142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[15:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hverju ég á að bæta við þetta, hv. þingmaður kom þessu vel frá sér. (Gripið fram í.) En ég get svarað hv. þm. Pétri Blöndal, sem snupraði mig fyrir að vitna í menn úti í bæ, hverjir það voru, hvaða þingmenn Sjálfstæðisflokksins það voru sem létu hafa það eftir sér að hreinsa þyrfti út. Ég get upplýst að í umræðunni um daginn var það hv. þm. Brynjar Níelsson sem sagði að það þyrfti alvörufólk í stjórn RÚV. Og í vor þegar verið var að tala um þetta nýja frumvarp lét hv. þm. Jón Gunnarsson hafa það eftir sér að losa þyrfti Ríkisútvarpið við þetta samfylkingar- og vinstrigrænalið.

Það var það sem ég var að meina og það sem fékk mig til að koma hingað upp og segja að maður væri hálfhræddur við svona aðgerðir af því að þær miða bara að því að ná pólitísku valdi á stofnuninni, því miður.

Það hefur oft verið talað um ábyrgð. Er ekki bara ábyrgðin hjá menntamálaráðherra á þessari stofnun þó að það sé skipað öðruvísi í stjórnina? Er hún ekki alltaf hjá hæstv. menntamálaráðherra? Ég hefði haldið það. og hann hefði þá öll tök á því að koma inn og hafa einhver afskipti af því ef þetta er ekki að ganga vel. Það hlýtur að vera sem æðsti maður stofnunarinnar eða ég hefði haldið það.