142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér inn í umræðuna, loksins, ekki veitir af að einhver frekari rökstuðningur komi fyrir frumvarpinu.

Hv. þingmaður nefnir að honum finnist að við stjórnmálamenn ættum að tala saman og koma saman faglegri stjórn Ríkisútvarpsins en í lagafrumvarpinu er talað um hlutbundna kosningu. Það er ekki fagleg stjórn, það er pólitísk stjórn, hún getur í raun og veru ekki orðið neitt miklu pólitískari.

Mér sýnist enn og aftur — ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir að hlýða á þessi orð — að einhver misskilningur sé í gangi varðandi starfssvið Ríkisútvarpsins og fjölmiðla almennt. Það á ekki að vera að tala máli þings eða ríkisstjórnar heldur til þess að veita aðhald, til þess að vera gagnrýnið, til þess að vera svolítið vont við ríkisstjórnina, það er hugmyndin. Það er hugmyndin með frjálsri fjölmiðlun, til þess eru fjölmiðlar. Það að kalla þetta faglegt er einfaldlega ekki satt, mjög augljóslega ekki satt.

Hvað varðar ábyrgðina sem hv. þingmaður nefndi áðan má með sömu rökum vissulega nefna það þegar kemur að því að ráðherra útnefni einfaldlega stjórn, eins og hefur nú verið stungið upp á hér á hinu háa Alþingi af öðrum hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Svo langar mig að gera smáathugasemd við það að hv. þingmaður hafi tekið þátt í umræðu í allsherjarnefnd. Ég var líka í allsherjarnefnd, ég man ekki eftir neinni sérstakri umræðu meðal þingmanna um þetta mál. Ég man að við fengum til okkar fólk sem talaði undantekningarlítið, reyndar næstum því undantekningarlaust — það var einn gestur sem kom til okkar sem studdi þetta, en síðan var þetta ekki rætt neitt sérstaklega á meðal okkar nefndarmanna.

Mér finnst reyndar fullt tilefni til að við ræðum þetta betur, sérstaklega með hliðsjón af því ef hv. þingmaður er hugsanlega tilbúinn að setja það í lög að starfsmaður Ríkisútvarpsins fái þar áheyrnarfulltrúa. Ef það er ekki svo slæm hugmynd ættum við kannski bara að skella því inn í frumvarpið. Í þeim tilgangi langar mig að stinga upp á því að frumvarpið fari aftur til allsherjarnefndar þannig að við gætum rætt þetta efnislega, þingmenn sjálfir, og tekið fyrir alla þessa punkta. Þá gefst kannski líka tækifæri til að hjálpa til við að gera þetta allt saman miklu lýðræðislegra og gegnsærra, það er nóg af hugmyndum þar af. Hægt er til dæmis að sleppa því að hafa þetta hlutbundna kosningu, þá gætu kannski allir flokkar komið að því að skipa þá stjórn, það er ein hugmynd. Við gætum einfaldlega tekið út orðið „hlutbundin“, kannski hefði það einhver áhrif. Við gætum sett inn tillögur þess efnis að allir flokkar þyrftu að samþykkja hvern stjórnarmeðlim. Þá væri fullkomin sátt um stjórn Ríkisútvarpsins.

Hægt er að auka gegnsæið með því að birta fundargerðir, eða vitið þið hvað? Við gætum jafnvel sett það í lög að útvarpa beri öllum fundum allsherjarnefndar eða þeirra nefnda þar sem umræður fara fram um hver skuli sitja í stjórn. Við gætum jafnvel gengið lengra og útvarpað einfaldlega öllum fundum stjórnar Ríkisútvarpsins. Það væri hægt, það er möguleiki. Það er ýmislegt hægt að gera til að auka lýðræði og til að auka gegnsæi, en það að gera Ríkisútvarpið pólitískt er ekki skref í þá átt.

Þegar kemur að þeim blönduðu hagsmunum sem eru oft nefndir frá BÍL og háskólanum þá finnst mér svolítið kaldhæðnislegt að gert er ráð fyrir því að slíkir hagsmunir muni ráða för. Vegna þess að ef þetta verður hlutbundin kosning þá vitum við öll hvaðan hagsmunirnir koma.