðbundnu skotgröfum og ynnum meira þverpólitískt, töluðum hvert við annað o.s.frv.

Þarna er mál sem er, eins og áður hefur komið fram, tiltölulega lítið, tiltölulega sakleysislegt, en er til marks um að þetta hefur ekki breyst. Þarna eru menn á nákvæmlega sömu blaðsíðu og var á síðustu áratugum og árum síðustu aldar. Þetta er leiðinlegt. Mér finnst þetta leiðinlegt og þetta eru vonbrigði. Við afgreiðslu málsins í vor voru ekki nema fjórir þingmenn á móti því og enginn þeirra sem voru á móti málinu á sínum tíma nefndi þetta mál sem sérstakt áhyggjuefni, enginn af þeim. Hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra var ekki einu sinni svo áhyggjufullur að hann sæi ástæðu til að greiða atkvæði um málið. Hann sat í stólnum sínum og greiddi atkvæði með því að ýta á gula takkann, hann ýtti á gula takkann þarna í miðjunni. Hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson var í salnum og hann ýtti á gula takkann í þessu máli. Þeir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma sem voru á móti málinu, enginn af þeim gerði athugasemdir á grundvelli þess sem hér er til umræðu. Flestir voru að ræða tekjugrunn Ríkisútvarpsins, afnotagjöld o.s.frv., enginn var að ræða þetta.

Ég verð að segja að sú umræða sem verið hefur um Ríkisútvarpið úr þessum ranni — og þá er ég ekki að tala sérstaklega um þetta mál hér, ég er frekar að tala um andann sem er í kringum Ríkisútvarpið og hvernig menn tala til þess og ég er að tala um valdamenn, menn á valdastólum. Ég er til að mynda að tala um hæstv. forsætisráðherra Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem í grátpistli sínum í Morgunblaðinu í dag talar um að það séu svo leiðinlegar fréttir í Ríkisútvarpinu. Fréttirnar eru svo leiðinlegar að hann sér ástæðu til að tala um það í fjölmiðlum, skrifaði grein í Morgunblaðið, í fjölmiðil ríkisstjórnarinnar, að það séu svo leiðinlegar fréttir í þessu RÚV þarna að sérstök ástæða sé til að skrifa um það.

Ritstjóri Morgunblaðsins er með tillögu í blaðinu um helgina er leið um að það sé eiginlega best að koma þessu RÚV bara frá. Hann er með tillögu í grínaktugum stíl, af því að hann er húmoristi og fyndinn maður, telja sumir, þar sem hann segir að menn eigi að fá að ráða hvert framlagið fari. Almenningur eigi að fá að ráða því: framlagið rynni þá ekki til RÚV, sem er með leiðinlegu fréttirnar fyrir forsætisráðherra, heldur til háskóla, sjúkrahúss, tónlistarhúss, kattaathvarfsins — nú er penninn fyndinn — skógræktar eða annars þess sem framteljandinn vildi fremur styðja. „Ef eitthvað er að marka auglýsingar RÚV um eigið ágæti og meint traust mun stofnunin vafalaust fagna slíkri mælingu.“

Maður veltir fyrir sér hvort planið sé komið. Liggur planið fyrir? Er planið í innsta kjarna, í hjarta, Sjálfstæðisflokksins, er það komið? Ekki var það í samstarfsyfirlýsingunni, hvergi á opinberum vettvangi. Sjálfstæðisflokkurinn virðist eiga við þann ramma reip að draga að stofnanir flokksins eru kannski ekki endilega best til þess bærar að klára mál heldur þarf að ráðfæra sig við gamla valdhafa í flokknum. Er þarna komið plan um hvað skuli gera með Ríkisútvarpið í fyrsta lagi? Er komin verkáætlun fyrir hæstv. ráðherra mennta- og menningarmála í því í öðru lagi? Og mun þingflokkur Framsóknarflokksins setja spurningarmerki við eitthvað af því í þriðja lagi? Eða er það partur af samkomulaginu að við þessu skuli ekki hreyft? Að ekki einu sinni einn þingmaður í salnum skuli anda út úr sér efasemdum, enginn af hinum bjartleitu, bröttu sigurvegurum kosningabaráttunnar í vor og Íslandsmethöfum í kosningaloforðum, enginn þeirra — er það af því að Framsóknarflokkurinn fékk að koma með 10 punkta plaggið um nefndirnar nýju eða hvað það var? Á þá bara ekkert að tala um þessi mál? Er Framsóknarflokkurinn svona illa haldinn þegar hann er kominn í þetta banvæna faðmlag að hann getur ekki einu sinni tjáð sig um að hann hafi skipt um skoðun? Ekki einn þingmaður flokksins.

Þetta er umhugsunarefni og þetta er sannarlega umhugsunarefni út frá lýðræðissjónarmiðum. Ef það er stemmningin að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að ráða þessu með tómat, sinnep og hráum lauk, eins og einhver orðaði það, þá finnst mér ekki góður svipur á því, ef Framsóknarflokkurinn ætlar að vera svona gersamlega laus við gagnrýni í þessu máli. Staðreyndin er sú, og það sjáum við þessa dagana, að frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, um elli- og örorkulífeyri, hefur verið fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins um margra daga skeið.

Á sumarþingi er það orðið þannig að hér er að hreinsast úr pípunum með hvert málið á fætur öðru, málin eru að klárast. Við væntum þess að vera hér í tvær vikur eða svo. Þriðja vikan er gengin í garð og málið er ekki enn komið til þings, málið er ekki komið á dagskrá. Er þetta eitthvert smámál, er þetta mál sem á að afgreiða með hálfs dags umsagnarfresti, eiga ekki að koma gestir, þarf ekki að ræða þetta mál? Hvernig sjá menn þetta fyrir sér? Er Framsóknarflokkurinn tilbúinn að láta koma svona fram við sig? Er engin döngun í þessum fína 19 manna nýja þingflokki? Er nóg að sitja við borðsendann í Stjórnarráðinu eða þurfa menn ekki að gæta að einhverju jafnvægi, jafnræði í samskiptunum í þinginu? Er Sjálfstæðisflokkurinn bara með stýrið og gírana og allt sem fylgir til að drífa þetta mál áfram og öll önnur mál? Engar spurningar, engar vangaveltur, ekki neitt.

Það sem til stóð að gera með nýjum lögum sem eru gengin í gildi, þau eru gengin í gildi, er að breikka þekkingu innan stjórnar Ríkisútvarpsins sem mundi ríma betur við breytt hlutverk stjórnarinnar og að auki breytt hlutverk stofnunarinnar í íslensku samfélagi af því að þetta er ekki tómarúm. Þetta er ekki bara sakleysisleg breyting sem snýst um að breyta vali stjórnarmanna. Þetta fellur inn í algerlega nýja lagahugsun um Ríkisútvarpið, ný markmiðsákvæði, nýtt og aukið hlutverk stjórnar. Þar ætlar hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Illugi Gunnarsson að taka þennan breiða kubb út, sem var um einhvers konar samráð og einhvers konar lýðræði, og setja gamla kubbinn aftur í, sem er kubbur Valhallar og Sjálfstæðisflokksins og ritstjóra Morgunblaðsins. Það er planið.

Er ætlunin að veikja stofnunina? Snýst það um það? Er hæstv. ráðherra hræddur við þá breytingu sem var samþykkt hér í vor? Er einhver ótti við að þarna komi að fagfólk á sviði menningar og úr hópi fræðimanna úr háskólasamfélaginu og þar með verði breiðari umræða innan stjórnar og meiri skilningur á fjölþættu hlutverki Ríkisútvarpsins, er það ekki jákvætt? Er ekki jákvætt að fá fleiri raddir að borðinu? Viljum við ekki ná breiðri sátt úti í samfélaginu? Með frumvarpinu sem hæstv. ráðherra leggur fram — og hann leyfir sér, leyfi ég mér að segja, að klæða það í búning lýðræðis. Hann leyfir sér að nota orðalagið „lýðræði“ yfir þessa breytingu og gerir enga tilraun í þeirri umræðu til að ná nokkurri sátt um málið úti í samfélaginu. Það dugar honum að tala við sitt fólk og hann veit af stuðningi Framsóknarflokksins. Það þarf ekki meir.

Er það sem hér er verið að gera ótti? Í samfélagi þar sem skortir vandaða fjölmiðlaumræðu er þá ætlunin að veikja stofnunina? Eða er verkefnið að herða pólitísku tökin eins og ýjað er að í leiðara Morgunblaðsins um helgina, halda henni á línunni? Er það markmiðið? Er það ætlun hæstv. ráðherra að eiga greiðari leið inn í dagleg störf stjórnarinnar? Vill hæstv. ráðherra eiga greiðari leið til starfsmanna Ríkisútvarpsins frá degi til dags? Er það markmiðið? Markmiðið er algerlega óljóst vegna þess að rökin um lýðræðisvæðingu standast ekki. Þau standast enga skoðun.

Ríkisútvarpið er okkar mikilvægasti fjölmiðill. Það hefur gríðarlega mikilvægt hlutverk í samfélaginu. Það á að styrkja það en ekki veikja það og það á að vera frjálst frá pólitískum afskiptum. Það hefur verið viðfangsefni okkar um áratugaskeið að ræða leiðir til að draga úr áhrifum stjórnmálanna á Ríkisútvarpið. Allar ákvarðanir yfirstjórnar og stjórnar eiga að vera á faglegum grunni. Hlutverkið er margþætt, samsett, það er menningarlegt, það er öryggishlutverk og það er þjónusta við lýðræðishlutverkið, sem er í raun og veru hrygglengjan í nýju lögunum sem nú er verið að krafsa í af fullkomnu virðingarleysi.

Það er verið að krafsa í það að auka gagnsæi í rekstri Ríkisútvarpsins, að auka lýðræði í stjórnfyrirkomulaginu, að leita leiða til að tryggja sjálfstæði og starfsöryggi starfsmanna RÚV. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til, um stóraukin pólitísk ítök, er vegið að þeim mikilvægu markmiðum. Og til viðbótar leggur hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra það á sig að leggja það líka til að hinn stórhættulegi fulltrúi starfsmanna verði utan dyra meðan fundað er. Út með þig, fulltrúi starfsmanna. Statt þú úti meðan við erum að tala saman, fólkið sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra treystir.

Með lögunum var á sínum tíma verið að stíga mikilvægt skref í gríðarlega miklu og breiðu samráði. Það mikla og breiða samráð á að vera það verklag sem við eigum að viðhafa í þingsalnum. Það stendur ekki á því þegar við erum að ræða önnur mál, eins og skuldavandann eða eitthvað annað, að þá þarf að tryggja mjög ítarlega vinnu, margar nefndir, langan tíma, hlusta eftir öllum röddum o.s.frv. En í þessu máli er ekkert samráð og því hefur ekki enn þá verið svarað af hverju lá svona á. Hver bað yfir höfuð um þessa breytingu og hvert er hið raunverulega markmið með henni? Það markmið er sannarlega ekki lýðræðisvæðing stofnunarinnar.

Í niðurstöðu í nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar, sem ég mælti fyrir á dögunum, kemur fram að minni hlutinn mótmælti því harðlega á sínum tíma að málið væri afgreitt frá nefndinni yfir höfuð, enda telur minni hlutinn málið fullkomlega vanbúið. Verið er að rjúfa mikilvæga og breiða sátt sem liggur að baki þeim nýju lögum sem voru samþykkt í vor með miklum meiri hluta á Alþingi og með ítrekuðum stuðningi Framsóknarflokksins.

Það er verið að herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu, hverfa frá þeirri sýn að breið skírskotun stjórnarmanna, þekking og reynsla af fjölmiðlum og menningarmálum, sé best til þess fallin að tryggja farsæla stjórn fjölmiðils sem starfa á í almannaþágu. Um árabil hefur það verið rætt í samfélaginu að freista þess að tryggja ákveðna fjarlægð milli Ríkisútvarpsins og hins pólitíska valds en með þessu frumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra er stigið skref inn í fortíðina á ný þar sem gamaldags hugmyndir um pólitísk ítök ráða ríkjum. Það eru sömu hugmyndir og leiða hæstv. ráðherra að þeirri niðurstöðu að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna sé best borgið með fimm fulltrúum úr Sjálfstæðisflokknum.

Við leggjumst eindregið gegn því að málið nái fram að ganga og teljum brýnt að horft sé til faglegra atriða við skipun stjórnar. Við mælum með því að frumvarpið verði dregið til baka og núverandi löggjöf verði fylgt til enda þannig að tilnefnd verði valnefnd samkvæmt lögum. Við lýsum okkur tilbúin að tilnefna fulltrúa allsherjar- og menntamálanefndar þannig að lögin komist til framkvæmda.