142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:13]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að segja það fyrst að mér hefur þótt nokkuð bera á því að hv. þingmenn hafi farið nokkuð fram úr sér í þessari umræðu, þ.e. leitt hana inn í rökræðu sem hefur kannski meira byggt á getgátum um hvað mögulega væri að baki þeirri tillögu sem hér er lagt til að verði gerð að lögum og síðan eftir að hafa giskað á hvað lægi að baki orðið alveg fjúkandi reiðir yfir því að það kannski lægi að baki sem hv. þingmenn höfðu sjálfir giskað á.

Ég leyfi mér að fullyrða, virðulegi forseti, að þegar þetta mál er nú skoðað og farið yfir það sem var lagt upp af minni hálfu við 1. umr. málsins má ljóst vera að svo er ekki. Margar þeirra samsæriskenninga sem hér hafa verið reifaðar verð ég að segja að eru, eins og oft er reyndar með samsæriskenningar, kannski ágætar sem eitthvert skemmtanagildi til að fylgjast með en hafa í sjálfu sér lítið annað vægi inn í þessa umræðu.

Virðulegi forseti. Það sem liggur hér að baki er einfaldlega sú skoðun að það sé eðlilegra, heppilegra og stuðli meira að gagnsæi að Alþingi Íslendinga, þessi virðulega stofnun, skipi beint stjórn Ríkisútvarpsins, þessarar mikilvægu stofnunar þjóðarinnar. Ég tel að vel fari á því. Ég tel að það undirstriki mikilvægi Ríkisútvarpsins að það sé Alþingi sjálft sem skipi stjórnina.

Hér hefur verið haft á orði í ræðustól í dag að um sé að ræða einhvers konar gamaldags hugmyndir um pólitísk ítök. Mér þykir Alþingi ekki gamaldags. Mér þykir Alþingi virðuleg stofnun og mikilvæg. Þess vegna er það ekkert óeðlilegt eða óeðlileg skoðun að það fari vel á því að Alþingi Íslendinga skipi þessa stjórn.

Ég verð að segja enn og aftur, virðulegi forseti, að mér hefur stundum fundist menn fara svolítið langt fram úr sér og verið býsna yfirlýsingaglaðir í þessu máli. Ég er líka þeirrar skoðunar að það myndist falskt öryggi þegar menn setja upp valnefnd með þeim hætti sem lagt er til í þeim lögum sem tóku gildi hér í vor um val á stjórnarmönnum. Ég færði fyrir því rök í ræðu minni við 1. umr. að það væri alveg sama hætta á pólitískum ítökum, pólitískum afskiptum, hvort sem menn stilltu upp með valnefndarfyrirkomulagi eða í gegnum þingið, en það væri þó gegnsærra og væri klárt hverjir bæru ábyrgð þar á þegar um væri að ræða Alþingi Íslendinga. Það er hugsunin.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, með yðar leyfi að grípa niður í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, sem er flutt í kjölfar þeirrar ræðu sem ég hafði haldið þar sem er tekist á við akkúrat þessa hugsun. Hér er sagt, með yðar leyfi:

„Það var ekki endilega vegna þess að ætlunin væri að draga upp andstæður á milli þess sem við köllum faglegt og þess sem við köllum pólitískt,“ þ.e. tilgangurinn með þessari lagasetningu. Það var sem sagt ekki endilega það, það var ekki stóra hugsunin. Ég gríp hér áfram niður, með yðar leyfi, virðulegi forseti:

„Hugsunin var ekki sú að búa til allsendis ópólitíska stjórn, annars hefði hv. allsherjar- og menntamálanefnd ekki komið að málinu, það var alls ekki hugsunin. Hugsunin var sú að breikka grundvöllinn sem stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á, ekki síst vegna þess að í aðdraganda þessarar lagasetningar var farið í gríðarlega vinnu“ o.s.frv.

Með öðrum orðum leggur fyrrverandi hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra þetta upp með þeim hætti að það sem skipti mestu máli væri hinn breiði grundvöllur.

Beri menn nú saman þessi hófstilltu ummæli við ýmis þau ummæli sem hér hafa fallið í þessari umræðu. Þá er kannski spurningin um kjarna þessa máls sem er þessi: Er líklegt að fimm manna valnefnd sé betur til þess fallin að skipa fólk með breiðan bakgrunn en Alþingi Íslendinga með 63 þingmönnum sem hafa hlotið kosningu kjósenda í landinu? Menn koma úr mismunandi kjördæmum, hafa mismunandi menntunarbakgrunn, mismunandi lífsreynslu, mismunandi lífsskoðanir. Er líklegt að sá hópur skili þröngri stjórn sem ráði ekkert við sitt verkefni frekar en sú valnefnd sem byggir á því að það komi þrír í þá nefnd, reyndar frá þessu sama ómögulega þingi eins og talað er, og tveir, annars vegar frá Bandalagi íslenskra listamanna og hinn frá samráðsvettvangi háskólasamfélagsins? Er endilega víst að það sé svo miklu líklegra til að skila breiðari stjórn?

Miðað við yfirlýsingarnar sem hér hafa fallið, virðulegi forseti, ættu menn að horfa aðeins til þess að í þessari valnefnd var meiri hlutinn skipaður af þinginu. Svo er talað eins og hér hafi verið stigin einhver stórkostleg skref aftur í gráa forneskju hvað varðar, eins og talað er um, pólitísk ítök Sjálfstæðisflokksins einna helst auðvitað varðandi Ríkisútvarpið. Þá sjá menn vægi orða hæstv. fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, þegar hún segir, með yðar leyfi, virðulegur forseti. Ég endurtek þetta:

„Hugsunin var ekki sú að búa til allsendis ópólitíska stjórn … Hugsunin var sú að breikka grundvöllinn sem stjórn Ríkisútvarpsins væri skipuð á …“

Þarna getur menn greint á um hvort sé heppilegra, eða líklegra að það skili sér breið stjórn sem er valin af öllu Alþingi eða af fimm manna uppstillingarnefnd þar sem þrír fulltrúar af fimm koma frá Alþingi. Þetta eru öll ósköpin, virðulegi forseti, og hefur orðið mönnum tilefni til mikilla samsæriskenninga.

Það er rétt sem hefur verið bent á að gerðar voru breytingar á hlutverki stjórnar í núgildandi lögum. Kannski skiptir mestu máli í þessari umræðu ákvæði 1. töluliðar 10. gr. um starfssvið stjórnarinnar þar sem stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Að móta í samvinnu við útvarpsstjóra dagskrárstefnu og megináherslur í starfi Ríkisútvarpsins til lengri tíma.“

Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, að hér er talað um til lengri tíma. Þegar menn skoða hlutverk stjórnarinnar sem hefur tekið miklum breytingum frá því að Ríkisútvarpið var gert að ohf. væri það hollt fyrir marga hv. þingmenn að bera saman ummæli sín og áhyggjur þær sem hafa verið settar fram við starfssvið stjórnarinnar samkvæmt lögum.

Ég ætla ekkert að elta ólar við mistökin í nefndaráliti minni hlutans varðandi skipun þessarar valnefndar. Þar hefur verið bent á ákveðin mistök og þau skýrð sem einhvers konar innsláttarvilla. Í áliti minni hlutans stendur, virðulegi forseti, með yðar leyfi:

„Aðrir fimm stjórnarmenn eru tilnefndir af valnefnd. Í valnefndina er síðan skipað tíu fulltrúum. Tilnefnir ráðherra helming nefndarmannanna, þ.e. fimm manns, allsherjar- og menntamálanefnd þrjá, Bandalag íslenskra listamanna einn og Samstarfsnefnd háskólastigsins einn.“

Ég veit ekki hvort þetta flokkast nú undir innsláttarvillu, hvort menn hafa kannski ekki alveg skoðað málið nægilega vel eða hvað það nú er. Ég tek þá skýringu gilda að hér sé um fremur viðamikla innsláttarvillu að ræða. Það kannski skýrir það sem ég heyrði í umræðunni, mig brestur bara minni hver það var akkúrat, þar sem talað var um að hið nýja fyrirkomulag valnefndarinnar tryggði aðkomu fjölda hópa að skipun í stjórn útvarpsins. Það er ekki svo, virðulegi forseti, þegar betur er að gáð nema náttúrlega maður taki gilt það sem stendur í áliti minni hlutans. Það er nákvæmlega þannig að Alþingi átti að skipa þrjá fulltrúa í valnefndina, sem skipa þá meiri hluta valnefndarinnar, síðan Bandalag íslenskra listamanna einn og sömuleiðis samráðsvettvangur háskólanna.

Úr því að talið berst að fleiri hópum og menn horfa á samsetningu dagskrár Ríkisútvarpsins geta menn velt fyrir sér hvort til dæmis væri ekki rétt, hvort ekki hefðu verið málefnaleg rök fyrir því, að Íþróttasamband Íslands hefði skipað fulltrúa í þessa valnefnd. Hvers vegna? Jú, vegna þess að stór hluti af dagskrárgerð Ríkisútvarpsins snýr að íþróttamálum. Stór hluti af útsendingum Ríkisútvarpsins er á því sviðinu. Hefði ekki verið eðlilegt að það hefði verið gert? Það er hægt að telja upp marga aðra hópa sem hefði verið hægt að rökstyðja að kæmu inn í slíka valnefnd.

Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, svona eftir á að hyggja að það hefði þá verið skynsamlegra í sjálfu sér að hafa þessa valnefnd mun stærri ef menn hefðu viljað fara þessa leið en ég er ósammála því að fara slíka leið með þessa stofnun. Ég tel að valnefndarfyrirkomulagið geti vel átt við fjölmargar aðrar stofnanir, en við þessa stofnun tel ég skynsamlegra að Alþingi sjálft kjósi stjórnina beint með hlutfallskosningu.

Það er líka rétt, og ég hef tekið eftir því í umræðunni, að geta þess að það er stundum talað eins og það sé verið að hverfa til löngu liðinna tíma og jafnvel er látið að því liggja að það sé verið að gjörbreyta fyrirkomulaginu varðandi val á stjórn Ríkisútvarpsins. Það fyrirkomulag sem nú er hefur verið um langa hríð. Hlutverk stjórnarinnar hefur reyndar breyst enn og aftur, það hefur verið rammað meira inn frá því sem áður var, en þetta fyrirkomulag höfum við haft um langa tíð.

Hefur til dæmis núverandi stjórn verið merki um hert, eða hörð, tök einhverra stjórnmálaflokka á starfsemi Ríkisútvarpsins vegna þess að hún var skipuð af Alþingi? Er það svo? Hafa menn upplifað þessa hluti þannig? (Gripið fram í: Sumir ykkar.)

Hér er kallað fram í: „Sumir ykkar“ þegar að þessu er spurt og þá er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir um það hvernig Ríkisútvarpið rækir hlutverk sitt. Það er hluti af hinni lýðræðislegu umræðu og menn eiga ekki að kveinka sér undan henni. Það er ekki ástæða til þess að fara af hjöruliðunum þegar fram koma hugmyndir um hvort breyta eigi fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Það er eðlilegur hluti af lýðræðislegri umræðu og Ríkisútvarpið þolir hana. Það er mikil viðkvæmni að láta eins og ekki megi hafa mismunandi skoðanir á þessari stofnun.

Ég er í hópi þeirra sem telja að Ríkisútvarpið hafi mikilvægu hlutverki að gegna. Ég tel mjög mikilvægt að þeirri stofnun sé gert kleift að rækja það hlutverk af myndarskap. Það þýðir ekki að stofnunin sé hafin yfir gagnrýni, að ekki eigi að fara fram umræða um það hlutverk. Hún getur orðið býsna hörð og sumum kann jafnvel að finnast hún ómálefnaleg. Það kann vel að vera, en það er enginn í þeirri stöðu að geta gefið einhverjar einkunnir á þessa hluti með öðrum hætti en bara þá að svara málefnalega og gera grein fyrir mótrökum.

Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að það sé ástæða til að samþykkja þetta frumvarp og gera það að lögum. Ég tel einnig áhyggjur þær sem fram hafa komið um að hér eigi að herða pólitísk tök algerlega tilhæfulausar. Í raun og veru er ekkert annað að gerast en það ástand sem hefur verið hér árum og áratugum saman. Það verður áfram, þ.e. hvað varðar val stjórnarmannanna. Við erum með nýtt fyrirkomulag hvað varðar verksvið stjórnarinnar og valdheimildir hennar. Við leggjum það til að fjölgað verði í stjórninni um tvo.

Það er allt heila málið. Það hefur verið kallað eftir því hvað liggi að baki, hvers vegna þetta sé gert. Svo fara menn af stað um víðan völl. En að baki er ekkert annað en sú hugsun fyrst og fremst að ég tel að valnefndarfyrirkomulagið með þremur tilnefndum af Alþingi, einum af Bandalagi íslenskra listamanna og einum frá samráðsvettvangi háskólanna sé ekki betra fyrirkomulag en það að Alþingi Íslendinga skipi þessa stjórn beint. Það er heila málið. Stærra er það ekki í sjálfu sér. Ég tel það samt mikilvægt og ég hefði ekki flutt þetta frumvarp nema ég teldi þetta mikilvægt og að það væri nauðsynlegt að gera þetta með þessum hætti.

Ég skal játa að þegar þetta mál fór í gegnum þingið í vor hafði ég ekki hugsað þetta í hörgul hvað snýr að skipan stjórnarinnar. Þegar ég settist aftur yfir málið komst ég að þeirri niðurstöðu að ég væri þeirrar skoðunar að það væri betra að hafa þetta fyrirkomulag með öðrum hætti og ég vildi láta reyna á það á Alþingi hvort það sjónarmið nyti meiri hluta og þar með yrðu gerðar breytingar á lögunum. Flóknara var það ekki.

Ég vil segja eitt vegna umræðu um stöðu starfsmanna og aðkomu þeirra að stjórn Ríkisútvarpsins. Ég get vel tekið undir það sem kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, það kann að vera skynsamlegt að tryggja að starfsmennirnir eigi aðkomu að og hafi áheyrnarfulltrúa í stjórn. Ég tók líka eftir ummælum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar þar að lútandi. Það væri mikilvægt að reyna að ná fram einhverjum sáttagrunni í þessu máli þótt ég skilji vel að þar af leiðandi ganga menn ekki fullsáttir frá málinu. Ég átta mig á því að hér eru mismunandi skoðanir undir. En ég er alveg tilbúinn að teygja mig í þá átt og líta svo á að það væri til þess fallið að auka sátt um þennan þátt málsins þótt ég ítreki að ég er ekki að ætlast til þess að þar með falli þetta mál í einhverja ljúfa sáttalöð. Ég heyri að mörgum hv. þingmönnum er mikið niðri fyrir, en ég tel þó að um leið og menn aðeins draga andann og skoða málið af aðeins meiri sanngirni og sleppa eigin samsæriskenningum og að æsa sig út af þeim komist þeir að því að hér eru ekki á ferðinni þau ósköp sem þeir láta hér í umræðunum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég er algerlega tilbúinn að skoða hvort rétt sé við 3. umr., úr því að búið er að óska eftir því að málið gangi aftur til nefndar sem ég tók eftir að var gert í umræðunni áðan, hvort ekki fari vel á því að nefndin skoði alveg sérstaklega hvort það sé hægt að gera ráð fyrir því að í stjórn bætist við áheyrnarfulltrúi af hálfu starfsmanna.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, þakka ég fyrir þá umræðu sem málið hefur hlotið. Ég þakka líka fyrir ágæta vinnu nefndarmanna við nefndarálitin og vonast til þess að málið gangi hratt og vel í gegn og hljóti samþykki að lokum.