142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:53]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er eins og hv. þingmaður, ég trúi líka á hið góða í manninum og ég trúi því að allir um síðir sjái ljósið. En ég held að við hv. þingmaður getum verið algerlega sammála um að eins og sakir standa er hæstv. menntamálaráðherra þannig staddur hvað varðar afstöðu til ljóssins að það eru engar líkur til að hann sjái það, í þessu máli a.m.k.

Á örfáum dögum hefur hæstv. menntamálaráðherra sýnt nokkuð vel á kortið. Ég held að hann hafi með verkum sínum síðasta hálfan mánuðinn sýnt nokkuð vel að sú yrðing sem ég setti fram í andsvari við hv. þingmann, um að menn þyrftu að hafa flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum til að ná máli í augum hans, hennar sér ekki bara stað í frumvarpinu sem við ræðum hér því tilgangur þess er ekki neinn annar en sá að Sjálfstæðisflokkurinn nái taki á Ríkisútvarpinu. Herra trúr og herra forseti. Var ekki hæstv. menntamálaráðherra líka að taka stökkið á öðrum vettvangi fyrir skömmu? Var ekki hæstv. menntamálaráðherra að skipa í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna? Og hvað þurfti þar til að vera alvörumaður eins og hv. þingmaður spurði áðan? Nákvæmlega sama og mun þurfa til að komast í gegnum lófa hæstv. menntamálaráðherra í stjórn Ríkisútvarpsins. Menn þurftu flokksskírteini í Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.)

Það sem við sjáum hér á fyrstu dögum þings er einfaldlega það að menn eru að hreiðra um sig, þeir eru að ryðja brautina fyrir sitt fólk að kjötkötlunum. Þeir eru að uppfylla það sem fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og einn af hugsuðum Sjálfstæðisflokksins var nógu ærlegur og nógu heiðarlegur til að skrifa á prenti. Það sem Styrmir Gunnarsson sagði (Forseti hringir.) og fólst í því sem hv. þingmaður vísaði til: Hreinsa til í kerfinu. Það er hæstv. menntamálaráðherra að gera.