142. löggjafarþing — 12. fundur,  25. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans áðan. Ég verð að undra mig á tímamörkunum. Eru það ekki tvær mínútur í fyrri?

(Forseti (ÞorS): Tvær mínútur í fyrri.)

Ég sé að klukkan telur hratt niður hjá mér á einni mínútu.

Ráðherrann gerir því skóna að menn séu að finna upp einhvers konar samsæriskenningar og einhvern tilbúning um tilurð þessa máls. Það hefur verið gengið eftir því við umræðuna hver sé ástæðan fyrir því að þingmálið kemur hérna inn. Það er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum, þeim lista. Það virðist enginn hafa beðið um þetta. Því hefur ekki verið svarað hver hefur kallað eftir því. Það kemur fram í ræðu ráðherrans að málið sé, með leyfi forseta, „meðal fyrstu mála sem komu á mitt borð sem mennta- og menningarmálaráðherra“. En það kemur ekki fram að við höfum ekki fengið upplýsingar í umræðunni hver bar málið til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, hvaðan það er sprottið og hver er að biðja um það. Hefur núverandi fyrirkomulag háð stjórninni, sem dæmi, frá því að lögin voru samþykkt síðast í vetur um Ríkisútvarpið?

Það kemur sömuleiðis fram í ræðu hæstv. ráðherra að hann hafi skoðað þetta mál vandlega, það hafi verið vandlega skoðað. Það hafa ekki fengist upplýsingar um hvernig sú skoðun fór fram, við hverja var haft samráð. Voru gerðar einhverjar úttektir á málinu eða rannsóknir að öðru leyti?

Það kom fram áðan að þetta er einfaldlega skoðun ráðherrans. Þetta er einfaldlega skoðun ráðherrans sem bendir til þess að ekki hafi verið ítarlega kannað við undirbúning þessara laga eða leitað eftir áliti þeirra sem málið varðar eða málið kynnt öðrum til frekari umsagnar.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Er það virkilega svo að þetta mál hafi ekki verið rætt, undirbúið (Forseti hringir.)að neinu leyti nema við hans eigið borð og þá kannski í samtali við hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) sjálfan?